Guðrún Gunnarsdóttir fæddist 15. janúar 1935 í Keflavík. Hún lést á Hrafnistu, Nesvöllum, 8. apríl 2017.

Foreldrar hennar voru María Lilja Jónsdóttir húsfreyja, fædd á Fossi í Staðarsveit á Snæfellsnesi 18. júní 1916, dáin 16. ágúst 1989 og Gunnar Sigurðsson, sjómaður, fæddur í Keflavík 8. september 1901, dáinn 1. mars 1968.

Systkini hennar voru Guðný Gunnarsdóttir, f. 29. júlí 1933, d. 22. júní 2015, Sigurður Gunnarsson, f. 25. nóvember 1941, d. 25. september 2015 og Ingibjörg Gunnarsdóttir, f. 20. mars 1953, gift Frímanni Guðmundssyni.

Guðrún giftist 22. desember 1963 Hilmari Harðarssyni, f. 15. apríl 1938. Foreldrar hans voru Ingunn Valgerður Hjartardóttir, f. 30. september 1909, d. 15. september 1980 og Hörður Runólfsson, f. 7. apríl 1911, d. 5. febrúar 2005.

Börn Guðrúnar og Hilmars eru a) Ingunn María, f. 1. ágúst 1961, gift Ágústi Gunnarssyni, f. 10. júlí 1956, börn þeirra eru Sindri Már, f. 3. mars 1994 og Silja Mist, f. 22. mars 2003, fyrir átti Ágúst soninn Guðmund Magna, f. 3. september 1975. b) Þórey Ása , f. 2 janúar 1964, gift Jóhannesi K. Jóhannessyni, f. 26 ágúst 1961, börn þeirra, Jóhannes Hilmar, f. 7. apríl 1982, d. 7. júlí 2016, sambýliskona, Jóna Rut Gísladóttir, f. 8. febrúar 1982, börn þerra, Sólveig Amelía, f. 3. janúar 2005, Jóhannes Kristinn, f. 26. júlí 2007, Ólafur Gísli, f. 24. maí 2011. Guðrún Inga, f. 27. ágúst 1987, sambýlismaður Arnoddur Þór Jónsson, f. 10. júní 1983, börn þeirra Elísabet, f. 12. febrúar 2009, Emelía Þórey, f. 5. júní 2014. Katrín Ósk, f. 4. janúar 1992. c) Gunnhildur, f. 20. október 1968, gift Ahmed Kallel, f. 14. október 1959, barn þeirra Jasmín Ósk, f. 11. september 2011. d) Guðmundur Pétur, f. 11. febrúar 1972, sonur hans Gabríel Bergmann, f. 17 febrúar 2001, (barnsmóðir Helena Guðlaugsdóttir, f. 18. nóvember 1978).

Guðrún, sem er fædd og uppalin í Keflavík, lauk skyldunámi sínu þar og hóf síðan sinn fyrsta búskap á Sandabraut á Akranesi. Eftir sjö ára búskap á Akranesi varð flutningur aftur á heimaslóðir í Keflavík og börnin voru orðin fjögur. Guðrún vann lengst í HF og þótti vænt um það alveg þar til því frystihúsi var lokað. Þar tók við húsfreyjan með fullt hús af börnum og fjöri.

Útför Guðrúnar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 25. apríl 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku amma Gunna, við kveðjum þig með söknuð í hjarta en vitum að nú ert þú í góðum höndum.

Blessuð sé minning þín, við elskum þig.

Sindri og Silja Mist.

Hún steig út úr bílnum í gulum, þröngum kjól. Háir skóhælar stungust í moldarjarðveginn á hlaðinu. Rósótt slæða lauslega bundin undir höku virtist ætla að fjúka af dökkum lokkunum en hlæjandi greip hún um höfuðið og tiplaði frjálsleg yfir á fastari jarðveg. Fegurðardís úr Keflavík var ævintýrasjón fyrir fimmtán ára stelpu uppi í Borgarfirði á of stuttum rokkbuxum í trosnaðri peysu með fjósaskóflu í annarri hendi, reyna að stilla gjammandi hundinn með hinni.

Guðrún mágkona mín kom úr annarri veröld inn í mína.

Ég hafði beðið talsverðan tíma eftir að sjá hana – hafði bara séð mynd á hillu í herbergi Hilmars, bróður míns – fannst hún fallegust af öllum stelpunum á hillunni. Þarna stóð hún og heilsaði mér létt, eins og við hefðum þekkst lengi. Um jólin gaf hún mér bók, fyrstu fullorðinsbókina – ástarsögu – gleymi ekki hugsandi augnaráði mömmu þegar hún leit bókina. Ég fann hins vegar til upphefðar í viðurkenningunni – nú stæði ég á þröskuldi fullorðinsára.

Tveimur árum seinna bjó ég um tíma á fallegu heimili þeirra Hilmars á Akranesi. Hann á sjó næstum út í eitt en við löngum stundum tvær heima og svo seinna með Ingu Maju litlu, fyrstu yndisfrænkuna sem þau færðu mér.

Ekki eitt einasta augnablik reyndi hún að siða mig eða sveigja, aldrei reiðiorð. Leyfði mér þvert á móti að njóta tímans, máta fallegu ævintýrakjólana og skóna, ekkert mál að lána mér dýrindis kuldaskó og hlífðarflík svo mér yrði ekki kalt á útstáelsinu og geti mætt Kínverjum strákanna á gamlárskvöld án þess að æpa af skelfingu. Á móti leit ég eftir litlu frænku minni og leiðbeindi Gunnu um það litla sem ég kunni í saumaskap. Báðar ungar með fjör í æðum æfðum við tjútt á stofugólfinu við Cliff Richard eða Presley úr grammófóni stóra bróður.

