Íhlutir sem áralöng reynsla er komin á eru brúkaðir við smíði Dacia-bílanna.
Íhlutir sem áralöng reynsla er komin á eru brúkaðir við smíði Dacia-bílanna. — Morgunblaðið/
Í byrjun hvers árs birtir franska bílablaðið Auto Plus niðurstöður rannsóknar sérfræðinga sinna á því hvaða bílamerki reyndust áreiðanlegust og traustust á liðnu ári.

Í byrjun hvers árs birtir franska bílablaðið Auto Plus niðurstöður rannsóknar sérfræðinga sinna á því hvaða bílamerki reyndust áreiðanlegust og traustust á liðnu ári. Nú hefur blaðið birt samantekt fyrir árið 2016, fyrir 20 algengustu bílmerkin í Frakklandi.

Niðurstaðan byggist á rannsóknum á þúsundum rafpósta og sendibréfa frá bíleigendum sem gert hafa kleift að skrásetja bilanir bíla frá viðkomandi framleiðendum. Þær upplýsingar hafa svo verið settar í samhengi við heildarsölu nýrra bíla hjá hverju merki síðustu átta árin. Við það hefur fengist hlutfall fjölda bilana miðað við fjölda seldra bíla frá 2009.

Hinn rúmenski bílsmiður Dacia, sem er í eigu franska bílrisans Renault, framleiðir traustustu bílana samkvæmt niðurstöðum Auto Plus. Og ekki bara í ár því Dacia var einnig efst á blaði fyrir árið 2015.

Íhlutir sem eru hoknir af góðri reynslu

Hver er ástæðan fyrir þessari útkomu Dacia, sem framleitt hefur fimm bílamódel af ódýrari gerðinni? Leyndardómurinn felst í því að bílarnir eru smíðaðir úr upprunalegum íhlutum frá Renault sem löng og góð reynsla hefur fengist á. Sömuleiðis er rafeindatækninni beitt í hófi í aðstoðarkerfum í bílunum. Það er einmitt sú tækni sem komið hefur dýrari merkjum í koll með tíðum bilunum. Hið eina sem franskir eigendur Dacia-bíla kvarta undan er efnaval í innréttingu og samsetning þeirra, án þess að það sé nánar útskýrt í hverju það felist. Þeir hinir sömu segja hins vegar að ending bílanna með árunum sé mjög viðunandi, þar á meðal mikið keyrðir bílar.

Hástökk hjá Kia

Í öðru sæti og einnig með toppeinkunn er Kia-merkið, sem skaust upp úr sjötta sætinu fyrir ári og sýndi mikið hraustleikamerki 2016. Fækkaði bæði vélrænum bilunum (kúpling, gírkassi, skipting og höggdeyfar) Kia-bíla fimm ára og eldri og sömuleiðis bilunum í rafeindakerfi.

Skörinni neðar í þriðja sæti urðu bílamerkin Peugeot og Toyota. Það fyrrnefnda hækkaði um tvö sæti en Toyota var á sömu slóðum í fyrra, í fjórða sæti. Í fimmta sæti – árið í fyrra í sviga – varð Renault (3.), í sjötta Citroën (9.), í sjöunda Opel (8.), í áttunda Ford (7), í níunda Hyundai (10) og í tíunda Suzuki (2.).

Standa ekki undir væntingum

Auto Plus segir að bilunum hafi ekki fjölgað árið 2016 frá 2015. Niðurstöður nýliðins árs sýni enn og staðfesti að merki sem almennt séu talin óaðfinnanleg og gallalaus standi ekki undir væntingum. Til að lifa 100% í rónni sé svarið bíll frá Dacia eða merkjum sem bjóða upp á margra ára ábyrgð á bílum sínum, eins og Kia.

Þetta er líklega sagt í tilefni þess að bílmerki á seinni helmingi lista Auto Plus komu mun lakar út hvað bilanir áhrærir. Í ellefta sæti varð Volkswagen, í tólfta Fiat, í þrettánda Skoda, jöfn í fjórtánda Mini og Nissan, í sextánda Mercedes-Benz, í sautjánda Seat, í átjánda BMW, í nítjánda Volvo og í því tuttugasta og neðsta Audi. Er útkoma þeirra mjög svipuð því sem var fyrir ári, Audi rekur t.d. lestina bæði árin, en bilanir í 2,0 og 1,6 lítra TDI-vélum og rafeindastýringum hrjáðu bílana, aðallega frá 2011 og fyrr. Segir Auto Plus að bílarnir A1 og A3 hafi komið mjög vel út á undanförnum misserum sem gæti bent til þess að Audi hækki á listanum og það þess vegna þegar á næsta ári.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Höf.: Ágúst Ásgeirsson