Fyrstu kríur vorsins sáust á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi þann 18. apríl. Björn Gísli Arnarson, fuglaáhugamaður á Höfn í Hornafirði, sá þá fimm kríur við lónið.

Fyrstu kríur vorsins sáust á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi þann 18. apríl. Björn Gísli Arnarson, fuglaáhugamaður á Höfn í Hornafirði, sá þá fimm kríur við lónið. Þetta þótti óvenju snemmt fyrir kríur að koma til landsins en þær fyrstu hafa yfirleitt sést frá 20. til 25. apríl, að því er segir á Facebook-síðunni Birding Iceland.

Björn sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði einnig frétt af um 15 kríum til viðbótar fyrir nokkrum dögum í Óslandinu í Hornafirði. Hann hafði ekki heyrt að kríu hefði orðið vart vestar á landinu enn sem komið væri. Spáð er hlýnandi veðri og þá má búast við að kríur fari að flykkjast til landsins.

Álftir og gæsir hafa hópast til landsins undanfarið. Í gær var góður hópur margæsa nánast inni í bæ á Höfn. Björn sagði það fremur sjaldgæft. „Þær eru á leiðinni til forsetans,“ sagði Björn, en margæsirnar hafa reglulega viðkomu á Álftanesi og bíta gras á Bessastöðum og víðar á nesinu. Þaðan halda þær saddar og sælar á varpstöðvarnar í Norður-Grænlandi og Norður-Kanada.

Af öðrum farfuglum er það að frétta að steindepill sást á Eyrarbakka í gær og eins maríuerlur, þúfutittlingar og lóuþrælar.

gudni@mbl.is