Miklir yfirburðir. S-Enginn
Norður | |
♠D9743 | |
♥D6 | |
♦5 | |
♣Á9654 |
Vestur | Austur |
♠G1065 | ♠ÁK |
♥K | ♥7432 |
♦DG109743 | ♦62 |
♣7 | ♣KG1082 |
Suður | |
♠82 | |
♥ÁG10985 | |
♦ÁK8 | |
♣D3 |
Suður spilar 4♥.
Það var ógnarstuð á Jóni Baldurssyni og félögum á Íslandsmótinu um helgina. Fyrst unnu þeir 12 sveita umferðakeppni af öryggi, völtuðu síðan yfir alla mótherja sína á lokdeginum þegar fjórar efstu sveitirnar léku til þrautar. Sveit Jóns hlaut 206 stig, Unaós varð í öðru sæti með 153 og Grant Thornton í því þriðja með 146. Með Jóni spiluðu Sigurbjörn Haraldsson, Sverrir Gaukur Ármannsson, Steinar Jónsson, Aðalsteinn Jörgensen og Birkir Jón Jónsson.
Sveitarforinginn varð sagnhafi í 4♥ í fyrsta spili sunnudagsins gegn Grantverjum. Vestur hafði meldað tígul á fjórða þrepi og kom þar út með drottninguna. Jón spilaði strax þrisvar tígli og stakk með drottningu. Það var upplýsandi að sjá austur henda laufi og Jón spilaði næst trompi á ás og felldi kónginn blankan að baki. Þar með voru tíu slagir mættir og sá ellefti skilaði sér sjálfkrafa í lokin.