Hlutabréf Innlendum hluthöfum fer fækkandi en erlendum fjölgar.
Hlutabréf Innlendum hluthöfum fer fækkandi en erlendum fjölgar. — Morgunblaðið/Þórður
Útlit er fyrir að félög sem skráð eru í Kauphöll Íslands greiði samtals um 16 milljarða króna í arð til hluthafa í ár fyrir rekstrarárið 2016.

Útlit er fyrir að félög sem skráð eru í Kauphöll Íslands greiði samtals um 16 milljarða króna í arð til hluthafa í ár fyrir rekstrarárið 2016. Séu kaup á eigin bréfum tekin með má áætla að greiðslur til hluthafa geti numið allt að 26 milljörðum króna í ár, að því er fram kemur í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Af 17 félögum á Aðallista Kauphallarinnar stefna 13 að því að greiða fjármagn til hluthafa í formi arðs eða endurkaupa á eigin bréfum. Samt sem áður lækka arðgreiðslur um 18% frá árinu á undan.

Erlendir aðilar sækja inn

Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs var nýfjárfesting erlendra aðila meiri en allt árið 2016. Arion banki bendir á að fjárstreymistæki Seðlabankans hafi fært áherslu erlendra fjárfesta af skuldabréfamarkaði og inn á hlutabréfamarkað. Áhugi útlendra fjárfesta á innlendum hlutabréfamarkaði hafi svo stóraukist við skref til afnáms hafta.

Hins vegar hefur innlendum hluthöfum farið fækkandi, og fækkaði þeim um 6% í fyrra þrátt fyrir að Skeljungur bættist við á markaðinn. Sé horft framhjá skráningu Skeljungs fækkaði hluthöfunum um 13%. Hluthöfum fjölgaði aðeins í fimm félögum á síðasta ári og var veruleg hlutfallsleg fækkun hjá fjarskiptafélögunum Símanum og Vodafone.

Fram kemur hjá Arion banka að þrátt fyrir stóraukinn þjóðhagslegan sparnað hafi verðbréfaeign heimila dregist saman í hlutfalli af ráðstöfunartekjum. Hins vegar hafa eignir í peningamarkaðssjóðum stóraukist og námu 193 milljörðum króna nú í febrúar, samanborið við 105 milljarða ári áður.