Fíkniefni Kannabisvökvinn er seldur í plasthylkjum og reyktur með rafsígarettu.
Fíkniefni Kannabisvökvinn er seldur í plasthylkjum og reyktur með rafsígarettu.
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Kannabisvökvi sem settur er í rafrettur og reyktur þannig er kominn í sölu hér á landi. Vökvinn gefur sömu vímuáhrif og ef kannabis er reykt á annan hátt.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Kannabisvökvi sem settur er í rafrettur og reyktur þannig er kominn í sölu hér á landi. Vökvinn gefur sömu vímuáhrif og ef kannabis er reykt á annan hátt.

Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, vakti athygli á vökvanum á Facebook-síðu sinni um helgina, en Sigvaldi Arnar segir að þar hafi hann verið að skrifa sem foreldri frekar en lögreglumaður, til að vekja aðra foreldra til umhugsunar. „Það er langt síðan ég heyrði fyrst af þessum kannabisvökva. Lögreglunni hafa borist ábendingar um að hann sé kominn á allar sölusíður á netinu og hann virðist vera kominn í dreifingu út um allt land núna.“

Vökvinn er seldur í plasthylkjum og líklega unninn hér á landi. „Vökvinn er líklega búinn til til þess að einfalda neysluna og koma efninu í yngri markhópa. Þetta form af fíkniefninu einfaldar neysluna og því kemur mér ekki á óvart að þetta breiðist hratt út. Sölumaðurinn segir alltaf að kannabisið sé saklaust og auðvelt að neyta þess á rafrettuformi,“ segir Sigvaldi Arnar.

Blandað í jarðarberjavökva

Kannabisvökvinn er notaður eins og annar rafrettuvökvi. Sigvaldi Arnar segist hafa heyrt af því að krakkar blandi honum í aðra rafrettuvökva sem eru með lykt og bragði, eins og jarðaberjavökva, til þess að minnka kannabislyktina sem kemur við reykingarnar.

Að sögn Sigvalda Arnars sér hann daglega krakka niður í 13 til 15 ára með rafrettur, á skólalóðum og víðar. „Þetta eru ekki margir krakkar en maður sér þetta og verður þetta ekki svipað og með annað, t.d. vespurnar? Þegar nokkrir eru búnir að fá sér vespu þá eru allir komnir á vespu. Þetta er allavegana áhyggjuefni, það er klárt.“

Hann segir marga foreldra hafa haft samband við sig eftir að Facebook-færslan fór á flug og allir hafi þeir komið af fjöllum og viljað vita meira um kannabisvökvann.

Kannabis flæðir út um allt

Sigvaldi Arnar segir að tilgangur færslunnar hafi verið að vekja foreldra og skóla til vitundar um þetta.

„Ég skrifaði þetta ekki í nafni lögreglu, heldur sem foreldri en ég hef verið í löggunni í 17 ár og er búinn að vera mikið í fíkniefnamálum og kannabis flæðir út um allt. Það kæmi mér ekki á óvart að þessi kannabisvökvi muni auka kannabisneysluna hér á landi,“ segir Sigvaldi Arnar.

Hann segist ekki geta svarað því hvort vökvinn sé sterkari eða veikari en þurrkað kannabis en það eigi ekki að vera erfiðara fyrir lögregluna að hafa uppi á vökvanum en kannabisi í öðru formi.