María Heimisdóttir
María Heimisdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, furðar sig á samanburðartölum við Norðurlöndin í fjármálaáætlun ríkisins 2018-2022.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, furðar sig á samanburðartölum við Norðurlöndin í fjármálaáætlun ríkisins 2018-2022. Í fyrirlestri á ársfundi Landspítalans sagði hún að slíkar tölur hefðu ekki verið notaðar áður þegar talað væri um fjárveitingar til heilbrigðismála.

„Það er eins og stjórnvöld séu að velja að nota aðrar samanburðartölur við Norðurlöndin en hafa hingað til verið notaðar og maður spyr sig af hverju það sé allt í einu gert núna,“ segir María í samtali við Morgunblaðið. „Ísland lítur betur út í þeirra tölum, þetta eru alveg réttar tölur en það er bara ekki verið að tala um sama hlutinn.“

Ríkisútgjöld eða heildarútgjöld

Í fjármálaáætlun ríkisins kemur fram að Norðurlöndin eyði að meðaltali 7,8% af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála og að Ísland eyði 7,4% af vergri þjóðarframleiðslu. Í niðurlagi áætlunarinnar kemur fram að „umfang opinberrar þjónustu er því almennt ekki minna en það sem tíðkast á nágrannalöndunum... Sé opinber þjónusta lakari hér á landi en á öðrum Norðurlöndum og árangur lakari er skýringanna ekki að leita í lægri fjárframlögum.“

Í fyrirlestri Maríu kemur fram að skýringin sé að yfirvöld virðist í áætlun sinni miða við gögn OECD sem byggist eingöngu á ríkisreikningum landanna en ekki OECD-tölum um heildarútgjöld til heilbrigðismála. María bendir á að í skýrslu velferðarráðuneytisins og fjárlaganefndar Alþingis sem framleidd var af McKinsey & Company séu talsvert ólíkar tölur. Í McKinsey-skýrslunni voru notaðar tölur OECD um heildarútgjöld og þar eru fjárframlög Íslands til heilbrigðsmála 8,8% af vergri þjóðarframleiðslu og meðatal Norðurlanda er 10,3%.

„Þetta munar ekki litlu, þetta eru ekki hundrað milljónir, þetta munar tugum milljarða eftir því hvað er miðað við. Þetta er ekki einhver sparðatíningur og smámunasemi,“ segir María.