Halldór Helgi Backman fæddist í Reykjavík 10. maí 1972. Hann lést á Landspítalanum 2. apríl 2017.

Foreldrar Halldórs eru Arnmundur Sævar Backman, lögmaður, f. 1943, d. 1998, og Valgerður Bergsdóttir myndlistarmaður, f. 1943. Systur Halldórs eru Valgerður Margrét Backman, f. 1967, gift Jóhanni Halldórssyni og Margrét Backman, f. 1974, gift Birgi Hilmarssyni. Eftirlifandi eiginkona Halldórs er Ragnheiður Kolviðsdóttir, BA í félagsfræði, f. 1975. Foreldrar Ragnheiðar eru Kolviður Helgason, f .1953, og Margrét Hreinsdóttir, f. 1954. Saman eiga Halldór og Ragnheiður Sylvíu Líf Árnadóttur, f. 1994, Margréti Evu, f. 2002, og Kolvið Sævar, f. 2006. Unnusti Sylvíu Lífar er Hrafn Hlíðkvist Hauksson. Halldór lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1992 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1998. Hann varð héraðsdómslögmaður árið 1998 og hæstaréttarlögmaður árið 2004. Halldór starfaði sem aðstoðarmaður og síðar löglærður fulltrúi á Lögmannsstofu Arnmundar Backman ehf. frá árinu 1996. Árið 1998 stofnaði hann með öðrum lögmannsstofuna B&B lögmenn ehf. og var einn af stofnendum og eigendum Lagastoðar lögfræðiþjónustu ehf. Samhliða námi og lögmennsku starfaði Halldór við útvarp. Hann var einnig virkur í ýmsum félagsstörfum.

Útför Halldórs fer fram frá Lindakirkju í dag, 12. apríl 2017, og hefst athöfnin klukkan 11.

Í dag kveð ég kæran vin og samstarfsmann, Halldór H. Backman. Halla Back, eins og hann var jafnan kallaður af vinum og vandamönnum, hef ég þekkt síðan hann var barn að aldri í foreldrahúsum en ég og Arnmundur faðir hans vorum samstarfsmenn til margra ára eða allt þar til hann lést langt um aldur fram. Nú endurtekur sagan sig, enn og aftur minnir dauðinn á hverfulleika lífsins. Halli hefur verið vinur minn og fjölskyldu minnar síðan á barnsaldri og aldrei borið skugga á og eftir að hann lauk laganámi verið nánir samstarfsmenn – Halldór var jákvæður maður, fyndinn, fjörugur, samviskusamur og réttsýnn. Hann var vinur í raun og síðast en ekki síst góður fjölskyldufaðir. Minningar frá ferðum erlendis, matarboðum, afmælum og árshátíðum koma upp í hugann þar sem hann var hrókur alls fagnaðar – alltaf var eitthvað skemmtilegt að gerast þegar nafn Halla bar á góma – þannig var hann.

Fyrir rúmlega ári greindist Halli með þann illvíga sjúkdóm MND sem hann þekkti mæta vel frá föður sínum og föðursystur. Hann hringdi til mín rólegur og yfirvegaður að vanda til að tilkynna mér þessi slæmu tíðindi – ég klökknaði í símann við þessar válegu fréttir – hann hughreysti mig en ég ekki hann – þetta var Halli. Við munum sakna þessa góða drengs og vottum Ragnheiði og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Skúli Eggert Sigurz.

Í dag kveðjum við vinirnir Halldór Helga Backman góðan og traustan vin.

Við kynntumst Halla fyrir 25 árum og vorum saman vinirnir í vinahóp sem hittist reglulega og brölluðum margt skemmtilegt saman.

Það koma upp í huga okkar margar skemmtilegar minningar með Halla, útilegur, spilakvöld, New York-ferð, fótboltaæfingar svo eitthvað sé nefnt og eftir að allir voru orðnir ráðsettir hittumst við í árlegum nýársfagnaði með konum okkar.

