Átök Jóhann Karl Reynisson í glímu við Elvar Friðriksson og Árna B.Árnason.
Átök Jóhann Karl Reynisson í glímu við Elvar Friðriksson og Árna B.Árnason. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Nesinu Ívar Benediktsson iben@mbl.is Þegar mest á reyndi hjá leikmönnum Gróttu léku þeir langversta leik sinn á keppnistímabili er þeir mættu FH-ingum öðru sinni í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í gærkvöldi.

Á Nesinu

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Þegar mest á reyndi hjá leikmönnum Gróttu léku þeir langversta leik sinn á keppnistímabili er þeir mættu FH-ingum öðru sinni í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í gærkvöldi. Þeir létu deildarmeistara FH leika sig grátt, nánast eins og kött að mús fyrir framan stóran hóp stuðningsmanna sinna sem vonuðust svo sannarlega eftir að fá oddaleik í Kaplakrika á laugardaginn. Niðurstaðan var 11 marka tap, 31:20, sem var síst of stór sigur. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn orðinn níu mörk, 17:8, og því miður fyrir daufa Seltirninga, utan vallar sem innan, benti ekkert til að taflið snerist við í síðari hálfleik.

Sú varð heldur ekki raunin. FH-ingar héldu góðum dampi fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks og gáfu Gróttumönnum aldrei minnsta tækifæri til að eygja von um að komast inn í leikinn. Þegar leikmenn FH misstu einbeitinguna upp úr miðjum síðari hálfleik var Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari fljótur að taka leikhlé og lesa yfir hausamótunum á þeim, sem varð til að þeir bitu á ný í skjaldarrendur og juku forskot sitt.

FH-ingar voru greinilega staðráðnir frá upphafi að gera út um einvígið með leiknum í gærkvöldi. Þeir léku á als oddi jafnt í vörn sem sókn auk þess sem Ágúst Elí Björgvinsson var vel á verði í markinu.

Gróttumenn voru einfaldlega ekki klárir í slaginn sem FH-ingar buðu upp í. Þeim féll allur ketill í eld, jafnt í vörn sem sókn. Sannarlega er of djúpt í árinni tekið að segja þá hafa lagt árar í bát við mótlætið. Nær væri að segja að þeir hafi aldrei tekið upp árar sínar, lagt í kefa og reynt að róa, þótt ekki væri nema lífróður. Knörr þeirra rak stjórnlaust í 60 mínútur undan golunni upp í naust hvar brotnaði niður í fjöruborðinu, borð fyrir borð. Tvö neyðarköll Gunnars Andréssonar snemma leiks höfðu ekkert að segja.

Sannarlega var skarð fyrir skildi hjá Gróttu að Þráinn Orri Jónsson varð að vera áhorfandi að ósköpunum vegna leikbanns. Sú staðreynd átti ekki að koma í veg fyrir félagar hans sem eftir voru sýndu hvers þeir væru megnugir.

„Það var ljóst eftir 20 mínútur hvert stefndi,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH, eftir leikinn. Því miður fyrir Gróttu hitti Ásbjörn naglann á höfuðið. FH-ingar mættu með réttu hugarfari til leiks, ákveðnir í að brenna sig ekki á sama soðinu tvisvar í þessari rimmu.