Keppnisbílarnir í Formúlu 1 bruna inn í fyrstu beygjuna eftir ræsingu í kappakstrinum í Barein þann 16. apríl sl.
Keppnisbílarnir í Formúlu 1 bruna inn í fyrstu beygjuna eftir ræsingu í kappakstrinum í Barein þann 16. apríl sl. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verulegar breytingar á tæknireglum formúlu-1 tóku gildi fyrir nýhafna keppnistíð. Bílarnir eru breiðari, dekkin feitari svo útlit þeirra er nýtt og áskorunin meiri. Tilgangurinn var að gera bílana hraðskreiðari og það hefur tekist.

Verulegar breytingar á tæknireglum formúlu-1 tóku gildi fyrir nýhafna keppnistíð. Bílarnir eru breiðari, dekkin feitari svo útlit þeirra er nýtt og áskorunin meiri. Tilgangurinn var að gera bílana hraðskreiðari og það hefur tekist.

Áætlað er að nýju bílarnir verði þremur til fimm sekúndum fljótari með hring keppnisbrauta en í fyrra og hittifyrra, bæði vegna straumfræðilegrar uppstokkunar í bílunum og fjórðungi breiðari dekkja en áður. Besti brautartíminn við vetrarprófanir liðanna í Barcelona var betri en ráspólshringur allra móta þar frá 2007. Bætingin næst fram í beygjum sem hægt er að aka í gegn á botnferð vegna aukins vængafls og þar með betri rásfestu. Á löngum beinum köflum eru bílarnir kannski ekki jafn fljótir en í ár dugar að bremsa mun síðar en áður.

Afturdekkin hafa verið breikkuð úr 325 millimetrum í 405 og framdekkin úr 245 mm í 305. Felgustærðin er annars óbreytt og allt í allt áætlar dekkjafyrirtækið Pirelli að dekkin skili 25% meiri rásfestu og endist lengur en í fyrra. Hið síðastnefnda gæti verið ávísun á færri dekkjastopp.

Framvængirnir eru víðari en áður, eða 1,80 metrar í stað 1,65 m í fyrra. Afturvængurinn er bæði breiðari og lægri. Bílarnir sjálfir eru sömuleiðis 20 sentimetrum breiðari og mælast tveir metrar sléttir, eða eins og á árunum fyrir 1988. Með 722 kílóa þunga eru þeir 20 kílóum þyngri. Umskiptin í straumfræði bílanna eru talin geta unnið gegn auknum framúrakstri.

Loks hefur bensíntankurinn verið stækkaður svo hann geti borið 105 kíló bensíns að hámarki, eða 5 kílóum meira en í fyrra. Þetta er gert til að bæta ökumönnum upp aukna bensínnotkun vegna aukins veggrips. Óttast er að það muni ekki duga alltaf til og ökumenn verði að stunda sparakstur og gæta þess öllum stundum að sækja ekki of stíft eigi bensínið að duga til að koma bílnum alla leið í mark.

Meiri sviptingar og betri keppni?

Vegna alls þessa verður sjónum betur beint að formúlubílunum á keppnistíðinni sem hófst í Melbourne í Ástralíu í marslok. Þeir eru hraðskreiðari, breiðari og árásarlegri að útlitsatgervi vegna breiðara útlits. Stóra spurningin er hvort breytingarnar eigi eftir að leiða til meiri sviptinga og skemmtilegri keppni en áður, en það er einmitt tilgangurinn. Og þá sérstaklega hvort einræði Mercedes-liðsins verði brotið á bak aftur.

Þar sem ljóst þótti að beygjuhraði bílanna yrði miklu meiri vegna aukinnar vængpressu mæddi það á ökumönnum að nýta veturinn vel til að æfa meira en áður og auka líkamsstyrk sinn til að geta tekist á við aukna togkrafta þyngdaraflsins. Það gerðu þeir af kostgæfni og segja að fyrir vikið virðist munurinn á nýju bílunum og þeim í fyrra ekki svo ýkja mikill.

Hin nýju og breyttu dekk, sem eru 25% breiðari en í fyrra, stóðu undir væntingum við vetrarprófanir og í fyrstu tveimur mótunum. Við reynsluaksturinn reyndust bílarnir fimm sekúndum fljótari með hringinn í Barcelona en árið 2015. Hafa viðmið um framfarir þeirra og getu því verið aukin frekar. Bílar liðanna eru augljóslega hraðskreiðari og telja fulltrúar dekkjafyrirtækisins að þróun þeirra eftir því sem líður á keppnistíðina geti átt eftir að leiða af sér hraðskreiðustu formúlu-1 bíla frá upphafi.

Beðið svara við fjölda spurninga

Tilgangurinn með breytingum á tæknireglum bílanna var aðallega að gera þá hraðskreiðari. Það hefur tekist, en mörgum spurningum um það sem við tekur er ósvarað. Hvernig mun þeim takast upp í keppni? Drottnar Mercedes áfram? Geta bílarnir fylgst að í návígi? Mun Fernando Alonso halda rósemd í McLaren-Honda bíl sem augljóslega á enn við mikinn vanda að stríða, þriðja árið í röð?

Vissulega er Mercedes það sem allt miðast við í formúlu-1 um þessar mundir sem undanfarin misseri. Bílprófanir vetrarins í Barcelona bentu til að silfurörvarnar væru enn þær bestu og þar gengu æfingar Lewis Hamilton og Valtteri Bottas snurðulaust fyrir sig. Áberandi var að nýi liðsmaðurinn Bottas reyndist afar hraðskreiður og til alls líklegur í keppni. Þykir stefna í að hann geti orðið Hamilton skeinuhættur í keppni.

