Göngin Mynd tekin af vatnsklæðingarkafla inni í göngunum. Svona klæðing er aðeins sett þar sem vatn lekur inn í göngin. Búið er að setja upp járnanet yfir dúkinn á myndinni en eftir að steypa yfir 80 mm lag með sprautusteypu.
Göngin Mynd tekin af vatnsklæðingarkafla inni í göngunum. Svona klæðing er aðeins sett þar sem vatn lekur inn í göngin. Búið er að setja upp járnanet yfir dúkinn á myndinni en eftir að steypa yfir 80 mm lag með sprautusteypu. — Ljósmynd/Hnit
Framkvæmdir við hin nýju Norðfjarðargöng ganga hægt en örugglega, að sögn Gísla Eiríkssonar, forstöðumanns jarðganga hjá Vegagerðinni. Um áramótin var lokið við vatnsklæðingu ganganna og uppsteypu vegskála.

Framkvæmdir við hin nýju Norðfjarðargöng ganga hægt en örugglega, að sögn Gísla Eiríkssonar, forstöðumanns jarðganga hjá Vegagerðinni.

Um áramótin var lokið við vatnsklæðingu ganganna og uppsteypu vegskála. Síðan hefur verið unnið við frágang og standsetningu spennistöðva og lokið við að leggja pípur í jörðu. Búið er að leggja 11 kV jarðstreng í göngin og tengja allar sex spennistöðvar. Voru stöðvarnar „spennusettar“ á fimmtudag í síðustu viku. Þá hefur að sögn Gísla verið unnið að lögn neðra burðarlags og er því nú lokið í göngum. Nú er unnið við að flytja inn í göngin efra burðarlagsefni undir malbik, en áætlað er að malbikun hefjist 24. apríl. Þá er eftir að steypa axlir og leggja rafmagn að miklu leyti. „Eftir að malbikun ganga er lokið verður farið af krafti í að ganga frá öllum vegum utan ganga,“ segir Gísli. Skiladagur verksins er 1. september í haust og miðað er við að þá verði allt tilbúið.

Lengd ganga í bergi er 7.542 metrar og lengd vegskála beggja vegna þeirra er 366 metrar. Heildarlengd er því 7.908 metrar. sisi@mbl.is