Halldór hafði skemmtilega og góða nærveru með sinni djúpu röddu gat hann reytt af sér skemmtilegar sögur og brandara, Halli var alltaf hress, einstaklega jákvæður og mikill húmoristi.

Það var alltaf gott að leita til Halldórs hann var traustur og ráðagóður og höfðingi heim að sækja.

Við minnumst sérstaklega boðsins sem hann og Ragnheiður buðu okkur í síðastliðið sumar í sumarbústaðinn þeirra að Þóroddsstöðum þar sem þau reiddu fram dýrindis máltíð og eftir matinn var spjallað fram undir morgun og rifjaðir upp gamlir og góðir tímar og mikið hlegið.

Halldór var stoltur af fjölskyldu sinni og setti hana ætíð í forgang og var mikill fjölskyldumaður.

Við fráfall Halla var höggið stórt skarð í vinahóp okkar og verður hans sárt saknað en minning um góðan vin lifir.

Elsku Ragnheiður, Sylvía, Margrét, Kolviður og fjölskylda, við vottum ykkur okkar innilegustu samúð.

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði.)

Arthúr Vilhelm

Jóhannesson,

Ásgeir Örvarr Jóhannsson,

Þórður Hjalti

Þorvarðarson.

Við Halldór vorum saman í bæði barnaskóla og framhaldsskóla. Við kynntumst þó fyrst fyrir alvöru í lagadeildinni og þar kviknaði vinátta sem gerði okkur óaðskiljanlega allt fram að andláti hans. Eftir að Halldór útskrifaðist kom hann að máli við mig og spurði hvort ég gæti hugsað mér að stofna lögmannsstofu með honum og föður hans sem þá var orðinn veikur. Ég hafði raunar hugsað mér að stefna á dómarasæti en játaði þessu þó. Það var síðan um haustið 1998 að Halldór hringdi í mig eldsnemma að morgni og tjáði mér að faðir hans hefði látist um nóttina. Hann sagði mér að hann ætlaði að stofna lögmannsstofuna samt og bauð mér að vera með þó að hann tjáði mér að hann skildi vel ef ég vildi hætta við. Ég ákvað þar og þá að slá til og hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun. Samverustundir mínar með Halldóri eru fleiri en ég get talið. Við og fjölskyldur okkar höfum verið óaðskiljanleg árum saman. Halldór var besti vinur og samstarfsfélagið sem hægt var að hugsa sér. Það var því mikið áfall fyrir mig þegar hann sagði mér frá veikindum sínum. Hann leit í augu mér og sagði að hann væri sami maður og í gær. Ég skildi þessi skilaboð. Það ætti að berjast og komast í gegnum þetta með dugnaði eins og annað. Ótímabært andlát hans er sárara en hægt er að lýsa. Það er með miklum söknuði og trega sem ég kveð vin minn Halldór. Megi hann hvíla í friði.

Guðmundur Óli

Björgvinsson hrl.

Þessi rödd. Þessi djúpa, hljómmikla rödd sem áður bræddi sálir sem hún náði til á útvarpsbylgjunum og seinna hræddi eflaust þá lögmenn sem leituðu mótraka gegn henni í réttasölum. Þessi þykka, þétta rödd sem hristi elstu húsin í Flatey í hlátursköstum sumarnáttanna og smitaði út frá sér gleði. Þessi stóra þrumandi rödd sem ein gat sungið bassalínurnar í „Ísland farsælda frón“ meðan aðrir úr vinahópnum hreyfðu bara varirnar. Þessi rödd var aðaleinkenni Halldórs vinar míns og hæfði honum vel. Hann var stór maður með stórt hjarta, vinamargur og vinsæll. Fjölskyldur okkar áttu árlega dýrðardaga saman í Flatey á Breiðafirði þar sem lífið snérist um að njóta samveru, vináttu og náttúru. Þar náði Halldór sér niður eftir langar jakkafatavinnutarnir og naut þess að grúska í Massanum, sigla um á Tröllafossi, laga hluti og dytta að því sem hann veitti athygli. Sólsetursstundirnar á Prikinu við Grýluvog með gott í glasi urðu margar og alltaf gat Halldór spáð um veður morgundagsins með því einu að rýna í skýjafar við Stálfjallið. Náttúrunnar naut hann líka í veiði. Á bökkum laxveiðiáa áttum við margar góðar stundir.

