Hörður Zóphaníasson fæddist á Akureyri 25.4. 1931. Foreldrar hans voru Sigrún J. Trjámannsdóttir húsfreyja og Zóphanías Benediktsson skósmiður. Stjúpfaðir Harðar var Tryggvi Stefánsson, skósmiður á Akureyri og síðar bóndi á Þrastarhóli.
Eftirlifandi eiginkona Harðar er Ásthildur Ólafsdóttir, fyrrv. skólaritari og eru börn þeirra Ólafur Þórður, prófessor við HÍ; Sigrún Ágústa kennari; Tryggvi Harðarson sveitarstjóri; Ragnhildur Gísla, fyrrv. kaupmaður; Elín Soffía kennari; Kristín Bessa húsmóðir, og Guðrún, bóndi á Hvassafelli.
Hörður lauk kennaraprófi frá KÍ 1954 og stundaði nám við Danmarks Lærerhøjskole í Kaupmannahöfn. Hann var kennari á Hjalteyri 1954-58, skólastjóri Barna- og unglingaskólans í Ólafsvík 1958-60, kennari við Flensborg 1960-70, yfirkennari 1963-70 og skólastjóri Víðistaðaskóla frá stofnun 1970 til 1992. Auk þess annaðist hann bindindisfræðslu í skólum á vegum Áfengisvarnaráðs.
Hörður var bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði 1966-74 og 1978-86, sat m.a. í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðuflokksins, sat í stjórn UMSE, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, var formaður öldrunarmiðstöðvarinnar Hafnar, Kaupfélags Hafnfirðinga , KRON, yfirkjörstjórnar BSRB, Sjúkrasamlags Hafnarfjarðar, Barnaverndarfélags Hafnarfjarðar og Félags kennara á eftirlaunum.
Hörður var í Skátafélagi Akureyrar, stjórnaði skátafélögum í KÍ, á Hjalteyri og í Ólafsvík, var félagsforingi Hraunbúa, um árabil, lengi í forystu St. Georgsgilda á Íslandi og heiðursfélagi Hraunbúa og St. Georgsgildisins í Hafnarfirði.
Eftir Hörð liggja tvær ljóðabækurnar Vísnagaman og vinamál og Hugsað í hendingum, námsefni fyrir grunnskóla, sagnfræðirit og söngtextar, auk þess sem hann sat í ritstjórn ýmissa blaða og tímarita og samdi og þýddi fjölmargar greinar.
Hörður lést 13.5. 2015.