Á Hlíðarenda
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
Bikarmeistarar Vals fögnuðu sigri í síðasta kappleik sínum fyrir Íslandsmótið í knattspyrnu í gærkvöld þegar þeir lögðu Íslandsmeistara FH að velli, 1:0, í Meistarakeppni KSÍ. Haukur Páll Sigurðsson skoraði sigurmarkið með skalla undir lok fyrri hálfleiks, eftir hornspyrnu Danans Nicolas Bøgild.
„Generalprufan“ er að baki og nú þurfa leikmenn að vera klárir í slaginn þegar alvaran hefst á sunnudaginn. Valsmenn virðast vera það, ekki síst markvörðurinn Anton Ari Einarsson. Anton fékk traust til að standa í marki Vals á síðustu leiktíð og miðað við frammistöðu hans í gær hefur hann bara bætt sig yfir vetrarmánuðina.
Snemma leiks varði Anton meistaralega þegar Steven Lennon átti fast skot af vítateigslínunni, efst í vinstra hornið, en boltinn fór af fingrum Antons í þverslána og út. Anton var einnig vel á verði þegar Lennon sendi Kristján Flóka Finnbogason aleinan í gegnum vörn Vals, í algjört dauðafæri, um miðjan seinni hálfleik, og kom í veg fyrir að FH jafnaði metin. Anton var öruggur í öllum aðgerðum og virtist líða vel fyrir aftan Orra Sigurð Ómarsson og Rasmus Christiansen sem aftur mynda miðvarðapar Vals. Haukur Páll skilar einnig mikilvægu hlutverki við að verja markið.
Höfuðverkur Vals virtist frekar felast í sóknarleiknum. Kristinn Ingi Halldórsson er öskufljótur en ekki nægilega mikill markaskorari til að vera fremsti maður. Sigurður Egill Lárusson á meira inni en hann sýndi í gær, og fyrrverandi Þróttarinn Dion Acoff átti nokkra góða spretti sem ekki kom þó nógu mikið út úr.
Ef aðeins er tekið mið af leiknum í gær virðast FH-ingar ekki alveg tilbúnir í Íslandsmótið. Þeir hvíldu þó Davíð Þór Viðarsson og þeir Kassim Doumbia og Bjarni Þór Viðarsson eru meiddir. Böðvar Böðvarsson varð að leysa stöðu miðvarðar við hlið Bergsveins Ólafssonar, þar sem FH er enn í leit að nýjum miðverði, og stóð sig reyndar vel. FH varð að nota 4-4-2 leikkerfi sitt í stað 3-4-3 sem liðið hefur verið að nota í vetur, en meistararnir kunna svo sem vel á það kerfi.
Skoski miðjumaðurinn Robbie Crawford og landi hans, Lennon, létu mest að sér kveða í sókn FH og gegn lakari markverði hefði liðið skorað.