Þrátt fyrir þetta var engu að síður ljóst að Ferrari hafði tekið sig mjög á frá í fyrra. Sérstaklega virtist Sebastian Vettel líklegur til þess að velgja Ferrari undir uggum. Þá reyndist Kimi Räikkönen hraðskreiðastur allra á vetraræfingunum í Barcelona og endingartraust Ferrarifáksins var greinilegt. Jafnvel að bil sem var í Red Bull í fyrra hafði verið brúað og gott betur. Hamilton leist þannig á blikuna, að hann sagði að Ferrari yrði liðið sem menn þyrftu að leggja að velli í sumar ætluðu aðrir sér að vinna titla. Þessu andmælti Vettel og sagði Mercedes toppliðið. Ljóst var þó að bilið var minna en um árabil og spár um aukinn og magnaðan styrk Ferrari rættust strax í fyrsta móti með sigri Vettels í Melbourne. Vísbendingar um að vertíðin eigi eftir að þróast upp í tvíhliða slag Ferrari-fákanna og silfurörvanna fengust svo með sigri Hamilton í Sjanghæ í Kína.

Með sandpoka í skottinu?

Bílar Red Bull voru þeir næstfljótustu í fyrra og eina liðið sem gat neitað Mercedes um sigur í hverju einasta móti vertíðarinnar. Reynsluakstur vetrarins í Barcelona og æfingar á mótshelgunum í Melbourne og Sjanghæ benda til að Red Bull sé einungis með þriðja fljótasta bílinn í ár. Mercedes-stjórinn Toto Wolff vildi ekki afskrifa liðið strax og sagðist gruna að það hefði verið með yfirþyngd í bílunum – sandpoka í skottinu – til að fela raunverulegan hraða þeirra.

Akstur Felipe Massa við vetrarprófanirnar er vísbending um að Williams-bíllinn búi yfir góðum alvöruhraða. Litlu munaði að Williams næði fjórða sætinu í keppni liðanna í fyrra, varð fimmta, eftir að hafa orðið í þriðja sæti 2014. Allt bendir til að Williams-bíllinn sé hlutfallslega öflugri í ár og að liðið geti keppt um alla vega fjórða sætið.

Nýliðar Haas slógu í gegn á jómfrúarári sínu í formúlu-1 í fyrra, en liðið varð í áttunda sæti í keppni liðanna af ellefu og halaði inn helling af stigum. Hraði bílsins í ár bendir til þess að Haas kynni að færast upp eftir rásröðinni í ár. Gæti jafnvel átt eftir að koma mjög á óvart með frammistöðu í mótum. Í Haas-bílnum er að finna Dallara-undirvagn og hina mjög svo batnandi vél frá Ferrari.

Torvelt að halda fjórða sætinu

Force India átti sitt langbesta ár í fyrra, varð í fjórða sæti í stigakeppni liðanna, með einungis Mercedes, Red Bull og Ferrari framar. Í ár virðast miðjuliðin á rásmarkinu mun jafnari og því verður fjórða sætið torsóttara í ár. Erfitt er að spá um getu Force India í ár en víst er að þeir Sergio Perez og Esteban Ocon munu sjaldnast eiga náðuga daga í keppni vegna þéttingar í miðjum hóp.

Renault hefur sett sér það markmið að vinna fimmta sætið í keppni liðanna í ár. Hefur það ráðið hinn reynda Nico Hülkenberg sem liðið bindur miklar vonir við. Bíllinn í ár er sá fyrsti sem Renault hannar frá grunni eftir að það sneri aftur til keppni í fyrra. Vegna þess hversu jafnari liðin að baki toppliðunum þremur eru þarf Renault á því að halda að losna við alls konar óhöpp í keppni eigi markmiðið að nást.

Toro Rosso varð í sjöunda sæti í fyrra og vetrarprófanirnar benda til að það verði á svipuðu róli í ár. Liðið sýndi mikinn hraða á köflum í fyrra og það gæti endurtekið sig í ár. Með sömu ökumenn og í fyrra ætti stöðugleiki í keppni að vera fyrir hendi.

Fleiri gætu krækt í stig

Svissneska liðið varð í tíunda og næstsíðasta sæti í liðakeppninni 2016, vann stig í aðeins einu móti. Sauber fagnar í ár 25 ára þátttöku í formúlunni. Háir það liðinu að vera með ársgamla Ferrari-vél sem var langtum lakari en vélin í ár sem ekki passar í bíla Sauber. Á æfingum vetrarins brá þó öðru hverju fyrir talsverðri snerpu sem gæti bent til að liðinu gæti tekist að krækja á stundum í stig.

McLaren olli vonbrigðum 2015 og 2016 og hefur haldið því áfram í ár. Hlutfallslega aflvana Honda-vélar hafa hrellt ökumennina. Þrátt fyrir miklar endurbætur á vélinni fyrir tímabilið í ár stendur hún hinum ennþá nokkuð að baki. Fernando Alonso hefur setið á sér það sem af er ári en eigi sér ekki stað stökkbreytingar í getu McLaren-bílsins á næstu mánuðum framlengir hann eflaust ekki ráðningarsamning sinn sem rennur út í vertíðarlok.

agas@mbl.is