Annríki Guðbjörg Gunnarsdóttir hafði nóg að gera í marki Íslands í Doetinchem í gær og varði nokkrum sinnum vel þrátt fyrir mörkin fjögur.
Annríki Guðbjörg Gunnarsdóttir hafði nóg að gera í marki Íslands í Doetinchem í gær og varði nokkrum sinnum vel þrátt fyrir mörkin fjögur. — Morgunblaðið/Ófeigur
Fótbolti Víðir Sigurðsson Jóhann Ingi Hafþórsson Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, hefur um margt að hugsa, þremur mánuðum fyrir upphaf úrslitakeppni Evrópumótsins í Hollandi.

Fótbolti

Víðir Sigurðsson

Jóhann Ingi Hafþórsson

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, hefur um margt að hugsa, þremur mánuðum fyrir upphaf úrslitakeppni Evrópumótsins í Hollandi. Íslenska liðið beið nánast skipbrot í vináttulandsleiknum gegn Hollendingum í Doetinchem í gær, tapaði 4:0, og frammistaða þess var eflaust einhver sú slakasta í langan tíma.

Ísland hefur um árabil haft gott tak á Hollendingum og hafði unnið sex af átta viðureignum þjóðanna áður en flautað var til leiks í gær. En miðað við þennan leik er hollenska liðið betra á nánast öllum sviðum og virðist líklegt til að gera góða hluti á heimavelli í Evrópukeppninni í sumar.

Íslenska liðið slapp nokkrum sinnum fyrir horn áður en Vivianne Miedema skoraði fyrsta markið á 22. mínútu. Næstu mínútur á undan hafði vörn Íslands opnast illa hvað eftir annað og nánast virtist tímaspursmál hvenær Hollendingar myndu nýta einhverja af stórhættulegum sóknum sínum, sem sumar urðu til vegna klaufalegra mistaka hjá íslenska liðinu sem kom boltanum hvað eftir annað illa út úr vörninni. Staðan var 1:0 í hálfleik.

Miedema skoraði annað markið á 51. mínútu og Lieke Martens bætti við marki á 67. mínútu. Íslenska liðið náði þokkalegum köflum eftir það og Sigríður Lára Garðarsdóttir var næst því að minnka muninn á 88. mínútu þegar hún átti skalla í samskeytin á marki Hollendinga.

Fjórða markið kom hins vegar í uppbótartímanum þegar Lieke Martens sendi fyrir mark Íslands og boltinn fór af Glódísi Perlu Viggósdóttur og í netið, 4:0.

„Ég er ekki óánægður með hugarfarið en ég er óánægður með frammistöðuna. Ég tek jákvætt út úr þessu að við fáum skell núna og gerðum þessi mistök núna. Við ætlum að laga og læra af þessum leik og sjá til þess að hann nýtist okkur til að vera betra lið og betur undirbúin fyrir júlí. Það er klárt mál að þessi leikur verður ekki tekinn og grafinn, hann verður krufinn til mergjar og við verðum í toppstandi í júlí. Ég get lofað þér því, það er 100% að við mætum algjörlega klár í slaginn,“ sagði Freyr við Morgunblaðið.

Elísa meiddist á 2. mínútu

Íslenska liðið varð fyrir áfalli strax á 2. mínútu þegar hægri bakvörðurinn Elísa Viðarsdóttir sneri sig á hné og þurfti að fara af velli. Að sögn Freys skýrist í dag hvort meiðslin eru alvarlegs eðlis. „Hún er í meðferð núna og læknar eru að skoða hana, vonandi vitum við meira á morgun,“ sagði Freyr, sem þegar hefur misst nokkra leikmenn út úr hópnum vegna meiðsla, en Dagný Brynjarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, Sandra María Jessen og Dóra María Lárusdóttir eru allar úr leik í bili og þegar er ljóst að Dóra spilar ekki á EM.

Íslenska liðið mun mæta Írlandi í vináttulandsleik ytra 8. júní sem er næsta verkefni liðsins, en þá verða rúmar fimm vikur í fyrsta leikinn á EM í Hollandi, sem er gegn Frökkum 18. júlí.