Takk fyrir Dagur Kár Jónsson og félagar í Grindavíkurliðinu þakka stuðningsmönnum fyrir eftir sigurinn í DHL-höll KR-inga í gærkvöld.
Takk fyrir Dagur Kár Jónsson og félagar í Grindavíkurliðinu þakka stuðningsmönnum fyrir eftir sigurinn í DHL-höll KR-inga í gærkvöld. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Kristján Jónsson kris@mbl.is Þegar svo gott sem allir höfðu afskrifað Grindvíkinga þá mættu þeir í Frostaskjólið í gær og lögðu Íslands- og bikarmeistara KR 91:86 í troðfullri DHL-höllinni.

Í Vesturbænum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Þegar svo gott sem allir höfðu afskrifað Grindvíkinga þá mættu þeir í Frostaskjólið í gær og lögðu Íslands- og bikarmeistara KR 91:86 í troðfullri DHL-höllinni. Að gera slíkt er ekki fyrir hvern sem er og Grindvíkingar sýndu að þeir eru ekki í úrslitarimmunni að ástæðulausu. KR hefði orðið meistari með sigri en vinna þarf þrjá leiki í rimmunni. Staðan er nú 2:1 og mætast liðin aftur í Grindavík á fimmtudag.

Allt virtist tilbúið fyrir verðlaunaafhendingu í Vesturbænum í gærkvöldi. Meistararnir höfðu unnið fjóra leiki í röð í úrslitakeppninni, stuðningsmenn þeirra voru sigurvissir og formaður KKÍ var mættur ásamt fylgdarliði. Bikarinn beið við hliðarlínuna en reyndist einungis sýningargripur þetta kvöldið. Enn sem komið er mega leikmenn bara horfa en ekki snerta.

Nærvera Íslandsbikarsins getur haft margvísleg áhrif á þá leikmenn sem eru inni á vellinum. Grindvíkingar voru greinilega reiðubúnir til að leggja mikið á sig til að koma í veg fyrir veisluhöldin. Þeir hafa heldur ekki getað hugsað sér að fara í sumarfrí án vinnings í úrslitarimmu. Slíkt er ekki gott á ferilskrána. En hrósa verður Grindvíkingum fyrir að koma sér í rétt hugarástand eftir sárt tap í síðasta leik. Ekki er sjálfgefið að rífa sig upp eftir slíkt mótlæti. „Mér leið nú á vissan hátt eins og barni kvöldið fyrir jól. Ég átti erfitt með að sofna í gærkvöldi (á sunnudag) og vaknaði klukkan 7:30 í morgun. Ég vissi að andrúmsloftið yrði eins og raunin var, vissi að hér yrði fjöldi áhorfenda og bikarinn til sýnis. Við settum strik í skrúðgönguna. Við þurfum að taka einn leik í einu en ætlum okkur að ná rimmunni í oddaleik. Ef við getum það þá geri ég mér góðar vonir um sigur,“ sagði Bandaríkjamaðurinn, Lewis Clinch, í samtali við Morgunblaðið þegar niðurstaðan lá fyrir í gærkvöldi.

Vörnin opnari en vant er

Helsti styrkur meistaranna er öflug vörn en hún var ekki eins sterk að þessu sinni og oft áður. Grindavík skoraði til að mynda 51 stig í fyrri hálfleik og það gerist ekki á hverjum degi hjá liðinu sem KR teflir fram í vetur. Grindavík hafði yfir 24:18 að loknum fyrsta leikhluta og 51:47 að loknum fyrri hálfleik. Þau voru ekki mörg skiptin í leiknum þar sem KR var yfir.

Mestu skipti fyrir Grindvíkinga að þeirra lykilmenn náðu allir ágætum takti strax í fyrsta leikhluta. Auk þess komu þeir sér ekki í villuvandræði fyrri hluta leiksins. Að loknum fyrri hálfleik var því útlit fyrir að Grindavík gæti unnið jafnvel þótt KR væri á heimavelli og Íslandsmeistaratitillinn í boði.

Í þriðja leikhluta tókst Grindvíkingum að slíta sig frá KR-ingum og náðu þá mest nítján stiga forskoti. Þá virtist sem svipuð stemning gripi um sig og gerði þegar Grindvíkingar pökkuðu Garðbæingum saman í undanúrslitunum. KR-ingar voru óskynsamir í sínum sóknum í þeim leikhluta og reyndu fullmargar hetjukörfur fyrir minn smekk. Minna fór fyrir samleik til að opna vörn Grindavíkur og þá virtist vanta stjórnun inni á vellinum.

Ólafur smitar út frá sér

KR-ingum tókst þó að saxa á forskotið og hleypa spennu í leikinn fyrir lokamínúturnar en mest minnkuðu þeir muninn í fimm stig. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti þá flotta rispu og Jón Arnór Stefánsson var alltaf líklegur til að skora enda gerði hann 26 stig. KR lagaði hjá sér vörnina til muna og erfiðara varð fyrir Grindavík að skora. En KR tókst þó aldrei að stíga skrefið til fulls. Grindvíkingar gáfu ekkert eftir í baráttunni um fráköstin og vörðu forskot sitt.

Ólafur Ólafsson var mjög drjúgur bæði í vörn og sókn. Setti niður erfið skot og tók 9 fráköst en alls gerði Ólafur 25 stig. Ómar Örn Sævarsson var einnig duglegur í fráköstum og tók 12 slík. Lewis Clinch þorði að taka af skarið í seinni hálfleik og skilaði sínu með 21 stig og 11 stoðsendingar. Hann var ískaldur fyrir utan þriggja stiga línuna en reyndi þar sjö sinnum fyrir sér án árangurs. Þar eiga Grindvíkingar talsvert inni. Dagur Kár Jónsson sýndi flott tilþrif og hann er greinilega maður sem á ekki erfitt með að spila mikilvæga leiki.

Margir í liði meistaranna geta gert mun betur. Darri Hilmarsson, Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij voru slakir í sókninni. Fóru illa með færin sín og munar um minna.