Þjálfarar Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson mætast líklega á Asíumótinu í janúar þar sem lið þeirra setja stefnuna á verðlaun.
Þjálfarar Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson mætast líklega á Asíumótinu í janúar þar sem lið þeirra setja stefnuna á verðlaun. — Morgunblaðið/Golli
Handbolti Víðir Sigurðsson Guðmundur Hilmarsson Ívar Benediktsson Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson gætu hæglega mæst í baráttu um verðlaunasæti á næsta Asíumóti karla í handknattleik sem fram fer í janúar á næsta ári.

Handbolti

Víðir Sigurðsson

Guðmundur Hilmarsson

Ívar Benediktsson

Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson gætu hæglega mæst í baráttu um verðlaunasæti á næsta Asíumóti karla í handknattleik sem fram fer í janúar á næsta ári.

Guðmundur verður næsti landsliðsþjálfari Barein og Dagur var fyrr á árinu ráðinn landsliðsþjálfari Japans fram yfir Ólympíuleikana árið 2020.

Barein og Japan eru tvö af sterkustu landsliðum Asíu en á síðasta Asíumóti fékk Barein silfurverðlaun, eftir ósigur gegn Katar í úrslitaleik, og Japan fékk bronsverðlaunin eftir sigur á Sádi-Arabíu í leik um þau.

Guðmundur og Dagur hafa verið keppinautar á stærstu mótum heims á síðustu árum og mættust með lið sín, Danmörku og Þýskaland, bæði á heimsmeistaramótinu í Katar 2015 og í Evrópukeppninni í Póllandi 2016. Þá mættust þeir á EM 2010 í sögulegum jafnteflisleik Austurríkis og Íslands.

Guðmundur kom til Barein í fyrrakvöld og gengur á næstu dögum frá sínum málum við handknattleikssamband Barein. Samningurinn er til sjö mánaða, eða framyfir Asíukeppnina í janúar 2018. Hann verður í Barein framyfir páska ásamt eiginkonu sinni og dóttur og verður m.a. viðstaddur keppni þar í formúlu eitt kappakstrinum. Honum mun standa til boða lengri samningur þegar þessi rennur út.

„Ég vildi gera stuttan samning til að byrja með, klára ákveðið verkefni og sjá til hvernig mér líkar. Við komum hingað í gær fjölskyldan og höfum verið að skoða aðstæður,“ sagði Guðmundur við mbl.is í gær en hann lét nýlega af störfum sem þjálfari danska landsliðsins sem hann gerði að ólympíumeisturum í Ríó á síðasta ári.

Byrjar um 20. ágúst

„Það er allt opið hvað varðar framhaldið og þetta snýst bara um það hvað ég vil ég gera. Það er eins og að vera kominn í aðra veröld að vera hér í Barein. Fólkið hér er mjög vingjarnlegt en það má segja að Barein er vestrænasta ríkið á þessu svæði. Ég mun hefja störf í kringum 20. ágúst og fyrsta verkefnið verða bara æfingar með liðið. Ég verð með liðið við æfingar í þrjár vikur og svo eitthvað í nóvember og svo verð ég með liðið í einni samfellu frá desember fram yfir Asíuleikana sem verða í janúar.

Það má segja að þetta sé líkara því að þjálfa félagslið. Ég geri mér alveg grein fyrir því að lið Barein er ekki það sterkasta í heimi en ég sé ákveðna möguleika á því að bæta liðið. Hér er vilji til þess að gera það og mér finnst þetta bara mjög spennandi verkefni og spennandi staður sem ég er kominn á,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson.