Jenný Marta Kjartansdóttir fæddist að Þormóðsstöðum í Reykjavík 3. apríl 1936. Hún lést á heimili sínu að Frostafold 20, Reykjavík, 6. apríl 2017.

Foreldrar hennar voru Dagmar Jóhannesdóttir, f. 3.3. 1909 að Ormsstöðum Grímsneshr., d. 2.12. 1971, og Mýrkjartan Rögnvaldsson, f. 25.8. 1899 í Dælum Svalbarðsstrandarhr., S-Þing., d. 1.5. 1974. Systkini Jennýjar sammæðra eru Guðrún, Áslaug Arnar, látin, og Gústaf. Samfeðra eru Hilmar og Einar, látinn.

Jenný giftist 19. apríl 1962 Þorvaldi Þorlákssyni vélsmíðameistara á Blönduósi, f. 21.9. 1919, d. 17.12. 1992. Foreldrar hans voru Þorlákur Jakobsson, f. 19.6. 1888, að Neðri-Þverá, Þverárhr., V-Hún., d. 25.7. 1975, og Þuríður Einarsdóttir, f. 1.6. 1896 á Litlu-Giljá Sveinsstaðahr., A-Hún., d. 24.1. 1979. Börn Jennýjar og Þorvaldar eru: 1) Jóhanna, grunnskólakennari, f. 7.2. 1963, maki Sigurður Sveinsson, f. 27.2. 1955, skildu. Synir þeirra eru a) Davíð Már, f. 29.8. 1983, maki Katrín Ingólfsdóttir, f. 7.7. 1985, og eiga þau 3 börn: Rakel Sif, Viktor Smára og Daníel Frey. b) Birgir Smári, f.3.9. 1985, maki Sæunn Kristín Jakobsdóttir, f. 25.2. 1987, og eiga þau 2 syni: Aron Frosta og Óliver Davíð. c) Andri Þór, f. 8.5. 1994, sambýliskona Sigríður Ásta Svansdóttir, f. 11.8. 1993, dóttir þeirra er Emma Rós. 2) Þorvaldur Einar, f. 17.10. 1964, maki Kristín Snorradóttir, f. 19.10. 1963. Börn þeirra eru: a) Þóra Elín, f. 19.7. 1990, d. 12. 5. 2011, sonur Jóhann Einar, ættleiddur. b) Jón Þór, f. 11.9. 1992. c) Einar Logi, f. 26.12. 1995.

Börn Þorvaldar eru: 1) Margrét, f. 7.6. 1944, maki Magnús Ólafsson, börn þeirra eru Jónína, Ólafur Kristinn og Ingibjörg Ólöf. Þau eiga 8 barnabörn. 2) Baldur Ármann, f. 9.12. 1946, látinn, maki Hulda Baldursdóttir látin. Börn þeirra, Jónína og Baldur Reynir, látinn. Barnabörn 5 og barnabarnabörn 8. 3) Þorlákur, f. 26.2. 1948, sambýliskona Ásta Jeremíasdóttir, dóttir þeirra er Árný Jóna, synir Þorláks eru Hallgrímur og Þorvaldur, sonur Ástu er Ástþór. Barnabörn 8. 4) Bjarni Jón, f. 11.7. 1949, látinn, maki Ágústa Linda Ágústsdóttir. 5) Jónína Kristjana, maki Sveinn Gíslason, synir þeirra eru Ólafur Magnús, Ingólfur Bjarni, Gísli Baldur og Jóhann Sindri. Barnabörn eru 4.

Fyrstu fjögur árin bjó Jenný hjá móður sinni í Reykjavík, en fór svo að Eyvík í Grímsnesi og ólst upp hjá Jóhannesi móðurafa sínum, Kolbeini móðurbróður sínum og fjölskyldu hans. Hún lauk barnaskóla, landsprófi og framhaldsnámi að Héraðsskólanum Laugavatni. Hún vann við almenn bústörf í sveitinni, sá um mötuneyti í barnaskólanum að Ljósafossi, við ýmis saumastörf og á skóvinnustofunni Iðunni í Rvík. Hún réði sig í ráðskonustörf að Hnausum í A-Hún., þar kynntist hún eiginmanni sínum, Þorvaldi sem þá var ekkill með fimm börn. Á Blönduósi vann hún m.a. í Pólarprjóni, var á vertíð í sláturhúsi og haustið 1981 stofnaði hún skóverslunina Óskaland að Húnabraut 19 sem hún rak í 10 ár. Eftir andlát Þorvaldar flutti Jenný aftur í borgina. Hún var mjög virk í öllum andlegum málefnum og fylgdist vel með tækninýjungum.

Útför Jennýjar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 12. apríl 2017, klukkan 13.

Minningar um Jennýju stjúpmóður mína eru margar, og óhætt að segja að hún hafi kryddað heimilislífið á Árbrautinni og síðar á Húnabraut. Í nærveru hennar ríkti sjaldan lognmolla og með ótrúlegum uppátækjum gerði hún fólk í kringum sig orðlaust og framkvæmdi ýmislegt sem engum öðrum dytti í hug. Jenný kom í sumardvöl að Hnausum í Húnaþingi og um haustið tóku örlögin í taumana. Í stað suðurferðar gerðist hún ráðskona hjá föður mínum sem hafði misst konu sína frá fimm börnum. Ég sjö ára hnátan sá þegar hún kom með rútunni, hávaxin ung og falleg, með eina ferðatösku. Ég man að mér fannst hún eiga falleg föt, pels og háhæla skó. Ég strauk pelsinum oft og fannst hann svo mjúkur. Mig langaði að kalla hana mömmu en var svolítið feimin við það, ég lét samt til skarar skríða hálfbogin inni í fataskáp og óvíst hvort hún heyrði.

Eftir að Jenný og pabbi tóku saman tók heimilið á sig aðra mynd. Dótið hennar kom, svefnsófi og flott Pfaff-saumavél í borði og mér fannst þetta svakalega flott. Síðar keypti hún ísskáp og prjónavél sem hún sat löngum við. Peysur, húfur, gammósíur og fleira runnu úr þessari vél, bæði fyrir heimilið og aðra. Hún var heimskona, prófaði allt og hafði mikið dálæti á ættfræði og ýmsu grúski. Mér fannst oft nóg komið þegar heimilið var undirlagt af ættfræðibókum og blöðum. Hún fékk áhuga á svæðanuddi og fór margar ferðir suður til að læra nuddfræðin og tók svo fólk í svæðameðferð. Hún hjálpaði fólki með vandamál sín á öllum tímum sólarhringsins og var áhugasöm um andleg málefni. Tölvur áttu líka huga hennar, hún keypti nýjustu græjurnar og gruflaði sig áfram án þess að fara á mörg tölvunámskeið, fann þetta bara út sjálf. Við vorum mikið saman enda ég í foreldrahúsum og það var oft glatt á hjalla hjá okkur, ýmist að baka eða þrífa. Við unnum saman í sláturhúsinu og í Pólarprjóni í mörg ár. Ekki vorum við alltaf sáttar hvor við aðra og deildum oft. Ég man þegar ég stofnaði mitt heimili með manni og barni, þá skipaði hún mér að taka allt draslið mitt úr geymslunni og fara með það þar sem ég væri flutt. Hún var ákveðin manneskja og það þýddi ekkert að ströggla, hún átti yfirleitt síðasta orðið.

Hún setti upp skóbúð á Húnabrautinni og hafði mikið yndi af. Það var nú svolítið skondið hvernig það kom til því maður nokkur bankaði upp á einn daginn og spurði til vegar, hann sagðist selja íþróttaskó og vantaði að finna skó búðina. Þá var engin skóbúð en Jenný fékk strax áhuga og eftir stutt spjall var ákveðið að setja upp skóverslun í bílskúrnum og hún var rekin með glæsibrag í 10 ár.e

Síðustu 20 árin vorum við Jenný ekki í miklu sambandi en alltaf hugsaði ég hlýtt til hennar og hefði viljað að sumt væri öðruvísi. Elsku Jenný, nú er lífsgöngu þinni hér á jarðríki lokið. Við vitum aldrei hvenær tilverunni lýkur en þú ert farin á annað stig og þar heldur tilvera þín áfram. Sem betur fer vitum við ekki hvenær vistaskiptin verða en þá fyllast þeir sem eftir sitja bæði sorg og þakklæti. Það er komið að kveðjustund og við vitum að eigi má sköpum renna.

Jónína Kristjana

Þorvaldsdóttir (Nanna).

Kveðjustundin er komin og mamma farin til allra hinna englanna. Kallið kom óvænt og skilin stutt milli lífs og dauða. Ég kveð þig með kærleik og söknuð í hjarta, elsku mamma mín, endalaust þakklát fyrir allar góðu stundirnar okkar saman síðastliðna mánuði. Þú kvaddir þessa jarðvist sjálfbjarga heima, með kollinn skýran og umvafin mínum örmum. Ég trúi að þannig hafir þú fengið hinstu óskir þínar uppfylltar hjá almættinu.

Mamma var hjartahlý og góð kona sem trúði á mátt bænarinnar og hjálp og stuðning að handan. Hún hugsaði mikið til þeirra sem áttu við veikindi og erfiðleika að stríða, bað fyrir þeim og þakkaði fyrir að hún sjálf hefði það ekki verra en raun bar vitni.

Þó að hún tæki ekki upp tólið og hringdi reglulega til sinna, þá fylgdist hún vel með öllum og nýtti þá oft tæknina og vefmiðla í þeim erindum því hún hafði góða þekkingu á tölvutækninni. Ég á eftir að minnast þess næstu vikurnar þegar föndurdótið sem hún pantaði erlendis frá kemur eitt af öðru í póstkassann. Hún naut þess vel að liggja fyrir með iPadinn sinn og læra af myndböndum um gerð allavega muna og reyna sig svo við sköpun þeirra þegar búið var að afla efnis og tóla sem til þurfti.

Ég mun sakna þess að heyra ekki ljóð dagsins lesið upp á hverjum morgni, umræðna um fréttir á vefnum og hlátursins okkar saman yfir grafalvarlegum hlutum. Þær verða heldur ekki fleiri ferðirnar okkar á kaffihús eða bíltúrar þar sem ég fæ að heyra sögur um liðnar stundir á ýmsum æviskeiðum. Í borginni kölluðu margir staðir fram endurminningar um allskonar atburði í lífi mömmu og alltaf gat hún hlegið að vandræðalegum uppákomum sem hún minntist.

Þegar við ókum saman austur fyrir fjall eða norður í land varð mér ljós öll þekkingin sem með henni bjó, það skipti engu hvort um var að ræða nöfn á fjöllum, bæjum, fræga atburði eða sögur af ættmennum sem eitt sinn voru uppi á stöðunum sem við ókum hjá, alltaf vissi mamma eitthvað sem hún varð að deila með mér.

Mamma var ekki bara fróð, hún var víðsýn, ung í anda, úrræðagóð og traust vinkona, alltaf tilbúin að styðja mig gegnum allt sem ég tók mér fyrir hendur. Hún gat líka verið þverari en allt, ef hún var búin að ákveða eitthvað þá var því ekki breytt. Ef eilífðin er ekki endastöð er líklegt að nú verði gjafavöruverslanir og búsáhaldadeildir heimsóttar oft því henni fannst svo margt fallegt þar og að farið verði í ferðalög um allar heimsálfur en líkaminn stoppaði hana af í draumum um að sjá heiminn.

Þegar mamma greindist með krabbamein í júlí síðastliðnum sagðist hún tilbúin í sína hinstu för en bara ekki alveg strax því hún þyrfti að klára svo margt áður. Henni tókst að ljúka flestu en hélt inn í hvern dag uppfull af hugmyndum um eitthvað sem hún gæti gert sér til dægrastyttingar ef líkami og hugur gæfi henni færi til þess. Það er gott til þess að hugsa að hún var tilbúin en ekki föst á einhverri biðstöð að bíða eftir endinum.

Takk fyrir samfylgdina, elsku mamma, þín verður sárt saknað en minningin ljúfa mun lifa.

Jóhanna Þorvaldsdóttir.

Jenný Marta Kjartansdóttir hefur kvatt þessa jarðvist 81 árs að aldri. Minningarnar hrannast upp. Fyrstu minningarnar tengjast heimsóknum til hennar og afa norður á Blönduós. Í minningunni fór ég á hverju sumri með foreldrum mínum til þeirra og stundum fékk ég að verða eftir. Það var gjarnan margt um manninn á Húnabrautinni og mikið fjör. Ég var ekki há í loftinu þegar ég fór að aðstoða Jennýju við að undirbúa matar- og kaffitíma. Mér fannst eftirsóknarvert að fara út í Vísi og kaupa inn. Það var stutt að fara og stundum fékk ég að fara ein. Það var líka svo gaman að vera í kringum heimilisfólkið og þá sem komu við á Húnabrautinni. Á þessum tíma var lagt á borð fyrir átta til tíu manns. Fjölskyldan var stór og svo komu gestir með afa sem tengdust naglaverksmiðjunni og vélsmiðjunni Vísi. Heimilisstörfin voru drjúg hjá Jennýju og vinnudagurinn langur.

Það var alltaf gott að koma til Jennýjar og gaman að vera með henni því hún var dugleg að spjalla um alla heima og geima. Hún gaf sér tíma til að hlusta og maður mátti hafa skoðun. Með aldrinum áttaði ég mig á því hve vönduð kona Jenný var, mörgum hæfileikum gædd og góð manneskja. Ég átti þess kost að dvelja hjá henni og afa þegar ég var í kennaranámi og stundaði æfingakennslu á Blönduósi árið 1987. Það voru dýrmætar sex vikur því ég lærði svo mikið af henni, t.d. um þolinmæði og umburðarlyndi. Þá áttaði ég mig á lífshlaupi hennar. Æska hennar og uppvaxtarár voru ekki auðveld, þar sem hún þurfti að fara frá móður sinni ung að aldri. Þegar hún svo kynnist afa mínum sem þá var ekkill með fimm börn, tók hún að sér erfitt verkefni. Ég veit ekki hvernig það vildi til að hún tók saman við afa en ég er þakklát fyrir það, annars hefði ég ekki kynnst henni.

Jenný var víðsýn og fróð. Hún var líka ung í anda og á undan sinni samtíð. Í seinni tíð átti Jenný áhugamál sem hún ræktaði og stundum hellti hún sér á bólakaf í málefnin. Ég man svo vel eftir ættfræðiáhuganum og ekki síður áhuga hennar á andlegum málefnum, svæðanudd var málið um tíma og svo var það skókaupmennskan. Tækni var henni líka hugleikin sem birtist í óþrjótandi áhuga á tölvutækni. Ég man eftir henni með Amstrad-tölvu í kringum 1980, sem var með segulbandsspóludrifi. Allar götur síðan hefur Jennýju tekist með ómældum áhuga að fylgjast með þróun tölvutækninnar, verða sér úti um græjur og nýta sér til afþreyingar. Fram á síðasta dag var hún með heila hugsun þótt líkaminn væri að gefa sig. Hún vissi hvert stefndi og var að undirbúa brottför. Það var æðislegt að finna hve þakklát hún var öllu sínu fólki og ekki síst Jóhönnu fyrir að vera með sér í vetur. Ég er viss um að margir hafa tekið vel á móti Jennýju, hinumegin. Minning hennar lifir.

Ég sendi þeim sem sakna Jennýjar samúðarkveðjur.

Jónína Magnúsdóttir.

Ég væri sannarlega ekki sá sem ég er í dag, amma mín, ef ekki væri fyrir þig. Þau áhrif sem þú hefur haft á mig frá barnsaldri eru augljós.

Ég var ekki gamall þegar við bræðurnir hönnuðum okkar eigin körfuboltamyndir, fjölfölduðum þær sem við áttum og prentuðum plaköt af uppáhalds köppunum okkar á neðri hæðinni á Húnabrautinni. Hjá þér voru nefnilega til tölvur, prentarar og ljósritunarvélar löngu áður en þær urðu að sjálfsögðum heimilistækjum. Ég efast ekki um að þetta hafi gert það að verkum að í dag er ég bara nokkuð klár á flestallt sem snýr að tækni og í því að skapa það sem mér dettur í hug með hennar hjálp.

Þegar við guttarnir urðum svo aðeins eldri kynntir þú okkur fyrir nágrenni þínu með heimsóknum í Kántrýbæ, Borgarvirki og á fleiri áhugaverða staði. Það var einmitt í byrjun einnar slíkrar ferðar sem þú gafst mér mína fyrstu geislaplötu, Þessi þungu högg með Sálinni hans Jóns míns, hljómsveit sem hefur alla tíð síðan verið í miklu uppáhaldi.

En það var ekki bara á þessum uppvaxtarárum mínum sem þú tókst þátt í að gera mig að þeim manni sem ég er í dag, þegar hugurinn leitaði suður í stórborgina tókst þú mér opnum örmum. Hjá þér átti ég alltaf skjól þrátt fyrir óreglu og vesen sem einkenndi þessa fyrstu tilraun mína til búferlaflutninga. Þá var fjárhagur þinn nú ekki beysinn en samt fórst þú með mér og lánaðir mér fyrir fartölvu þegar mín hrundi, fylltir frystiskápinn af tilbúnum pitsum þegar þér leist ekki á hvað ég borðaði lítið og passaðir að alltaf væri eldsneyti á bílnum þínum ef ég skyldi nú ekki geta fyllt á minn. Þessu gleymi ég aldrei frekar en seinna skiptinu sem leið mín lá í samvistir með þér í borginni. Þá leið ekki á löngu þar til ég kom með unga stúlku með mér heim. Henni tókst þú jafn elskandi opnum örmum og mér og hjá þér bjuggum við Katrín þar til við fluttumst til Sauðárkróks.

Ég hef reynt að endurgreiða þér það sem þú hefur gefið mér, ég er hreykinn af því að hafa notið með þér jólanna, farið með þér í útilegur, að þú hafir séð framtíðarheimili okkar Katrínar og að börnin okkar hafi fengið að kynnast þér.

Fyrsta apríl síðastliðinn datt okkur hjónakornunum í hug að bregða landi undir fót og renna til Reykjavíkur. Ég tók upp símann og hringdi í mömmu til þess að athuga hvernig stæði á hjá ykkur, því þótt þröngt væri vorum við farin að hafa þann háttinn á að búa um okkur á vindsæng í stofunni hjá þér þegar leið okkar lá suður, svo við fjölskyldan fengjum notið sem mest af tíma okkar í borginni með ykkur. Mamma tók vel í þessa skyndiákvörðun en bað mig nú að athuga samt hvort þú treystir þér til því þú hefðir verið slöpp undanfarið. Auðvitað vorum við guðvelkomin, þú hafðir einungis áhyggjur af því við þyrftum að búa um okkur sjálf því þrekinu var farið að hraka og mamma að vinna.

Við létum því vaða, brunuðum í bæinn og gáfum okkur og börnunum okkar dýrmætar klukkustundir með þér á lokasprettinum. Öll fengum við faðmlag og kveðjustund sem í dag er ógleymanleg.

Dreymi þig vel, elsku amma mín.

Davíð Már Sigurðsson.

Elskuleg vinkona mín, Jenný Kjartansdóttir er látin, 81 árs að aldri. Við vorum búnar að þekkjast frá því við vorum sextán og sautján ára. Kynntumst fyrst á Laugarvatni, í héraðsskólanum, þar sem við vorum herbergisfélagar ásamt tveimur öðrum stúlkum. Ég þurfti reyndar að hætta um áramótin vegna veikinda. Það eru nú orðin sextíu og fjögur ár síðan og allan þann tíma höfum við haldið sambandi.

Hún bjó mörg ár á Blönduósi með eiginmanni sínum, Þorvaldi Þorlákssyni, tveimur börnum og fimm stjúpbörnum. Ég heimsótti hana þá á hverju ári með mín börn og hún kom líka öðru hverju í bæinn.

Jenný var frábær vinkona, trú og trygg. Hún sá eitthvað gott í öllum manneskjum, var langt frá því að vera dómhörð, svo að jafnvel stundum þótti manni nóg um allt umburðarlyndið! Hún var mjög andlega sinnuð og bænheit, hafði mikinn áhuga á andlegum málefnum. Hún hafði hjálpað mörgum með fyrirbænum sínum og á annan hátt. Það var gaman að tala við hana um andleg málefni og hún fræddi mig oft um málefni, sem ég þekkti ekki til. Okkur varð aldrei sundurorða öll þessi árin, ótrúlegt en satt!

Jenný greindist með krabbamein fyrir tæpu ári og þá kom strax í ljós að lítil von væri um bata. Hún tók þeim tíðindum af einstöku æðruleysi, eins og hennar var von og vísa. Eins og hún sagði: „Ég hef átt gott líf, góða fjölskyldu og góða vini, Ég kveð sátt við Guð og menn.“

Jóhanna dóttir hennar, sem býr á Sauðárkróki, flutti í bæinn til hennar til að vera hjá móður sinni þar til yfir lyki. Jenný var óendanlega þakklát dóttur sinni fyrir fórnfýsi hennar og góðu umhyggju.

Andlátið bar brátt að, ég kom til hennar 3. apríl, á afmælisdaginn hennar, og þá var hún nokkuð hress, miðað við aðstæður. Aðeins þremur dögum síðar var hún látin. Það var mikið áfall, þrátt fyrir að engin von hefði verið um bata.

Það eru mikil forréttindi að hafa átt svona góða vinkonu, öll þessi ár. Ég sakna hennar mikið og mun alltaf gera. Börnum hennar, stjúpbörnum og fjölskyldum þeirra sendi ég mínar innilegust samúðarkveðjur.

Jóhanna Eyþórsdóttir (Hanna).