Þá var samt eins gott að Halldór fengi fisk því keppnisskapið var mikið. Hann vann mikið og naut þess. Þó að hann eyddi ómældum vinnustundum á ferðalagi um heiminn og á skrifstofunni þá gaf hann sér tíma til að leggja til hliðar tugmilljarða samningaviðræður bankaslitabús til að skreppa með vini til fasteignasala og rífast þar um nokkra hundraðþúsundkalla. Þannig var Halldór, það var ómetanlegt að eiga hann að. Hann átti líka góða að. Fjölskyldan var stolt hans, Ragnheiður og börnin þrjú. Það var honum mikils virði að gera þeim gott líf og fylgjast með þeim dafna. Þegar veikindi sem tekið höfðu föður hans bönkuðu upp á hjá Halldóri var ljóst í hvað stefndi. Allt var þá sett á fullt til að berjast við óvættinn. Ótal ferðir í tilraunalyfjagjafir til Boston skyldu lengja tímann, draga úr einkennum og helst lækna. Halldór sjálfur og allir í kringum hann voru þó búnir undir baráttu næstu ára eða áratuga. Hann kveið því að vera algerlega upp á aðra kominn. En til þess kom þó aldrei. Langt fyrir aldur fram var hann tekinn frá okkur, enn standandi. Þó að röddin sé nú þögnuð mun bergmál hennar hljóma í huga okkar um ókomin ár.

Kjartan Þorbjörnsson (Golli).

Þegar ég flutti lögmannsstofu mína til Lagastoðar í Lágmúla 7 um mitt ár 1999 mætti mér hópur af skemmtilegu og vel gerðu fólki, sumir ungir að byrja sinn feril, aðrir eldri og komnir á síðari hlutann og enn aðrir einhvers staðar þar á milli. Þetta var góð blanda sem náði vel saman í leik og starfi og eru flestir enn starfandi í Lágmúlanum. Meðal þeirra sem var í fyrstnefnda hópnum var Halldór H. Backman sem ári áður var svo áræðinn að stofna eigin lögfræðistofu beint af prófborðinu, ásamt vini sínum Guðmundi Óla Björgvinssyni, fullur bjartsýni sem góð innstæða reyndist fyrir. Það var fljótt ljóst að í Halldóri byggi öflugur lögmaður, hann vel að sér í lögfræðinni, óhemju duglegur og skipulagður. Þessum eiginleikum og manninum sjálfum kynntist ég svo fyrir alvöru þegar við unnum saman um nokkurra ára skeið í slitastjórn LBI (gamla Landsbankans). Í því umfangsmikla og flókna verkefni var gott að vera með Halldóri í liði. Hann stóð sig í einu orði sagt frábærlega og óx við hverja þraut. Hann lagði gríðarlega mikið á sig og alltaf var öruggt að það sem hann tók að sér yrði klárað með sóma á tilsettum tíma. Það var kaldhæðni örlaganna að um það leyti sem slitameðferðinni var að ljúka skyldi hann greinast með sama ættgenga sjúkdóm og hafði orðið föður hans að aldurtila. Það var að sjálfsögðu mikið áfall en aðdáunarvert var að sjá hvernig hann tókst á við þann veruleika, bæði bjartsýnn og raunsær í senn. Við höfðum fyrir nokkrum dögum rætt um framtíðina, hvernig við sæjum fyrir okkur samstarf okkar á næstu árum nú þegar við höfðum ásamt félögum okkar tekið við rekstrinum í Lágmúla 7 af frumkvöðlunum sem buðu okkur velkomna fyrir tæpum 20 árum.

