Kannabisvökvi í rafrettur er nú til sölu á sérstökum sölusíðum á netinu. Vökvinn er seldur í plasthylkjum og líklega unninn hér á landi. Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir vökvann einfalda neysluna og höfða til yngri markhópa, en börn niður í 13 ára séu farin að reykja rafrettur.
Sigvaldi Arnar segist hafa heyrt af því að krakkar blandi kannabisvökvanum í annan rafrettuvökva t.d. með jarðarberjalykt til þess að fela lyktina sem fylgir kannabisreykingum. Vökvinn gefur sömu vímuáhrif og ef kannabis er reykt á annan hátt.
„Þetta form af fíkniefninu einfaldar neysluna og því kemur mér ekki á óvart að það breiðist hratt út,“ segir Sigvaldi Arnar sem hefur líka áhyggjur af að kannabisvökvinn verði til þess að auka kannabisneysluna hér á landi. „Þetta er allavegana áhyggjuefni, það er klárt,“ segir Sigvaldi Arnar. 4