Teljari Stefán Jeppesen setur upp nýja teljarann í Dimmuborgum.
Teljari Stefán Jeppesen setur upp nýja teljarann í Dimmuborgum. — Ljósmynd/Umhverfisstofnun
Settur hefur verið upp teljari í Dimmuborgum í Mývatnssveit, sem telur alla þá sem ganga inn um aðalhliðið niður í borgirnar. Fyrir var teljari sem telur bíla sem koma þangað.

Settur hefur verið upp teljari í Dimmuborgum í Mývatnssveit, sem telur alla þá sem ganga inn um aðalhliðið niður í borgirnar. Fyrir var teljari sem telur bíla sem koma þangað. Samkvæmt fyrri mælingum lögðu yfir 350 þúsund manns leið sína í Dimmuborgir á síðasta ári.

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun er haft eftir Davíð Örvari Hanssyni, sérfræðingi hjá stofnuninni í Mývatnssveit, að samkvæmt fyrstu tölum hafi um 100 ferðamenn notið náttúrufegurðar Dimmuborga í fyrrakvöld eftir að mælirinn var settur upp.

Mælirinn er færanlegur og er ætlað að gefa upplýsingar um fjölda fólks á friðlýstum svæðum á vegum Umhverfisstofnunar. Byrjað er í Dimmuborgum en svo fer mælirinn á flakk. Munu upplýsingarnar nýtast til að sjá hvenær fólk er flest í Dimmuborgum. Davíð segir að þannig sé t.d. hægt að meta hvenær á að hafa landverði á svæðinu.