Framhaldsskólar Fé skortir til tækjakaupa og almenns rekstrar.
Framhaldsskólar Fé skortir til tækjakaupa og almenns rekstrar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Hjá okkur þar sem námið hefur verið stytt úr fjórum árum í þrjú er hver nemandi aðeins dýrari en í gamla kerfinu,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans og fyrrverandi formaður Skólameistarafélagsins.

„Hjá okkur þar sem námið hefur verið stytt úr fjórum árum í þrjú er hver nemandi aðeins dýrari en í gamla kerfinu,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans og fyrrverandi formaður Skólameistarafélagsins. Hann segir að það vanti upp á það að í fjárveitingum sé tekið tillit til þessa eins og fyrirheit hafi verið gefin um. Talað hafi verið um að stytting framhaldsnámsins ætti að koma skólunum til góða fjárhagslega.

Óánægja er meðal stjórnenda framhaldskólanna með naumt skammtaðar fjárveitingar sem valda því að rekstur margra skóla er í járnum um þessar mundir og stöðugt verið að grípa til nýrra aðhaldsaðgerða. Fram kom í fréttum RÚV um helgina að í Flensborgarskóla í Hafnarfirði hefði öllu starfsfólki við ræstingar verið sagt upp.Verða þrif í skólanum boðin út. Einnig kom fram að stjórnunarstöðum hefur verið fækkað, vinnuhlutfalli breytt og yfirvinnubann verið sett á starfsmenn skólans. Nokkrir skólar sem farið hafa fram úr fjárheimildum hafa fengið skuldir niðurfelldir.

Að sögn Hjalta Jóns er unnið að endurskoðun reiknilíkans sem fjárveitingar til framhaldsskóla byggjast á. Vonast hann til að það skili einhverjum úrbótum. Hann segir að fjárþörf skólanna sé mismunandi á hvern nemanda, meiri í verknámi en í bóknámi, og svo hafi alls kyns þættir í kennarasamningum áhrif, svo sem minni kennsluskylda þegar náð er 50 og 60 ára aldri. Þannig atriði geti munað nokkrum stöðugildum í hverjum skóla.

Hjalti Jón segir að hlutfall launa í rekstri framhaldsskóla hafi hækkað. Það hafi lengi vel verið um 80% af heildarfjárveitingunni, en sé nú orðið hátt í 90%.

„Afgangur skólanna til almenns rekstrar, svo sem tækjakaupa og reksturs húsnæðis sem eru mikilvægir þættir, er af þessum sökum orðinn lítill,“ segir hann. „Þessir rekstrarliðir hafa verið í miklu svelti.“ gudmundur@mbl.is