Þeir sem horfðu á hina goðsagnakenndu spennuþáttaröð True Detective og eru um leið að leita sér að verklegum pallbíl hafa eflaust sperrt augu og eyru þegar út spurðist nýverið að pallbíllinn sem Matthew McConaughey ók í umræddum þáttum var nýverið settur á uppboð. Jú, þú last rétt – sá hinn sami.
„Þokkalegur útlits“ og beinskiptur
Bíllinn sem ekið var af Rust Cohle er myndarlegur Ford F250 í ryð-rauðbrúnum lit og það var handritshöfundur þáttanna, Nic Pizzolato, sem gaf bílinn til fjáröflunar gegnum uppboð. Það er góðgerðarsjóðurinn Just Keep Livin Foundation sem nýtur góðs af afrakstrinum sem varð væntanlega talsverður, ef marka má æðið sem gekk yfir Bandaríkin og heimsbyggðina alla í kjölfar sýningar True Detective.Nánar tiltekið er bíllinn 1997 árgerðin af Ford F250HD XL. Tiltekið er á uppboðssíðunni að hann sé í „þokkalegu ásigkomulagi“ og ekinn 153.345 mílur eða um 246.785 kílómetra. Gírkassinn er beinskiptur og þótt sjálfskipting færi eflaust betur á trukk sem þessum þá bætir sagan á bak við bílinn það eflaust upp – og rúmlega það.
jonagnar@mbl.is