Matthildur Nikulásdóttir fæddist á Stokkseyri 2. júní 1924. Hún lést á Dvalarheimilinu Höfða 1. apríl 2017.

Foreldrar hennar voru Helga Júlía Sveinsdóttir, f. 11. júlí 1889, d. 18. september 1941, og Nikulás Torfason, f. 28. janúar 1885, d. 25. mars 1965. Matthildur var sjötta í röð sjö systkina, en þau eru: Guðrún Jóna, Ingibjörg, Torfi, Sigríður, Þorkell og Bjarni. Þau eru öll látin. Fyrri eiginmaður Matthildar var Friðrik Ingvarsson, þau skildu. Sonur þeirra er Ingvar Friðriksson, fæddur 25. desember 1944, maki Erla Fríður Sigurðardóttir. Börn þeirra eru: a) Sigurður, fæddur 7. október 1967, maki María Bjarnadóttir og eiga þau 2 dætur. b) Þórunn Sif, fædd 24. júlí 1970, maki Jón Þórðarson og eiga þau 5 börn. Matthildur giftist 28. desember 1957 eiginmanni sínum Vilmundi Jónssyni frá Bæjum á Snæfjallaströnd, f. 2. ágúst 1925, d. 6. febrúar 1999. Dætur þeirra eru: 1) Svandís, fædd 25. janúar 1957. Dætur hennar og Einars Óla Einarssonar eru: a) Fanný, fædd 24. október 1979, maki hennar er Márus Hjörtur Jónsson og eiga þau 4 börn. b) Rebekka, fædd 28. ágúst 1987, unnusti hennar er Emil Stensgård. 2) Kristný, fædd 19. ágúst 1960, maki Hallfreður Vilhjálmsson. Dætur þeirra eru: a) Linda Dagmar, fædd 24. júní 1980, sambýlismaður hennar er Stefán Gísli Örlygsson og eiga þau 2 börn. b) Heiður, fædd 20. nóvember 1986, maki hennar er Birkir Guðlaugsson og eiga þau 2 dætur. Matthildur fluttist frá Stokkseyri um 16 ára aldur, bjó um tíma í Reykjavík og síðar í nokkur ár í Vestmannaeyjum. Þar kynntist hún fyrri manni sínum Friðriki, eftir skilnað þeirra flutti hún til Reykjavíkur ásamt Ingvari syni þeirra. Síðar fór hún að vinna í Hvalstöðinni í Hvalfirði og kynnist þar Vilmundi, eiginmanni sínum. Þau hófu búskap á Akranesi og þar bjó Matthildur til dauðadags, eða í um 60 ár. Matthildur var heimavinnandi á meðan dætur hennar voru ungar, en eftir það vann hún við ýmis störf. Síðustu fimm mánuði ævi sinnar bjó hún á Dvalarheimilinu Höfða, Akranesi.

Útför Matthildar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 12. apríl 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ég hefði þekkt hláturinn hennar hvar sem er. Hláturinn er svarið við spurningunni minni þegar ég spyr mig hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú hugsar um ömmu Möttu. Smellirnir í inniskónum þegar hún tölti fram og aftur ganginn á Háholtinu koma líka upp í hugann. En auðvitað eru það sjálfstæði, sterkar skoðanir og hlýja sem einkenndu ömmu. Sterkustu minningarnar eru frá þeim tímum sem ég og Þórunn systir vorum í pössun hjá ömmu og Villa á sumrin. Spjall yfir mjólk og kexi við eldhúsborðið, sundferðir og göngutúrar um Skagann, því ekki var farið akandi. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst þessari hláturmildu og skemmtilegu konu sem vildi allt fyrir okkur barnabörnin gera. Hún fylgdist líka ótrúlega vel með öllu sem var að gerast í samfélaginu, hvort heldur það voru stjórnmál, tónlist eða íþróttir þannig að maður kom aldrei að tómum bænum þegar við settumst niður og spjölluðum. Núna þegar hún hefur kvatt okkur er ég líka þakklátur fyrir síðasta göngutúrinn okkar sem við áttum fyrir þremur vikum á heimilinu hennar að Höfða á Akranesi.

Guð blessi þig, amma.

Sigurður Ingvarsson.

Ein mikilvægasta manneskjan í lífi okkar systra hefur kvatt þennan heim.

Elsku besta, fallega mamma. Við vorum svo lánsamar að eiga hana sem mömmu og fá að njóta samvista og nærveru hennar í öll þessi ár. Mamma hugsaði fyrst og fremst um velferð fjölskyldunnar, var alltaf til staðar og tilbúin að aðstoða, passa börnin okkar og elda mat fyrir alla.

Á Háholti 9 kom fjölskyldan saman. Hjá „Háholtsfegurðinni“ var engin lognmolla og mikið hlegið. Við systur ákváðum að hugsa eins vel um mömmu og við mögulega gætum og launa henni allt sem hún gerði fyrir okkur. Við erum þakklátar fyrir að hún var alltaf daglegur hluti af lífi okkar og sérstaklega þakklátar fyrir allar góðu minningarnar. Lífið verður tómlegra án hennar.

Mamma var frá Söndu á Stokkseyri og ólst þar upp ásamt systkinum sínum. Sanda var pínulítið hús og ótrúlegt, miðað við kröfur í dag, að þar hafi svo stór fjölskylda búið. Mamma var aðeins 17 ára, þegar móðir hennar dó og var það henni mikill missir. Gott samband var á milli fjölskyldna systkinanna og í Reykjavíkurferðum okkar var alltaf gist hjá systkinum mömmu eða pabba. Ef við systkinin vildum gleðja mömmu sérstaklega var farið í dagsferð austur á Stokkseyri.

Mamma var hávaxin glæsileg kona, hláturmild, dugnaðarforkur, vön að gera hlutina sjálf, stolt og átti erfitt með að biðja um greiða, baráttukona sem gafst aldrei upp. Á yngri árum elskaði hún að dansa og fara á böll. Hún hafði yndi af fallegum söng. Hún var mikil kvenréttinda- og jafnréttiskona og ól okkur systurnar upp í þeim anda. Hún saumaði föt á okkur systurnar og kenndi okkur að sauma á dúkkurnar. Mamma elskaði að vera úti þegar sólin skein og sitja í sólinni. Hún hafði mikinn áhuga á hollustu, stundaði árum saman líkamsrækt og sundlaugarnar á Akranesi. Hún fór daglega í göngutúra allt sitt líf og lagði mikla áherslu á að hafa grænmeti á borðum. Heilsutímarit vöktu henni mikinn áhuga sem og alþýðulækningar, þar var hún langt á undan sinni samtíð. Hunang, eplaedik og hvítlaukur kom í staðinn fyrir lyf. Mamma var mikil sjálfstæðiskona og ÍA var að hennar mati auðvitað besta liðið.

Öll okkar uppvaxtarár fengum við systurnar ást, hvatningu og kærleika frá foreldrum okkar og endalausan stuðning. Mamma stóð eins og klettur í lífi okkar alla tíð og var það ómetanlegt. Mamma var einstök og engri lík.

Við þökkum starfsmönnum heimahjúkrunar, félagsþjónustu og Dvalarheimilisins Höfða fyrir umönnun og hlýju síðastliðin ár. Einnig þökkum við fjölskyldunni á efri hæð Háholti 9 fyrir öll elskuleg heitin. Það er gott að búa í litlu bæjarfélagi og finna stuðning fólks og hjálpsemi. Eigendur og starfsfólk í Einarsbúð sýndu henni umhyggju og hjálpsemi og ókunnugt fólk rétti fram hjálparhönd og lét okkur vita þegar hún lenti í vandræðum í gönguferðum sínum á síðustu árum.

Elsku besta mamma, við systurnar erum þakklátar fyrir að hafa fengið að vera hjá þér þegar þú kvaddir þennan heim. Hvíl í friði. Guð blessi minningu þína.

Þínar dætur

Svandís og Kristný.

Við Matthildur tengdamóðir mín höfum verið samferða í rúm 50 ár. Fyrst hitti ég hana er við Ingvar komum til hennar á Akranes á leið vestur um verslunarmannahelgi og hún útbjó nesti fyrir okkur í ferðina. Síðan átti hún eftir að gera ýmislegt fyrir okkur eins og að passa börnin okkar svo ég kæmist með Ingvari út á sjó og gerði hún þetta í sínum sumarfríum og vildi þá alltaf hafa þau bæði í einu. Svo þegar árin liðu kom hún meira í bæinn og gisti hjá okkur og við fórum austur fyrir fjall á Stokkseyri þar sem hún fæddist og ólst upp. Einnig fórum við í þessum ferðum í heimsókn á Eyrarbakka þar sem Torfi bróðir hennar bjó. Þetta voru góðar og eftirminnilegar ferðir fyrir mig, hún sagði mér ýmislegt frá sinni æsku í þessum ferðum. Hún var mér alltaf hlý og góð. Blessuð sé minning hennar.

Erla Fríður Sigurðardóttir.

Elsku besta og fallega amma Matta, þegar komið er að kveðjustund fyllist hugurinn af öllum góðu og dýrmætu stundunum sem við áttum saman. Þrátt fyrir sorgina og söknuðinn er ég óendanlega þakklát fyrir að hafa haft þig hjá mér í öll þessi ár. Þú átt stóran þátt í því að gera mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og verð ég þér ævinlega þakklát fyrir það.

Þú og afi voruð svo stór hluti af lífi mínu, öll æskuárin frá 2-3ja mánaða aldri var ég mikið hjá ykkur. Þú þreyttist seint á að segja mér sögur af því þegar ég var að vakna í vagninum og ýmsar skemmtisögur eins og Tuddasagan og sögurnar af Flosa á efri hæðinni. Árin liðu, stutt stopp hjá dagmömmu/leikskóla en ég endaði alltaf á því að vera hjá ykkur þar sem ég vildi helst vera. Við brösuðum ýmislegt saman, fórum í göngutúra, fiskbúðina og Einarsbúð, daglegar sundferðir, mér var kennt að strekkja lökin, strauja og bardúsa við eldamennsku. Skólagönguárin gisti ég oft hjá ykkur. Ég hugsa ennþá til afa þegar ég finn lykt af appelsínum því hann átti það til að fara á fætur kl. 6 og fá sér eina appelsínu. Ég læddist þá fram, fékk einn bát og svo skriðum við aftur upp í rúm.

Harðduglegri kjarnakonu en þig er erfitt að finna, allir dagar þétt skipaðir, en alltaf hafðir þú tíma til þess að leyfa mér að vera með. Morgunleikfimin var heilög, þá mátti ég gera með (ekki trufla), síðan var farið í útréttingar fyrir hádegið. Að því loknu var eldað ofan í heilan her og matur á slaginu 12. Eftir hádegismatinn fékkstu þér svo kaffi og last blöðin. Mér fannst alltaf jafn skondið þegar þú hentist upp ef klukkan var orðin meira en 13, þar sem uppvask (ég að þurrka) varð að klárast áður en við fórum í göngutúr eða sund. Ávallt var hádegismatur fyrir barnabörn og tengdasyni og eftir að ég eignaðist börn vorum við áfram í hádegismat þar til ég flutti frá Akranesi, orðin 23 ára.

Allar þessar stundir eru mér óendanlega dýrmætar og er ég þakklát fyrir að geta yljað mér á þeim þegar komið er að leiðarlokum. Þú hélst áfram að elda fyrir heilan her í hverju hádegi og þramma bæinn þveran og endilangan enda mikill dugnaðarforkur. Ekki allar 85 ára gamlar ömmur fara að versla með göngugrind, setja innkaupapokana í grindina, skella henni á upphandlegginn og þramma upp nokkrar tröppur daglega. Um síðustu árin á ég svo góðar og notalegar minningar þar sem við sátum og drukkum kaffi á Háholtinu, fórum í dagsferðir til Reykjavíkur, Stokkseyri og Eyrarbakka, skruppum á kaffihús og ekki má gleyma ísrúntunum á Skaganum, það fannst nú hvorugri leiðinlegt.

Elsku besta, fallega, ljúfa, góða og umfram allt sjálfstæða sterka, amma mín. Takk fyrir að fylgja mér gegnum lífið. Þú verður alltaf í huga mér og hjarta, elska þig meira en nokkur orð geta lýst. Sendi með þér eina af þeim fjölmörgu bænum sem þú kenndir mér.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Góða ferð, elsku besta amman mín, elska þig. Við sjáumst síðar.

Þín

Fanný.

