[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórhallur Arason fæddist á Húsavík 25.4. 1947 en flutti til Patreksfjarðar árið 1956 þegar faðir hans tók við embætti sýslumanns í Barðastrandarsýslu. Þórhallur tók landspróf á Núpi í Dýrafirði og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1967.

Þórhallur Arason fæddist á Húsavík 25.4. 1947 en flutti til Patreksfjarðar árið 1956 þegar faðir hans tók við embætti sýslumanns í Barðastrandarsýslu.

Þórhallur tók landspróf á Núpi í Dýrafirði og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1967. Við tók nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands þar sem Þórhallur útskrifaðist 1972.

Með háskólanámi sínu vann Þórhallur við mælingar hjá Vegagerðinni og að loknu námi við Háskóla Íslands varð hann forstöðumaður hagdeildar stofnunarinnar.

Árið 1987 tók Þórhallur við starfi skrifstofustjóra fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem hann lauk starfsferli sínum eftir 30 ára starf.

Á þessum árum hefur Þórhallur einnig verið tilnefndur til þátttöku í mörgum nefndum sem og gegnt störfum sem stjórnarmaður í fyrirtækjum á vegum ríkisins. Áhugamál Þórhalls tengjast fyrst og fremst útiveru og hreyfingu. Hann spilaði tennis um allmörg ár og sat einnig í stjórn Tennissambands Íslands. Þá hafa þau hjónin verið í gönguklúbbnum „Óbyggðirnar Kalla“ frá árinu 1995 og gengið vítt og breitt um Ísland í ákaflega skemmtilegum félagsskap.

Árið 2002 fóru þau hjónin, ásamt bróður Þórhalls og mágkonu, Atla Arasyni og Guðnýju Eiríksdóttur, í hjólaferð um vínhéruð Frakklands og varð ekki aftur snúið. Þau hafa síðan farið árlega í slíkar hjólaferðir til Frakklands, Spánar og Ítalíu.

Fjölskylda Þórhalls er honum mjög kær og finnst þeim hjónum fátt skemmtilegra en að ferðast innanlands sem utan með börnum og tengdabörnum. Þeir eru nú fáir, staðirnir á landinu sem fjölskyldan hefur ekki heimsótt.

Fjölskylda

Eiginkona Þórhalls er Rannveig Tómasdóttir, f. 17.7. 1950, fyrrv. flugfreyja hjá Icelandair. Foreldrar: hennar voru Tómas Gústav Magnússon, f. 23.11. 1911, d. 17.1. 1968, forstjóri í Reykjavík, og k.h., Sigríður Sigurðardóttir, f. 16.5. 1920, d. 14.10. 1987, húsfreyja í Reykjavík.

Börn Þórhalls og Rannveigar eru 1) Halla Björg Þórhallsdóttir, f. 26.6. 1975, viðskiptafræðingur hjá Deloitte, í sambúð með Guðmundi Kristinssyni, tölvunarfræðingi hjá RB; 2) Þorbjörg Þórhallsdóttir, f. 18.4. 1981, tölvunarfræðingur hjá Advania, gift Gísla Þór Guðmundssyni, tölvunarfræðingi hjá Gangverki, og 3) Tómas Magnús Þórhallsson, f. 1.5. 1985, lögmaður hjá BBA legal, í sambúð með Unni Lilju Hermannsdóttur, lögmanni hjá Landslögum lögmannsstofu.

Systkini Þórhalls: Jón Kristinn Arason, f. 12.3. 1946, prófessor emeritus í stærðfræði við HÍ, búsettur í Hafnarfirði, kvæntur Sigrúnu Kristinsdóttur viðskiptafræðingi; Sveinn Arason, f. 20.4. 1948, Ríkisendurskoðandi, búsettur í Garðabæ, kæntur Jónu Möller, fyrrv. aðstoðarskólastjóra; Arnþór Óli Arason, f. 5.5. 1950, jarðfræðingur í Reykjavík; Atli Arason, f. 7.6. 1952, viðskiptafræðingur hjá Tollstjóra, búsettur í Reykjavík, kvæntur Guðnýju Eiríksdóttur lífefnafræðingi; Anna Björg Aradóttir, f. 4.1. 1955, sviðsstjóri hjá embætti landlæknis, búsett í Reykjavík en maður hennar er Þorleifur Magnússon húsasmíðameistari; Halldór Arason, f. 15.10. 1957, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte, búsettur í Garðabæ, kvæntur Helgu Ólafsdóttur kennara, og Nanna Huld Aradóttir, f. 21.6. 1962, innri endurskoðandi Seðlabankans, búsett í Reykjavík en maður hennar er Pétur Ingólfsson byggingaverkfræðingur.

Foreldrar Þórhalls voru Ari Kristinsson, f. 6.11. 1921, d. 5.2. 1964, fulltrúi sýslumanns á Húsavík 1947-56, og sýslumaður Barðstrendinga á Patreksfirði frá 1956 og til dánardags, og k.h., Þorbjörg Þórhallsdóttir, f. 2.6. 1919, d. 15.5. 1992, húsfreyja, síðast í Reykjavík.