Stjórnmál Sósíalismi hefur víða náð fótfestu, m.a. í sumum landa Suður-Ameríku, en þar má helst nefna Venesúela, þar sem honum er þó mótmælt.
Stjórnmál Sósíalismi hefur víða náð fótfestu, m.a. í sumum landa Suður-Ameríku, en þar má helst nefna Venesúela, þar sem honum er þó mótmælt. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Ritstjórinn og útgefandinn fyrrverandi Gunnar Smári Egilsson stefnir að stofnun Sósíalistaflokks Íslands 1. maí nk., en helsta stefnumál flokksins er að færa vald til fólksins.

Sviðsljós

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Ritstjórinn og útgefandinn fyrrverandi Gunnar Smári Egilsson stefnir að stofnun Sósíalistaflokks Íslands 1. maí nk., en helsta stefnumál flokksins er að færa vald til fólksins. Þá segir í stefnuyfirlýsingu flokksins að helstu andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands séu auðvaldið og þeir sem gangi erinda þess.

„Það er erfitt að staðsetja þennan nýja flokk nákvæmlega á hinum pólitíska skala. Hann er augljóslega töluvert til vinstri og minnir á nýju vinstriflokkana bæði á Spáni og í Grikklandi, þ.e. harða popúlíska vinstriflokka,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

„Flokkar bæði á vinstri- og hægrivæng stjórnmálanna geta verið popúlískir, og yfirlýsing um andúð gegn kapítalisma og auðvaldi gefur til kynna að Sósíalistaflokkur Íslands sé slíkur flokkur.“

Saga klofnings til vinstri

Þrátt fyrir endurtekinn klofning á vinstrivæng hefur aðeins einn flokkur boðið fram undir nafni sósíalista á Íslandi.

„Alþýðuflokkurinn, sem stofnaður var árið 1916, klofnaði þó nokkrum sinnum. Kommúnistaflokkur Íslands klofnaði út úr honum árið 1930 og aftur varð klofningur árið 1938, en árið á undan yfirgaf Héðinn Valdimarsson Alþýðuflokkinn þegar hann reyndi að stofna til samfylkingar með kommúnistum. Úr því varð Sósíalistaflokkurinn – Sameiningarflokkur alþýðu. Flokkurinn starfaði til 1968, þegar Alþýðubandalagið varð að formlegum stjórnmálaflokki, en Alþýðubandalagið var upphaflega kosningabandalag sósíalista og Málfundarfélags jafnaðarmanna undir stjórn Hannibals Valdimarssonar,“ segir Ólafur og bendir jafnframt á að ekki megi gleyma klofningnum árið 1983 þegar Vilmundur Gylfason, þá fyrrverandi menntamálaráðherra Alþýðuflokksins, bauð sig fram til Alþingis undir merkjum Bandalags jafnaðarmanna.

„Enn einn klofningurinn var síðan þegar Jóhanna Sigurðardóttir sagði sig úr Alþýðuflokknum og stofnaði Þjóðvaka árið 1994.“

Enn sem komið er er lítið vitað um stefnu nýja Sósíalistaflokksins en Ólafur segir suma hluti í tóni hins nýja flokks minna á raddir fortíðarinnar.

„Núna er ég að tala um tóninn, ekki stefnuna, en hann minnir á þá Héðin Valdimarsson og Vilmund Gylfason, þ.e. harður tónn gegn ríkjandi stefnu.“

Aftur til fortíðar

Almannatengillinn Andrés Jónsson segir nýjan flokk geta siglt á ákveðnu afturhvarfi til fortíðar, þ.e. rómantík um gamlan og betri tíma.

„Yngra fólk hallar frekar til vinstri í dag og gæti flokkurinn leitað í það fylgi. Eldra fólk er frekar með sterkari skoðanir með og á móti vörumerki sósíalisma, það þekkir það betur,“ segir Andrés. Margir líti málamiðlanir hornauga í dag og horfi til flokka og stjórnmálamanna sem lofa einföldum lausnum. Sú nálgun gæti skilað þessum nýja flokki fylgi, að mati hans.

„Gunnar Smári er sannfærandi og hann hefur hæfileika til að ná til fólks. Þannig tók hann þátt og talaði fyrir útrásinni fyrir hrun en líka gegn henni eftir hrun,“ segir Andrés.