Elsku yndislega amma mín. Mér þykir erfitt að ná utan um þá staðreynd að þú hafir nú kvatt þennan heim. Hugurinn reikar til baka yfir farinn veg. Efst í huga mér er þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa átt þig að í öll þessi ár, elsku amma mín. Þú varst mér svo góð og hugulsöm og manni hlýnaði um hjartarætur að koma í ömmuhús. Þú varst mikil fjölskyldukona og alltaf svo ánægð þegar við komum til þín. Alltaf mætti manni bros og útbreiddur faðmurinn á Háholti 9. Þú varst svo dugleg að hugsa um okkur barnabörnin þín og ávallt tilbúin að passa okkur. Ég tel mig mjög lánsama að hafa fengið að vera mikið hjá þér á mínum yngri árum og við vorum alltaf að bralla eitthvað saman. Um tíma var leikurinn „Að fela hlut“ órjúfanlegur partur af því að koma til ömmu Möttu, þar sem Græni teningurinn spilaði stórt hlutverk. Við spiluðum oft saman og þú sagðir mér skemmtilegar sögur. Tudda-sagan var í miklu uppáhaldi og ég varðveiti þá sögu með því að segja mínum dætrum söguna þína. Sundferðirnar okkar í Jaðarsbakkalaug voru margar og göngutúrarnir um Skagann enduðu iðulega í bakaríinu, þar sem við keyptum okkur eitthvað gott til að eiga með kaffinu, eins og þú sagðir alltaf. Þrátt fyrir allar heimsóknirnar í bakaríið varst þú alltaf svo dugleg að baka. Jólasmákökurnar entust oftast fram í febrúar, magnframleiðslan var slík. Þú eldaðir líka alltaf besta matinn og borðaði ég sjaldan jafn vel og þegar ég komst í mat hjá þér. Ég var svo heppin að fá að koma til þín í hverju hádegi í fjögur sumur þegar ég vann á Akranesi. Þú gerðir heimsins besta steikta fisk og fiskibollur, að ógleymdum grjónagrautnum. Leynihráefnið í grjónagrautinn geymi ég vel hjá mér. Þú hugsaðir alltaf svo vel um heilsuna þína og endurspeglaðist það í matargerðinni hjá þér. Hollustan alltaf í fyrirrúmi.

Það er erfitt að kveðja þig, elsku amma mín. Þú barðist hetjulega fram á síðasta dag, enda baráttukona fram í fingurgóma. Söknuður hellist yfir en ég trúi því að þér líði betur núna. Ég mun ávallt varðveita þig og minningarnar um samverustundir okkar í hjarta mínu. Elska þig elsku amma mín.

Þín alltaf,

Heiður.

Elsku amma Matta, ég trúi því ekki að tíminn sé kominn til að kveðja. Innst inni fannst mér einhvern veginn eins og þú yrðir alltaf til staðar. Ég geng um bæinn hálftóm án þín og hvert sem ég fer get ég ekki annað en ósjálfrátt rifjað upp gamlar og fallegar minningar.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt ömmu sem var þess virði að sakna og elska. Samband sem margir eiga jafnvel ekki við foreldra sína, enda hef ég eiginlega alltaf lýst þér sem eins konar mömmu númer tvö, heppin ég að eiga tvær frábærar, sem alltaf voru til staðar.

Mér finnst ekkert sem ég get skrifað útskýra nógu vel sorgina og söknuðinn innra með mér. Ég vildi óska að ég gæti spólað aftur í tímann til þess að fá eitt enn hádegishlé með þér. Horfa á Nágranna, borða fisk og spila kapal saman, það þurfti ekki meira en það, en alltaf skemmtum við okkur konunglega. Ég sakna þess að liggja á teppinu inni í stofu og heyra þig raula lög frammi í eldhúsi, eða skella upp úr yfir einhverju sem þér fannst skondið, sem oftar en ekki var skopteikning eftir Sigmund.

Ég vona að ég verði jafn góð manneskja og amma, sem þú hefur verið mér. Ég tek allt sem ég hef lært af þér með mér í lífið. Stolt þitt af mér, þegar ég ákvað að byrja að taka mig á í skólanum og fylgja draumunum í Danmörku, situr alltaf í mér og ég ætla að gera mitt besta til þess að halda því áfram, því ég veit að þú munt fylgja mér í öllu sem ég geri. Ég er ótrúlega þakklát fyrir seinustu stundirnar sem við áttum saman, þó að samræðurnar hafi verið einhliða er ég sannfærð um að þú vissir af mér þar og heyrðir allt sem ég sagði. Hvíldu í friði, elsku amma Matta, þín er sárt saknað.