Við vorum báðir með hugmyndir en það þurfti auðvitað ekkert að ræða hver myndi verða driffjöðrin í að hrinda þeim í framkvæmd. Halldór var maður sem óx í áliti við að kynnast honum vel. Hann var skemmtilegur og góður félagi sem vildi öðrum vel. Þó að hann væri fylginn sér og ákveðinn þegar á þurfti að halda gat hann líka verið viðkvæmur og honum leið ekki vel ef honum fannst „eitthvað óhreint vera í loftinu“. Það er hoggið stórt skarð í hópinn og skuggi hvílir yfir en minning um góðan dreng lifir. Innilegar samúðarkveðjur til þín, Ragnheiður, barna ykkar og fjölskyldna.

Kristinn Bjarnason.

Við fréttir af skyndilegu andláti góðvinar setur mig hljóðan. Kynni tókust með okkur Halldóri vegna starfa okkar. Við unnum sameiginlega að stóru verkefni sem varað hefur drjúgan hluta starfsævi beggja. Á þessum tíma tókst með okkur góð vinátta og við andlát Halldórs var samband okkar þannig að við vissum flest hvorir af annars högum.

Það var gott að vinna með lögmanninum Halldóri. Hann var bráðgreindur, fær lögfræðingur, harðduglegur og afkastaði miklu. Hann hafði aldrei rangt við og hallaði aldrei réttu máli. Það var gott að vera liðsfélagi manns sem búinn er slíkum mannkostum. Það var mjög áberandi í starfi Halldórs hvað hann var tilbúinn að leggja mikið á sig og að hann setti það ekki fyrir sig að tileinka sér nýja hluti. Halldór var maður sem óx við hverja raun.

Sem vinur var Halldór traustur, hjálpsamur og stórskemmtilegur. Í góðra vina hópi var Halldór hrókur alls fagnaðar. Honum var gefinn sá eiginleiki að geta notið stundarinnar. Halldór hafði mjög sterka og jákvæða nærveru og glaðlyndi hans hafði góð áhrif á þá sem nutu samvista við hann. Minningar frá veiðiferðum, utanlandsferðum, girðingarvinnu og öðru almennu og sérstöku brasi sem við stóðum saman í, munu ylja um ókomin ár.

Ekki er hægt að minnast Halldórs án þess að nefna það hvernig hann tókst á við þau veikindi sem hann átti við að stríða undanfarin misseri. Við þær erfiðu aðstæður sýndi hann af sér fádæma æðruleysi og skapgerðarstyrk. Margir í sömu stöðu hefðu verið tilbúnir að fara á bekkinn. Halldór var hins vegar þeirrar gerðar að hann vildi ljúka leiknum og dró síst af sér.

Þremur dögum fyrir andlát Halldórs sátum við í garðinum við heimili hans, drukkum kaffi og nutum góðviðris á síðustu dögum marsmánaðar.

Halldór var glaður, hlakkaði til sumarsins og hafði ýmis áform uppi um ferðalög innanlands og utan. Halldór hafði fráleitt lagt árar í bát.

Mig langar að minnast Halldórs með orðum skáldsins sem sólin kyssti:

Einn er hver á vegi

þó með öðrum fari,

einn í áfanga

þó með öðrum sé,

einn um lífsreynslu,

einn um minningar,

enginn veit annars hug.

Samt er í samfylgd

sumra manna

andblær friðar

án yfirlætis,

áhrif góðvildar,

inntak hamingju

þeim er njóta nær.

Því skal þér, bróðir,

þessi kveðja

allshugar send

þó orðfá sé,

því skulu þér

þökkuð, bróðir,

öll hin liðnu ár.

(Guðmundur Böðvarsson.)

Elsku Ragnheiður, Kolviður, Margrét og Sylvía, við Guðrún Inga vottum ykkur okkar dýpstu samúð á þessari sorgarstundu og biðjum fyrir styrk ykkur til handa. Sömu óskir viljum við færa móður, tengdaforeldrum, systrum og öðrum í fjölskyldu Halldórs. Minning um góðan dreng mun lifa og okkur er þakklæti í hug fyrir að hafa átt Halldór að vin.

