Ekki lengur spenntur fyrir Jeep Wrangler? Bíddu þangað til þú hefur kynnst þessu skrímsli, Jeep Wrangler Rattletrap Custom árgerð 2007.
5,9 lítra 12-Valve Twin Turbo Cummins-vél sem rúllar um á 44×19,5 tommu Pit Bull Rocker-dekkjum. Eru lesendur sannfærðir?
Grindin og fjöðrunin voru sérhönnuð hjá Jason At kat Kustoms New Knoxville í Ohio-ríki. Ekki fæst nákvæmlega gefið upp hvaða tölur búa í vélinni nema hvað að hestöflin eru yfir 500 og togið er yfir 1350 Nm. Ekkert var til sparað að gera innviðina jafnríkmannlega og ytra byrðið er ógnvekjandi.
Umhverfið borið ofurliði
Til að sannreyna dug þessa hrikalega jeppa var hann prófaður fram og til baka, jafnt í skóg- og mýrlendi Ontario í Kanada sem og í ómögulega erfiðu blautlendinu í Dóminíkanska lýðveldinu. Hann bar sigurorð af öllum aðstæðum, svo við lá umhverfisspjöllum að því er segir í fréttatilkynningu – í gamansömum tón. Lýsingin er frá Rigid Industries og rörstuðarar frá River Raider. Fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda er spilið á framstuðaranum frá Ramsey og dráttargetan er langt á sjötta tonnið.Í takt við aflið eru 4 sæti í bílnum, allt djúpar „fötur“ svo viðstaddir tolli á sínum stað er skrímslið leggur í hann.
Ef í harðbakkann slær mun massíf veltigrind halda mannskapnum hérna megin heljar. Nóg um það, ef þú átt 24 millur króna plús tilhlýðilega tolla og aðflutningsgjöld er ekki annað eftir en að hafa samband. Smellið á heimsíðu duPont Registry og látið drauminn rætast. Atvinnutækin verða ekki mikið meira spennandi en þetta.
jonagnar@mbl.is