Árin eru undrafljót að líða, þau fluttu og ég flutti. Um tíma var eins langt á milli heimila og landið leyfði. Þrjú yndisleg frændsystkini fæddust í viðbót, heilbrigð, hraust og lífsglöð. Þvílíkt barnalán. Sjómennska Hilmars þýddi langvarandi fjarveru frá fjölskyldu og þar kom að hann ákvað að fara í land til að gefa fjölskyldunni meiri tíma. Lífið var vinna og barnauppeldi. Á heimili þeirra aldrei lognmolla, stöðugt líf og fjör og ávallt sama glaðlega umburðarlyndið hjá mágkonu minni gagnvart lífskrafti og uppátektum þeirra ungu.

Líkaminn er hins vegar ólíkindatól og mágkona mín varð snemma fórnarlamb verulegrar heyrnarskerðingar, kvilla sem setti mark sitt á líf hennar og möguleika og ágerðist með árunum.

Þekktur fylginautur verulegrar heyrnarskerðingar er m.a. félagsleg hömlun og óöryggi. Hörð örlög fyrir félagslyndu og lífsglöðu mágkonu mína. Versnandi heilsan tók stjórnina. Síðustu áratugir í lífi hennar mörkuðust af veikindum sem hömluðu samskiptum sem áður höfðu verið hennar líf og yndi.

Ég minnist með hlýju glaðlyndu hjálpsömu og velviljuðu mágkonu minnar sem studdi mig og opnaði heimili sitt án skilyrða. Þannig stuðningur er ekki öllum gefinn.

Við Logi sendum hjartkærum bróður mínum og fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Ólöf Þorvaldsdóttir.

Staddur á erlendri grund fékk ég stutt skilaboð frá stóru systur: „Sæll bróðir, ég vildi bara segja þér að hún Gunna mágkona er dáin“, svo mörg voru þau orð. Þó svo að hún hafi átt við veikindi að stríða um langa hríð komu tíðindin á óvart.

Við kveðjustund hvarflar hugurinn til liðinna samverustunda. Mér er í fersku minni er ég sá Guðrúnu mágkonu mína í fyrsta sinn.

Það var á fermingardegi Lóu systur. Fjölskylda mín hafði flutt ári áður upp í Borgarfjörð að Narfastöðum í Melasveit, fæðingarstað föður okkar. Fermingarveislan var haldin á gamla heimili okkar við Bjarkargrund á Akranesi þar sem Hilmar bjó. Náin frænka okkar, bjó þá um stuttan tíma í sama húsi og móðursystir Gunnu. Ég var eitthvað að sniglast hjá frænku þegar ég mætti óvenjuglæsilegri, skartbúinni stúlku – aðkomustúlku – á leið í þá veislu. Ég varð hálfhvumsa við, stúlkan minnti óneitanlega á filmstjörnurnar sem ég hafði séð myndir af í Bravóblöðum stóru systur.

Ári seinna hitti ég þessa glæsilegu stúlku aftur þegar bróðir kom með hana í fyrsta sinn í sveitina og kynnti fyrir fjölskyldunni. Jafn glæsileg þótti mér hún þá og var talsvert stoltur af stóra bróður.

Um tíma bjó ég hjá þeim Hilmari og Gunnu á Sandabrautinni, þá í fyrsta bekk í Gagnfræðaskólanum á Akranesi. Það er ekki alltaf auðvelt fyrir ungling að dvelja á heimili annarra en dvöl mín á heimili Gunnu var góður tími. Litla frænka mín, Inga Maja, var nokkurra mánaða og mér stundum trúað fyrir því að að passa hana ef Gunna brá sér frá. Það þótti mér virðingarverk – hafði aldrei passað smábarn. Hjá Gunnu lærði ég líka að elda minn fyrsta rétt (og lengi vel þann eina) en það var að steikja egg í brauði og bræða ost ofan á.

Einn hlut átti Gunna sem ég öfundaði hana mikið af en það var ferðaplötuspilari, sjálfvirkur og gat tekið í einu 12 stk. 45 rpm hljómplötur. Gunna var ekki sínk og ég fékk að nota spilarann óspart, man að fyrstu plötukaup mín voru Presley og Bill Hailey sem hljómuðu oft á fóninum. Gleymi seint kvöldi einu er ég var að búa mig til árshátíðar Gagnfræðaskólans – þangað sem allir auðvitað ætluðu. Svo vildi til að Gunna átti líka erindi út þetta kvöld og vantaði pössun fyrir litlu frænku en gekk illa að leysa það mál, Lóa systir var harðákveðin í að fara á árshátíðina og allrar hugsanlegar barnfóstrur voru líka uppteknar.

Eitt gott tromp átti Gunna samt í stöðunni – hrifning mín á spilaranum hafði ekki farið leynt – hún bauð mér hann til eignar ef ég myndi sleppa árshátíðinni og vera heima með frænku í staðinn. Þetta var kostur sem auralaus skólastrákur með tónlistaráhuga gat ekki hafnað. Á plöturnar var hlustað með nýrri tilfinningu það kvöld – vegna rausnar Gunnu hafði ég eignast grip sem ég naut vel og lengi.

Liðnir tímar geyma margar minningar en ég læt hér staðar numið í upprifjun. Minningin um góða mágkonu sem ávallt tók litla bróður Hilmars opnum örmum lifir með mér.

Við Gunnhildur sendum Hilmari bróður og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Steini Þorvaldsson.