— Ljósmynd/NASA
„Þetta eru vissulega miklir strókar, en því miður er þetta ekki óalgengt.

„Þetta eru vissulega miklir strókar, en því miður er þetta ekki óalgengt. Ísland er mjög stór uppspretta þegar kemur að sandstormum og teygja þeir sig gjarnan mörg hundruð kílómetra út á haf,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, jarðfræðingur við Háskóla Íslands.

Vísar hún í máli sínu til þess að Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur birt MODIS-mynd, sem tekin var í gær, og sýnir hún meðal annars stóra og mikla sandstróka. Eiga þeir einkum upptök sín á Mýrdalssandi og Meðallandssandi, en einnig úr farvegi Skaftár. Um miðjan dag í gær náðu strókarnir mörg hundruð kílómetra út á Atlantshaf, en að sögn Ingibjargar voru þá kjöraðstæður fyrir myndun þeirra.

„Það eru einkum jökulárnar sem bera með sér fínkornótt set og leir sem kemst svo á flug þegar þornar og blæs. Það þarf oft lítinn vind til að þetta fari allt á hreyfingu, en norðanáttin sér til þess,“ segir Ingibjörg og bætir við að sandstrókurinn, þó honum svipi nokkuð til gosstróks á myndinni, nái sjaldnast mjög mikilli hæð.

Landsins forni fjandi heldur sig fjarri

Þá sýnir myndin einnig hversu lítið fer nú fyrir hafísnum, landsins forna fjanda. „Hann hefur verið ansi lítill í vetur. Apríl hefur nú gjarnan verið sá mánuður sem ísútbreiðsla hefur verið hvað mest, en nú er sagan önnur og ísinn hefur lítið farið inn fyrir miðlínu.“ khj@mbl.is