Óskar Guðmundur Baldursson fæddist í Reykjavík 17. mars 1946. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 31. mars 2017.

Foreldrar hans voru Baldur Friðrik Jón Jónsson, f.v. vallarstjóri, f. 3. nóvember 1916, d. 7. nóvember 2008, og kona hans Regína Benediktsdóttir húsmóðir, f. 14. mars 1917, d. 29. desember 2003. Systkini Óskars eru Jón Ingi Baldursson, f. 13. júní 1943, kvæntur Helgu Gunnarsdóttur, f. 11. október 1941, og Sigrún Hulda Baldursdóttir, f. 3. febrúar 1950. Óskar kvæntist Sigþrúði B. Stefánsdóttur, f. 10. ágúst 1948, hinn 5. desember 1970. Foreldrar hennar voru Stefán Trausti Alexandersson, f. 25. ágúst 1921, d. 21. desember 1994, og Hildur Sigurbjörnsdóttir, f. 8. september 1914, d. 16. janúar 2009. Fyrir átti Óskar soninn Guðmund, f. 20. febrúar 1965, sem ólst upp hjá foreldrum Óskars. Hann var kvæntur Helgu Hrönn Sigurbjörnsdóttur og börn þeirra eru Stefán Óli, f. 11. febrúar 1993, Birta Lind, f. 23. febrúar 1999, Sunna Karen, f. 23. maí 2007, og Daníel Smári, f. 14. ágúst 2009. Börn Óskars og Sigþrúðar eru: 1) Hildur, f. 17. september 1975, gift Viðari Blöndal, f. 12. apríl 1974, börn: Björn Andri, f. 2. desember 2002, og Hjördís Ósk, f. 27. júní 2007. 2) Regína Ósk, f. 21. desember 1977, gift Sigursveini Þór Árnasyni, f. 15. maí 1983. Börn Regínu og Sigursveins eru Aldís María, f. 3. júní 2009, og Óskar Árni, f. 2. júní 2014. Regína átti fyrir dótturina Anítu, f. 5. október 2002, faðir hennar er Daði Georgsson. 3) Trausti, f. 22. mars 1979, sonur hans og Marika Sakko er Oliver, f. 11. mars 2010.

Óskar ólst upp á Setbergi við Lágholtsveg í Vesturbænum og fluttist 9 ára gamall í Skerjafjörð og ólst þar upp. Hann gekk í Mela- og Hagaskóla og fór sem ungur maður í íþróttaskólann að Geysi í Haukadal og minntist þess tíma með mikilli gleði. Í framhaldinu fór hann að æfa íslenska glímu með glímudeild KR og fór á heimssýninguna í Montreal 1967 að sýna glímu og stóð sú ferð og starfið með glímudeildinni honum ofarlega í minni alla tíð. Óskar var félagi í Björgunarsveitinni Ingólfi frá unga aldri og stundaði köfun og tók þátt í björgunaraðgerðum um áraraðir. Óskar gegndi fjölbreyttum störfum yfir ævina. Hann lærði pípulagningar hjá Guðmundi Finnbogasyni og starfaði sem slíkur í nokkur ár. Hann tók mótornámskeið hjá Fiskifélagi Íslands og vann hjá Sjómælingum Íslands í 6 ár á sjómælingabátnum Tý og einnig í landi. Frá 1976 til 1987 rak hann veitingaskálann Ferstiklu í Hvalfirði. Óskar vann sem kokkur um tíma, m.a. á veitingastaðnum Glæsibæ og vann að auki hjá bróður sínum í þvottahúsinu Grýtu. Óskar snéri sér síðan aftur að pípulagningum og stofnaði sitt eigið fyrirtæki fyrir um 15 árum og vann við það til dauðadags.

Útför Óskars fer fram frá Lindakirkju í dag, 12. apríl 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku pabbi.

Glímukappi, KR-ingur, kafari, heimsins besti kokkur, veiðimaður, pípari og þúsundþjalasmiður. Hetjusögurnar sem við systkinin gátum sagt af þér í æsku eru margar. Alltaf varst þú til staðar fyrir okkur, alltaf reiðubúinn til að leggja til hjálparhönd með bros á vör.

