[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Eyþóra Þórsdóttir vann til tvennra verðlauna á Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem lauk í Cluj í Rúmeníu á sunnudag. Eyþóra keppti til úrslita á tveimur áhöldum og vann til verðlauna á þeim báðum.

* Eyþóra Þórsdóttir vann til tvennra verðlauna á Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem lauk í Cluj í Rúmeníu á sunnudag. Eyþóra keppti til úrslita á tveimur áhöldum og vann til verðlauna á þeim báðum. Hún fékk silfur á jafnvægisslá þar sem hún fékk 14,066 stig og bronsverðlaun fyrir gólfæfingar þar sem hún náði 13,700 stigum. Þetta eru fyrstu verðlaun Eyþóru á stórmóti en hún náði einnig frábærum árangri á Ólympíuleikunum í ágúst í fyrra þar sem hún varð í 9. sæti í fjölþraut. Eyþóra varð í 12. sæti í fjölþrautinni á EM þar sem hún fékk 51,965 stig.

* Aron Pálmarsson , leikmaður ungverska meistaraliðsins Veszprém, er í liði umferðarinnar sem leikstjórnandi eftir fyrri leikina í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik sem fram fóru um nýliðna helgi. Aron átti mjög góðan leik í sigri Veszprém gegn franska liðinu Montpellier, 26:23, þar sem hann skoraði 6 mörk.

* Jón S. Ólafsson vann til bronsverðlauna í stangarstökki í flokki karla 60–64 ára á heimsmeistaramóti öldunga innanhúss, sem haldið var í Daegu í Suður-Kóreu á dögunum. Jón stökk yfir 3,00 metra. Þetta er í annað sinn á innan við ári sem Jón vinnur til verðlauna á heimsmeistaramóti því á heimsmeistaramóti öldunga utanhúss sem haldið var í Perth í Ástralíu sl. sumar vann hann einnig til bronsverðlauna, með stökki yfir 3,20 metra.

* Zlatan Ibrahimovic , framherji Manchester United, er farinn til Bandaríkjanna þar sem hann gengst undir aðgerð á hné á morgun en sænski knattspyrnumaðurinn varð fyrir því óláni að slíta krossband í Evrópuleiknum gegn Anderlecht í síðustu viku. Ljóst er að Zlatan, sem er 35 ára gamall, spilar ekki meira á þessu ári en sjálfur segist hann stefna ótrauður á að koma sterkur til baka.

* Gylfi Þór Sigurðsson , leikmaður Swansea, var valinn í lið helgarinnar hjá enska blaðinu the Telegraph í gær eftir frammistöðu sína gegn Stoke þar sem Swansea vann 2:0 sigur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Gylfi Þór fór eins og svo oft áður fyrir sínum mönnum og lagði hann m.a. upp sitt 12. mark í deildinni. Þar er hann jafn Christian Eriksen hjá Tottenham, en Kevin de Bruyne hjá Manchester City í er í toppsætinu með 13 stoðsendingar.

*Úrvalsdeildarlið Tindastóls í körfuknattleik er byrjað að safna liði fyrir næstu leiktíð en félagið hefur samið við bakvörðinn Sigtrygg Arnar Björnsson um að leika með liðinu á næstu leiktíð. Sigtryggur Arnar kemur til Stólanna frá Skallagrími sem féll úr Dominos-deildinni í ár. Sigtryggur er 24 ára gamall, skoraði að meðaltali 18 stig með Borgarnesliðinu á tímabilinu og var einn besti leikmaður liðsins. Sigtryggur er ekki ókunnugur Tindastóls-liðinu en hann lék með því árið 2013.