Pétur Örn Sverrisson.

Halldór lagði aðeins undir flatt, hallaði sér fram og það var augljós glampi í augum þegar hann var að fara að stinga upp á einhverju sem hann vissi að væri aðeins óvenjulegt og kannski svolítið frakkt. Það fór sjaldan á milli mála hvernig honum leið frá degi til dags; þegar honum lá eitthvað á hjarta þyngdust örlítið sporin en djúpur hláturinn ómaði þegar vel gekk.

Ég kynntist Halldóri fyrst þegar hann tók við sem stjórnarmaður í LBI og ég stýrði starfsstöðinni í London. Með sinn hlýja persónuleika tók það hann ekki langan tíma að ná góðu sambandi við samstarfsfólkið og ég ætla að deila þeim fallegu orðum sem mér hafa borist á undanförnum dögum um Halldór.

Bupa segir: „Hann var mjög einlægur og kom jafnt fram við alla“ og við þetta bætir Emma: „Það var skemmtilegt að vera með Halldóri, innan og utan vinnu. Ég fann alltaf að ég var mikilvægur hluti teymisins með honum. Hann hugsaði um okkur.“ Halldór var alltaf til í eitthvað skemmtilegt og lagði mikla áherslu á að allir gætu tekið þátt. Við áttum öll saman mjög eftirminnilegt kvöld fyrir jólin 2015. Það var mikið fjör, gríðarlega mikið hlegið.

Halldór áhugasamur um allt undir sólinni og fljótur að tileinka sér ný málefni. Sally vann náið með honum segir: „Halldór var dásamlegur maður og við áttum margar eftirminnilegar stundir saman“ og Dave bætir við: „Hann studdi okkar starf dyggilega og var mjög skemmtilegur félagsskapur, fullur af lífi“. Það er gaman að geta líka deilt hinni hliðinni, einn viðskiptavinur, Jim, segir: „Hann var sannkallaður herramaður að eiga við. Hann var alltaf áhugasamur og gaf sér tíma til að hlusta.“

Godfrey, regluvörður LBI, háði harða lagabaráttu með Halldóri við yfirvöld í Bretlandi, þarna var Halldór í essinu sínu, lagalega séð: „Halldór var mikilmenni og ég naut þess að vinna með honum og skeggræða þau málefni sem voru til úrlausnar hverju sinni. Hann hlustaði og ígrundaði vandlega þær upplýsingar sem honum voru gefnar og tók svo rétta ákvörðun. Allir þeir sem nutu samvista hans munu sakna hans mikið.“

Halldór var virtur lögfræðingur innanlands sem utan, hann vandaði mjög mál sitt og svaraði af innsæi. Louise, lögfræðingur hjá CMS í Bretlandi, kemst að kjarna málsins: „Það var sönn ánægja að vinna með manni sem var svo góðum gáfum gæddur. Hann gat komið með vel hugsaðar viðskiptalegar tillögur sem þó voru settar fram af tillitssemi og í góðu samstarfi við teymið og af virðingu við mótaðila. Eins og sönnum lögfræðingi sæmir gat hann unnið myrkranna á milli en notið svo lífsins til hins ýtrasta þegar færi gafst.“

Ég tek undir öll þessi orð og sendi fjölskyldu og nánum vinum Halldórs mínar innilegustu samúðarkveðjur. Christina, lögfræðingur hjá LBI, kemst svo fallega að orði: „Halldór var mikill maður, hann var góðmenni með hlýja nærveru. Megi Guð veita fjölskyldu hans styrk og hugrekki á þessum erfiðu tímum og megi sál hans hvíla í friði.“

Halldórs er sárt saknað. Ég er full þakklætis fyrir að hafa kynnst honum og starfað með honum. Hvíl í friði, kæri vinur.

Lilja Björk Einarsdóttir.

