Ásgeir
Ásgeir
Tónlistarmaðurinn Ásgeir, fullu nafni Ásgeir Trausti Einarsson, sendi fyrir síðustu helgi frá sér titillag nýrrar plötu sinnar, Afterglow , sem kemur út 5.

Tónlistarmaðurinn Ásgeir, fullu nafni Ásgeir Trausti Einarsson, sendi fyrir síðustu helgi frá sér titillag nýrrar plötu sinnar, Afterglow , sem kemur út 5. maí og er það þriðja lagið af plötunni sem hefur verið opinberað því áður hafa komið út lögin „Stardust“ og „Unbound“. „Afterglow“ er nú orðið aðgengilegt á netinu og samdi Ásgeir lagið en textann faðir hans, Einar Georg Einarsson, og var textinn þýddur á ensku af bróður Ásgeirs, Þorsteini Einarssyni.

„Lagið var samið heima á Laugarbakka þar sem við pabbi gátum eytt tíma saman í rólegheitunum. Þessi tími sem við eyddum saman þar varð að ákveðnum vendipunkti við gerð plötunnar. Ég fékk skýrari mynd af því hvernig ég vildi að nýja platan hljómaði eftir að hafa samið „Afterglow“ þótt ég hafi síðar fengið aðrar og elektrónískari hugmyndir en það er einmitt ástæðan fyrir því að platan er að hluta til akústísk og að hluta til elektrónísk,“ er haft eftir Ásgeiri um lagið í tilkynningu.

Þá hefur myndband við lagið „Stardust“ einnig litið dagsins ljós en það var tekið upp í Gerlev í Danmörku og leikstýrt af Herði Frey Brynjarssyni. Er því lýst sem kvikmyndalegu ferðalagi aftur til gullaldarára skemmtanaiðnaðarins þar sem Ásgeir komi fram ásamt hljómsveit og samhæfðum sundkonum. Myndbandið má nú finna á YouTube.

Í frekari fréttum af Ásgeiri er það svo helst að hann heldur brátt í tónleikaferð um Evrópu til að fylgja plötunni eftir og mun hann einnig leika á sérstökum tónleikum í Eldborg í Hörpu á Iceland Airwaves-hátíðinni í byrjun nóvember.