Hu Dao Ben fæddist í Kína 1. nóvember 1944. Hann lést 14. apríl 2017.

Eftirlifandi eiginkona hans er Jinxiang Huang, fædd 18. júní 1943, en þau giftust þann 1. október 1967. Þau Hu og Huang eignuðust tvær dætur, annars vegar Jing Hu Legrand, f. 14. apríl 1969, sem gift er Christophe Legrand og eru börn þeirra þau Victorie Legrand, f. 16. september 2000, og Constance Legrand, f. 23. júlí 2003, og hins vegar Bo Hu, f. 19. júní 1978, en hún er gift Yanchi Zhu og eiga þau eina dóttur, Xiyu Zhu, f. 7. nóvember 2011. Hu Dao Ben helgaði líf sitt borðtennisíþróttinni. Eftir glæsilegan keppnisferil með m.a. kínverska landsliðinu, þar sem hann meðal annars hlaut þrisvar sinnum æðstu verðlaun sem íþróttamönnum í Kína eru veitt, varð hann þjálfari hjá kínverska landsliðinu, m.a. þjálfari kvennalandsliðsins. Síðar lá leið hans til Evrópu þar sem hann þjálfaði á Ítalíu og var landsliðþjálfari Kýpur. Hu flutti til Íslands árið 1989 þar sem hann þjálfaði hjá Stjörnunni og var hann þjálfari Víkinga og íslenska landsliðsins með hléum frá 1990 til 2008. Hu tók ástfóstri við Ísland, náttúruna og mannlífið og er stór hluti af íslenskri borðtennissögu frá 1989 til dagsins í dag.

Útför hans fer fram frá Fríkirkjunni í dag, 25. apríl 2017, kl. 15.

Borðtennishreyfingin á Íslandi kveður í dag ástsælan þjálfara, Hu Dao Ben.

Hu var á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar í kínverska karlalandsliðinu og varð hann tvisvar sinnum heimsmeistari með liði Kínverja í liðakeppni. Komst hann hæst í áttunda sæti á styrkleikalista Alþjóða borðtennissambandsins. Eftir að hann hætti sem atvinnumaður var hann í þjálfarateymi kínverska landsliðsins og þjálfaði um tíma kvennalandslið Kínverja. Hu kom fyrst til Íslands árið 1989, 45 ára að aldri en hann hafði áður einnig verið svæðisþjálfari í Peking og þjálfari á Ítalíu og Kýpur. Var hann frá 1989 til 1990 þjálfari hjá Stjörnunni í Garðabæ og þjálfari hjá Víkingum frá 1990. Hu var fyrst valinn landsliðsþjálfari Íslands árið 1990 og fór hann þá með liðinu á Smáþjóðaleikana í Lúxemborg og árið eftir fór hann með landsliðinu á heimsmeistaramótið í Japan. Frá þeim tíma hefur hann snert líf og borðtennisferil mikils fjölda íslenskra iðkenda á öllum aldri, bæði sem þjálfari hjá Víkingum og sem unglingalandsliðs- og landsliðsþjálfari. Var hann meðal annars þjálfari landsliðsins í fjölmörgum landskeppnum við Færeyinga og Evrópumótum, m.a. í undankeppni EM í Aþenu í Grikklandi 1991, Stuttgart í Þýskalandi 1991, Birmingham 1994 og í eftirminnilegum sigri íslenska landsliðsins undir 16 ára gegn unglingalandsliði Svía í mars 1994. Þá var hann þjálfari liðsins í riðlakeppni Evrópumótsins í Lúxemborg 1999 og Wales 2001 og á Evrópumótinu í Bremen í Þýskalandi árið 2000 og Ítalíu 2003. Bestum árangri í liðakeppni EM og HM hefur íslenskt landslið náð undir handleiðslu Hu Dao Ben. Braut hann ásamt leikmönnum íslenska landsliðsins blað á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg 1999 þegar íslenska karlaliðið endaði í 2. sæti leikanna. Einnig fór hann með liðinu á Smáþjóðaleikana í San Marinó árið 2001. Var hann þjálfari liðsins á Norður-Evrópumótinu í Litháen 2002. Einnig var hann þjálfari landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Manchester í Englandi 1997, Malasíu árið 2000, Japan árið 2001, Frakklandi 2003 og Kína 2008.

