Oft kalla örnefni fram vísur og við limrugerð er það orðið að sérstakri íþrótt. Helgi R. Einarsson yrkir: Úlfur á Úlfarsfelli átti sér hýra kelli, sem átt hafði skjól, já, ágætis ból við Eiríksjökul í helli.

Oft kalla örnefni fram vísur og við limrugerð er það orðið að sérstakri íþrótt. Helgi R. Einarsson yrkir:

Úlfur á Úlfarsfelli

átti sér hýra kelli,

sem átt hafði skjól,

já, ágætis ból

við Eiríksjökul í helli.

Margir þekkja þessa limru Jóns Ingvars Jónssonar:

Kristín frá Kringilsárrana

komin af afgömlum Dana

daglega á Grund

döpur í lund

prjónar og bíður þar bana.

Ólafur Stefánsson hefur verið í Sólarlöndum, en „til átthaganna andinn leitar“:

Náðuga eftir næturstund

nýr upp rís og fagur

ágætur á alla lund,

okkar „hinsti dagur“.

Ekkert hérna út af bar,

allt til gæfu snúið.

Brátt til Íslands fáum far,

fríið það er búið.

Á Boðnarmiði rifjar Hallmundur Kristinsson upp stöku, sem nokkuð er tekin að eldast. Hann man hreinlega ekki tilefni hennar, – hvort hún tengist Leirlistanum kannski?

Hér má illa seggi sjá,

sem í villu ráfa.

Slæmur kvilli þjakar þá:

Það er snilligáfa.

Dagbjartur Dagbjartsson segir frá því, að vinur hans Vigfús Pétursson hafi einhvern tíma ort:

„Það er af mönnum sérstök sort

en sjálfsagt vitni um greind og dug:

Þeir sem að geta ort og ort

án þess að detta neitt í hug“.

Kristjana Sigríður Vagnsdóttir sló botninn í þessar hugleiðingar:

Þó við ferðumst stað úr stað

stefnu þarf að geyma.

Leirnum oft við leikum að

leiknum má ei gleyma.

Þessi vísnaruna kallar fram í hugann stöku Sigurðar Breiðfjörðs:

Þegar ég ráfa og hengi haus

þið haldið það skáldadrauma

en þá er ég svo þankalaus

sem þorskurinn lepur strauma

Hvort er betra ýsa eða þorskur? – Káinn orti:

Í rökkrinu sat ég og reri með disk

og raulaði sjómannavísur:

þá tók mig að langa í ferskan fisk

og fór svo að draga ýsur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is