Við kynntumst Halldóri við störf hans fyrir slitastjórn Landsbanka Íslands. Við unnum með honum og öðrum stjórnarmönnum við söluna á Iceland foods, House of Fraser, Actvis og að ótal öðrum málum. Það var við þessi kynni sem hann náði að snerta hjartarætur okkar.

Halldór sameinaði marga góða kosti: hann var fróður lögfræðingur með mikið lögfræðilegt innsæi og reynslu, sterkur samningamaður og bætti svo þar við góðum skammti af heilbrigðri skynsemi. Hann sýndi stuðning og hvatningu og var þar að auki skemmtilegur félagsskapur, jafnvel þegar baráttan tók að harðna í samningaherberginu. Hann átti það til að létta allra lund og það sást glitta í stríðnisglampa í augum hans þegar hann laumaði inn litlum brandara og á eftir fylgdi djúpur hlátur.

Utan vinnu var Halldór frábær félagsskapur og við áttum góðar stundir saman yfir mat eða drykk með honum og samstarfsfólki hans. Af mörgum minningum stendur ein upp úr og það var þegar við fórum saman á handboltaleik þegar Ísland og Svíþjóð áttust við á Ólympíuleikunum í Lundúnum.

Hann stóð allan leikinn og þrumaði hvatningarorðum yfir íslenska liðið og fagnaði sigrinum ógurlega þegar leik lauk. Halldór skemmti sér konunglega, hann var svo lífsglaður og kraftmikill.

Við höfum misst góðan og traustan mann en missirinn er meiri fyrir fjölskyldu Halldórs. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til þeirra og munum biðja fyrir þeim.

Iain Fenn,

Aisling Zarraga og

Simon Branigan,

Linklaters, London.

Það verður erfitt að venjast breyttri fjölskyldumynd nú þegar hann Halli frændi okkar hefur kvatt ungur svo skyndilega. Minningarnar um glaðlyndan mann, stóran að vexti og hláturmildan, með þægilega nærveru og góða kímnigáfu, hrannast upp andspænis þessari óskiljanlegu og óbreytanlegu staðreynd.

Hugurinn reikar til baka.

Það var eitt stærsta og flottasta hjólhýsi sem við höfum komið í til Halla og Ragnheiðar á ættarmóti í Eyjafirði árið 2015. Kallinn var kankvís þegar hann bauð í bæinn, veitingar dregnar strax fram og svo var slegið upp til instant-veislu undir fortjaldinu í sumarnóttinni.

Halli var okkur kær. Hlýr, einlægur, hreinn og beinn, alltaf stutt í brosið og við vorum stolt af frænda okkar. Hann var farsæll í starfi og leik og átti yndislega fjölskyldu.

Fyrsta minning um Halla í leiktíma þegar Addi kom heim úr vinnunni í Bólstaðarhlíðinni. Allir krakkarnir í hring á stofugólfinu með sögumanninum honum Adda. Þá var Halli Halli litli. Hann var brosmildur, ljóshærður drengur og alltaf kátur.

Einnig þegar við vorum öll að leika í Lönguhlíðinni hjá ömmu Löllu, mekano, kúluspil og kubbar, þolinmæði og dund yfir þrautunum.

Svo var leikið í hlöðunni á Staðarstað, risaróla úr loftinu. Sveitamáltíð og lítil veiði.

Veislur í Strýtuselinu þar sem þau systkinin Vala, Halli og Margrét ólust síðar upp. Heimsóknir þangað voru alltaf eftirminnilegar, afslappað og vingjarnlegt andrúmsloft, krakkarnir eitthvað að bralla í hverju horni.

Þar var Halli búinn að koma sér upp DJ-borði úr pappakassa, sem vitnar um stefnu sem var sett snemma. Við frændur vorum allir að plötusnúðast á yngri árum og Halli gerði gott um betur og vann sem þáttastjórnandi á Bylgjunni í mörg ár.