Þú hafðir gaman af rökræðum og vissir upp á hár hvaða mál komu okkur af stað en alltaf sættumst við að lokum. Við áttum ógleymanlegar stundir á Ferstiklu þar sem við krakkarnir gengum í öll hlutverk á milli þess sem við könnuðum umhverfið. Þar áttir þú líka Ingu kisu, sem okkur þótti merkilegt að segja frá og þú hugsaðir svo vel um. Brosið þitt bræddi alla sem voru í kringum þig og ef erlendir gestir voru í heimsókn, brostir þú bara alltaf og sagðir „yes, yes“ og það þurfti ekkert annað, þú töfraðir þá bara fram dýrindis máltíðir og það þarf ekki meira á góðum stundum.

Við pössum upp á mömmu og hvert annað, þú átt alltaf eftir að vera með okkur og við eigum eftir að rifja upp hetjusögur um ókomna tíð.

Guðmundur, Hildur,

Regína og Trausti.

Fyrir um það bil 50 árum hófust kynni okkar og Óskars, á þeim tíma vorum við allir um tvítugt. Við undirritaðir vorum að byrja að fara í jeppaferðir inn í Þórsmörk og Landmannalaugar á misjafnlega vel útbúnum jeppum, en Óskar sem var í Björgunarsveitinni Ingólfi, þar sem hann starfaði lengi, átti flottan Dodge Weapon, eða „Vípon“ eins og þeir voru alltaf kallaðir, – flottur gæi á flottum bíl. Við þurftum oft að leita aðstoðar hjá Óskari við að draga okkur upp úr ám og lagfæra jeppana okkar. Alltaf var sama svarið hjá Óskari: „Ekkert mál, vinur.“

Síðar þegar Óskar var búinn að finna hana Sissu sína og við allir kvæntir menn að hefja búskap, stofnuðum við sex hjón saman félagsskap sem við kölluðum „Lampavinafélagið“. Nafnið á þessum vinahópi er tilkomið af því að ákveðið var að á „stórafmælum“ eða á öðrum viðburðum skyldi gefa lampa, enda var innbúið lítið hjá okkur í upphafi og lampar komu sér alltaf vel. Síðan hefur þessi vinahópur ferðast töluvert saman, haldið þorrablót, matarboð og fleiri uppákomur.

Óskar var hrókur alls fagnaðar í þessum hópi, hafði létta lund og var alltaf jákvæður, en umfram allt góður vinur. Nú við fráfall hans er enn eitt stórt skarð höggvið í þennan litla vinahóp. Árið 2002 féll frá Magnþóra, eiginkona Árna Thorlaciusar, árið 2011 Friðrik, eiginmaður Helgu Einarsdóttur, og nú Óskar. Ótal minningar hrannast upp í hugann um þessa samferð og vinskap sem við höfum átt í öll þessi ár. Síðasta handtak og kveðja var á líknardeildinni í Kópavogi þar sem Óskar lá fársjúkur, en sem áður hress í bragði. Hjá honum var þá í heimsókn, eins og svo oft áður, mágur hans Sævar og höfðu þeir verið að rifja upp nöfn á bátum, áhöfnum og samferðamönnum til sjós, enda höfðu þeir báðir verið um árabil vélstjórar til sjós. Kveðjuorð Óskars til okkar Grétars þegar við kvöddum hann þennan dag voru: „Þegar ég verð kominn á fætur elda ég svartfugl og við höfum svartfuglsveislu og það verður Cognac á eftir.“ Það er gott að eiga þessa minningu um síðasta fund okkar við Óskar sem var þrátt fyrir mikil veikindi hress og jákvæður eins og hann jafnan var. Já Óskar, þegar við hittumst hinum megin verður svo sannarlega svartfuglsveisla og Cognac á eftir. Þín er sárt saknað. Við biðjum góðan Guð að styrkja Sissu, börnin, tengdabörn, barnabörn og systkini í þeirra miklu sorg. Genginn er góður drengur. Blessuð sé minning Óskars Baldurssonar.

Fyrir hönd Lampavinafélagsins,

Valdimar, Magnús

og Grétar.

Hinsta kveðja
Leiddu mína litlu hendi,
ljúfi Jesús, þér ég sendi
bæn frá mínu brjósti, sjáðu,
blíði Jesús, að mér gáðu.

Hafðu gát á hjarta mínu
halt mér fast í spori þínu,
að ég fari aldrei frá þér,
alltaf, Jesús, vertu hjá mér.

Um þig alltaf sál mín syngi
sérhvern dag, þó eitthvað þyngi.
Gef ég verði góða barnið,
geisli þinn á kalda hjarnið.
(Ásmundur Eiríksson.)
Afabörnin,
Stefán Óli, Birta Lind, Sunna Karen, Daníel Smári, Björn Andri,
Hjördís Ósk, Aníta, Aldís María, Óskar Árni
og Oliver.