Hu var þjálfari Víkinga í fjölmörgum keppnum í liðakeppni bikarhafa, m.a. við lið Waldegg Linz frá Austurríki 1992, lið Hapoel Ramat-Gan frá Ísrael 1995 og lið Bordeaux frá Frakklandi 1999.

Auk ofangreinds var hann einnig leiðbeinandi í borðtennis t.d. í Suðurhlíðarskóla og fór með ungt lið Víkinga í eftirminnilega æfinga- og keppnisferð árið 1993 til Kína og með keppnislið Íslendinga á HM í Kína 2008 til heimabæjar síns

Hu hafði á farsælum ferli sínum verið sæmdur gullmerki BTÍ og heiðursmerki BTÍ árið 2016 auk þess sem Borðtennisdeild Víkinga hafði margsinnis heiðrað hann með viðurkenningum.

Borðtennisfólk á Íslandi vottar fjölskyldu og aðstandendum Hu samúð sína. Fallinn er frá mikilsmetinn maður og afburðaþjálfari sem setti mark sitt á íslenskan borðtennis og verður hans ávallt minnst með hlýhug.

Fyrir hönd Borðtennissambands Íslands,

Ingimar Ingimarsson,

formaður.

Borðtennishreyfingin hefur misst einn af sínum bestu sonum.

Ég kynntist Hu Dao Ben 1989 þegar hann var nýkominn til Íslands, en borðtennisdeild Stjörnunnar sem fékk hann til landsins leigði íbúð fyrir hann af foreldrum mínum. Ég vissi ekki þá að ég og hann ættum eftir að eiga mikið samstarf saman, en ég varð svo formaður Borðtennissambandsins og hann landsliðsþjálfari, við fórum margar ferðir saman á heimsmeistaramót og fleiri stórmót.

Það var gott að ferðast með Hu, hann var alltaf rólegur og yfirvegaður og einstaklega þolinmóður, en hann gat verið ákveðinn og passaði vel upp á sína leikmenn. Hann var mikill vinur vina sinna enda var það hans lífsmottó að vera góður við náungann. Hu, sem var mikil afreksmaður í íþróttinni, hafði tekið þátt í þremur heimsmeistaramótum fyrir Kína og fengið fyrir árangur sinn í hvert sinn æðstu viðurkenningu sem veitt er í Kína. Í ferðum okkar varð ég var við að hann hafði mikil samskipti við kínverska landsliðið, þjálfara og forráðamenn, bæði til að fylgjast með því sem var að gerast hjá þeim og einnig vegna þess að þetta voru miklir vinir hans og ég sá og fann að hann naut mikillar virðingar á meðal þeirra. Hann hafði ótrúleg sambönd og naut ég góðs af þeim þegar ég hætti sem formaður í fyrra sinn, því hann kom því til leiðar að mótshaldarar HM í Sanghai í Kína buðu fría gistingu og uppihald á því heimsmeistaramóti fyrir mig ásamt sambýliskonu, fyrir það er ég honum ævinlega þakklátur.

Það má segja að það hafi verið mikið gæfuspor bæði fyrir okkur Íslendinga og hann að fá hann til Íslands því honum líkaði hvergi betur að vera en hér á landi. Þó að fjölskylda hans væri í Kína og hann hættur að þjálfa, þá gat hann aldrei haldið sig lengi frá landinu, alltaf kom hann til baka. Síðustu ár átti hann við veikindi að stríða, það varð þó ekki til þess að stöðva hann frá því að ferðast milli landanna, en hann var á leið til landsins þegar hann varð bráðkvaddur.

Það var mitt síðasta verk sem formaður BTÍ að gera Hu Dao Ben að heiðursfélaga Borðtennissambandsins fyrir störf hans í þágu íþróttarinnar, en áður hafði honum verið veitt gullmerki sambandsins.

Ég kveð vin minn með söknuði og sendi Jinxiang Huang og dætrum hans Jing og Bo og börnum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurður Valur Sverrisson.