Bergur og Halli unnu saman í sumarvinnu á Torfunni með miklum meisturum. Þar var mikið spjallað og hlegið hátt, með góðum vinnufélögum. Endalausar raðir af fimmaurabröndurum og náttúrlega spáð í hvernig maður fengi vinnu í diskótekinu Hótel Borg. Þeir voru þarna mest saman Bergur, Halli og Kristján Eldjárn.

Það var alltaf líf og fjör í kringum Halla. Halli með vinum sínum um verslunarmannahelgina og Þóra fyrir tilviljun á sama stað, þá voru hóparnir umsvifalaust sameinaðir og úr varð mikill glaumur og gleði.

Margar góðar minningar.

Nýlega komum við svo öll saman á heimili Halla og Ragnheiðar í fermingu Margrétar Evu. Þau lögðu mikla alúð við að koma sér upp fallegu heimili þar sem vel fór um alla. Minningarnar lifa eins og það hafi gerst í gær. Fyrir það erum við endalaust þakklát en eftir stendur hverfulleiki lífsins.

Missir Ragnheiðar og barnanna er ólýsanlegur. Við vottum þeim og Völlu, Völu og Margréti og fjölskyldum þeirra og tengdafjölskyldu Halla okkar dýpstu samúð. Minningin um góðan dreng mun alltaf lifa.

Bergur Pálsson,

Þóra Margrét Pálsdóttir,

Páll Ragnar Pálsson,

Bjarni Þór Pálsson.

Minn kæri vinur, mikið þykir mér sárt að þurfa að kveðja þig. Ég hugga mig við það að hafa fengið að vera með þér ógleymanlega kvöldstund, kvöldið áður en þú fórst. Undanfarna daga hafa óteljandi minningar farið í gegnum huga minn sem hlýja mér og hugga eftir andlát þitt.

Ein elsta minning um þig er þegar ég hitti þig fyrst. Það var rétt áður en skólinn var að byrja í Ölduselsskóla en mig minnir að það hafi verið í 9 ára eða 10 ára bekk. Ég var úti að spila fótbolta með öðrum strákum í hverfinu, og þegar við vorum hættir og allir farnir heim til sín nema ég, birtist þú á hjólinu þínu og stoppaðir og spurðir hvað ég héti, þá byrjuðum við að spjalla saman og urðum bestu vinir og sá vinskapur hefur enst alla tíð.

Í gegnum þessi ár var mikið brallað, allskonar uppfinningasemi réði ríkjum eins og t.d. að rífa allskonar dót í sundur og reyna að betrumbæta með misjöfnun árangri. Þegar við tókum talstöðvar sem þú keyptir í New York sem voru alveg æðislegar en því miður drifu ekki milli húsanna okkar, þá voru góð ráð dýr og vildum við laga þær með því að setja sterkari batterí til að ná betra sambandi en það auðvitað endaði með því að við bræddum úr tækjunum og þau eyðilögðust en þú bara brostir og sagðir að það væri ekkert mál, þó svo ég sæi að þú varst svolítið svekktur.

Á meðan ég bjó í Bandaríkjunum í fimm ár skrifuðumst við nokkrum sinnum á, ég sendi þér myndir og bréf og þú sendir mér myndir og bréf tilbaka en daginn sem ég flutti aftur til Íslands hringdi ég í þig og með það sama vorum við orðnir bestu vinir aftur og óaðskiljanlegir.

Síðasta kvöldið sem við og vinirnir vorum saman er mér gríðarlega dýrmætt, svo yndisleg minning sem ég mun aldrei gleyma, þá höfðuð þið hjónin sett saman þvílíka veislu fyrir okkur vinina, og spjallið sem ég og þú áttum saman mun ég aldrei gleyma og verður það ávallt að leiðarljósi hjá mér, „glasið er hálffullt!“.

Nú ertu kominn á himininn í faðm föður þíns og þið feðgar passið upp á okkur hin, ég mun sakna þín, elsku vinur minn, og aldrei gleyma vináttu okkar. Megi Guð gefa Ragnheiði, Sylvíu, Margréti og Kolviði og fjölskyldu þinni styrk á þessum erfiðu tímum.

Bergþór Arnarson.