Hugarleikfimi Auðvelt er að spila orðaleiki á netinu.
Hugarleikfimi Auðvelt er að spila orðaleiki á netinu. — Morgunblaðið/Golli
Þar sem höfundur ljósvakans brá sér af bæ yfir páskana hefur hann lítið fylgst með ljósvakamiðlum. Í tvær heilar vikur var ekki kveikt á sjónvarpi, því jafnvel þótt það séu mörg hundruð sjónvarpsstöðvar í Ameríkunni er ekkert í sjónvarpinu!

Þar sem höfundur ljósvakans brá sér af bæ yfir páskana hefur hann lítið fylgst með ljósvakamiðlum. Í tvær heilar vikur var ekki kveikt á sjónvarpi, því jafnvel þótt það séu mörg hundruð sjónvarpsstöðvar í Ameríkunni er ekkert í sjónvarpinu! Eða alla vega var ekki staldrað við nógu lengi til að leita því auglýsingar fylla helminginn af sjónvarsptímanum í Trumplandi.

Og það er fátt leiðinlegra en sjónvarpsauglýsingar og því betra að sleppa því alfarið að kveikja. Enda margt skemmtilegra að gera í útlöndum en að glápa á sjónvarp og er tilvalið að nota tímann til að klára góða bók undir sæng á kvöldin. Nú eða eins og ég gerði, að spila orðaleik í símanum sem líkist Scrabble . Words with Friends heitir hann og er skemmst frá því að segja að undirrituð varð heltekin af þessum leik. Þetta er hin fínasta hugarleikfimi og kennir manni fullt af nýjum enskum orðum; reyndar orð sem verða líklega aldrei notuð, svo sjaldgæf eru þau. En að minnsta kosti eyddi ég ekki tíma og dýrmætum heilasellum, sem fer ört fækkandi, í að horfa á amerískar auglýsingar frá ofurfyrirtækjum sem framleiða bíla, lyf og sykruð matvæli.

Ásdís Ásgeirsdóttir

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir