Fundur Ágæt mæting var á vinnustofuna í tengslum við What Works og fóru m.a. fram pallborðsumræður.
Fundur Ágæt mæting var á vinnustofuna í tengslum við What Works og fóru m.a. fram pallborðsumræður. — Morgunblaðið/Eggert
Ráðstefnan What Works verður formlega sett í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í miðbæ Reykjavíkur í dag.

Ráðstefnan What Works verður formlega sett í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í miðbæ Reykjavíkur í dag. Eru það Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Michael Green, framkvæmdastjóri rannsóknastofnunarinnar Social Progress Imperative (SPI), sem flytja setningarávörp, en ráðstefnunni lýkur á miðvikudag nk.

Í gær fór fram vinnustofa í tengslum við ráðstefnuna þar sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, hélt ræðu ásamt Roberto Artavia Loria, varaforseta SPI, og Hrönn Ingólfsdóttur, forstöðumanni verkefnastofu Isavia.

Ráðstefnan er haldin á vegum SPI sem meðal annars gefur út lífsgæðavísitöluna Social Press Index. Markmið ráðstefnunnar í Hörpu er að varpa ljósi á hvernig best er að leysa þau vandamál sem samfélög um allan heim standa frammi fyrir.

Sjálfbær ferðaþjónusta

Roberto hélt erindi um ferðaþjónustuna í heimalandi sínu Kosta Ríka. Hefur hann tekið út atvinnugreinina með mælitækjum vísitölu félagslegra framfara, en ferðamönnum þar fjölgaði að meðaltali um 14% á ári frá 1986 til 1994. Þannig komu t.a.m. 329 þúsund ferðamenn til landsins árið 1988 og var sú tala komin í tæplega 2,7 milljónir árið 2015. Er ferðaþjónustan nú undirstöðuatvinnugrein þar í landi og hefur engin grein aflað meira af erlendum gjaldeyri þar frá árinu 1995.

Á sama tíma tókst Kosta Ríka að verða að einskonar fyrirmyndarríki þegar kemur að sjálfbærri ferðaþjónustu, en um helmingur þeirra sem sækja landið heim tekur þátt í svokallaðri umhverfisferðamennsku (e. ecotourism).

Samfélagsábyrgð á oddinn

Erindi Hrannar sneri að Isavia og hvernig fyrirtækið vinnur að samfélagsábyrgð. „Á sama tíma og við upplifum mikla aukningu í ferðaþjónustu er mikilvægt að huga einnig að atriðum tengdum umhverfi,“ segir hún og vísar meðal annars til þeirra markmiða sem fram koma í Parísarsáttmálanum.

„Við settum okkur umhverfisstefnu fyrir nokkrum árum og stefnu í samfélagsábyrgð í fyrra,“ bendir hún á.