Rebekka.

Elsku besta amma Matta, mér þykir svo óraunverulegt að skrifa minningarorð um þig og er mér mjög sárt að þurfa að kveðja þig. En tíminn þinn var kominn og þó að síðustu mánuðir hafi verið erfiðir þá barðist þú til síðasta dags. Það var í þínum anda, sjálfstæð og þrjósk baráttukona sem gafst aldrei upp.

Ég á svo margar góðar minningar með þér. Þitt heimili var mitt fyrsta heimili. Ég ólst upp á Háholti 9 til tæplega þriggja ára aldurs og alla tíð var ég mikið hjá þér, enda við mjög nánar. Við gerðum margt skemmtilegt saman, fórum í ótal sundferðir, göngutúra og bakarísferðir. Það var alltaf svo gaman hjá okkur systrum og frænkum saman hjá þér, þú sagðir okkur skemmtilegar sögur og var mikið spjallað og hlegið. Heimili þitt var alltaf opið fyrir okkur, það var gaman að koma til þín og tala um allt milli himins og jarðar, þú hafðir miklar og sterkar skoðanir á svo mörgu. Þú varst alltaf svo vel inni í öllu sem við vorum að gera. Þið afi studduð mig alltaf vel í því sem ég tók mér fyrir hendur og er ég ykkur óendanlega þakklát fyrir það.

Mér er einkar minnisstæður tíminn sem þú og afi rákuð vídeóleiguna í bílskúrnum á mínum yngri árum og hafði ég mjög gaman af að hjálpa ykkur þar. Það var mikið ævintýri fannst mér og ekki var það verra þegar ég fékk að velja mynd til að horfa á, sem oftast voru þær sömu aftur og aftur sem þú hlóst mikið að.

Seinni árin þegar þú áttir orðið erfitt með að gera suma hluti sjálf varstu alltaf svo þakklát fyrir að ég kæmi til þín og hjálpaði þér með ýmislegt. Þér fannst oft eins og ég gerði einhverjar galdra í hinum ýmsu tæknimálum og hafðir mikla trú á að Linda þín gæti reddað málunum.

Þú hafðir alltaf einstaklega gaman af að hafa börn í kringum þig og elskaðir að fá litlu langömmubörnin í heimsókn. Þau voru gullmolarnir þínir og þeim fannst gott að koma til þín.

Þó að það ríki söknuður í hjarta mínu trúi ég að þú sért komin á betri stað. Ég er þakklát fyrir allan tímann sem ég fékk með þér og varðveiti allar góðu minningarnar sem við áttum saman.

Ég elska þig, elsku amma mín.

Hvíldu í friði.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þín,

Linda Dagmar.

Hugur minn hefur verið hjá þér undanfarna daga og tekið mig aftur til bernskuáranna þegar ég dvaldi hjá þér og Villa. Ég átti yndislegar stundir hjá ykkur á þessum tíma og það færist bros yfir varir mínar er ég hugsa til baka.

Þú arkaðir með mig um allan Skagann, í búðir, sund og á bókasafnið og fleira. Sögurnar sem þú sagðir mér voru ekki fáar og mun ég aldrei gleyma „junníadda“-sögunni, sem þú sagðir með leikrænum tilburðum og svo hlógum við þessi ósköp saman.

Ég man vel hvað þú lifðir þig inn í útsendingar af fótboltaleikjum í útvarpinu þegar ÍA var að spila. Þá var allt í botni í eldhúsinu og þú fagnaðir þessi ósköp er ÍA skoraði, en lést heldur betur í þér heyra ef hinir skoruðu. Svo var annað eins að horfa á sjónvarp með þér á kvöldin, þú hafðir svo skemmtilegar skoðanir á mörgu af því sem birtist á skjánum.

Ég gæti skrifað margt sem hefur rifjast upp fyrir mér um okkar tíma en þær minningar verða ætíð hjá þér og mér. Þú gafst svo mikið af þér til mín, elsku amma mín, og varst mér svo góð alla tíð. Ég elska þig og sakna þín, elsku amma mín. Hvíldu í friði.

Þórunn Sif Ingvarsdóttir.