Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Við hyggjumst bjóða upp á mjög skemmtilega efnisskrá sem samsett er af þekktum djassstandördum og popplögum í nýjum búningi,“ segir María Magnúsdóttir sem ásamt píanóleikaranum Hirti Ingva Jóhannssyni kemur fram á tónleikum í tónleikaröðinni Freyjujazz í Listasafni Íslands í dag kl. 12:15. „Salurinn er æðislegur, þannig að ég held að þetta verði dásamleg stund.“
Spurð um samstarf þeirra Hjartar Ingva segir María að þau hafi lengi vitað hvort af öðru, en séu aðeins nýbyrjuð að vinna saman. „Við höfum lengi fylgst að í tónlistarnámi, en erum bara nýbyrjuð að koma fram saman. Við vorum bæði í námi við Tónlistarskóla FÍH og héldum bæði út til Hollands í nám, hann í Amsterdam og ég í Haag,“ segir María. Hún lauk gráðu í rytmískum söng og af kennaradeild Tónlistarskóla FÍH 2008; Bachelor-prófi með láði frá Konunglega listaháskólanum í Haag 2015 þar sem hún hlaut útskriftarverðlaunin Fock Medaille, en í skólanum lærði hún djasssöng, klassískar tónsmíðar og sönglagasmíðar og gráðunni Master of Popular Music með láði frá Goldsmiths University of London í september 2016, en þar lagði hún sérstaka stund á nám í tónsmíðum fyrir miðla, upptökutækni og hljóðvinnslu. Hjörtur Ingvi útskrifaðist með burtfararpróf í klassískum píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH 2010 og B.M.-gráðu í djasspíanóleik frá Konservatoríinu í Amsterdam.
„Við erum bæði nýlega flutt heim til Íslands aftur og fengum bæði vinnu við Tónlistarskóla FÍH þar sem hann spilar m.a. undir hjá mínum söngnemendum. Fljótlega fórum við að vinna saman og komum fyrst fram opinberlega saman fyrir um mánuði. Hann er fáránlega fær píanóleikari og æðislegt að vinna með honum. Þegar kemur að tónlistinni hugsum við mjög svipað, enda erum við bæði mikið að vinna með popptónlist og mætumst í djassinum þar sem menntun okkar liggur,“ segir María og bendir á að Hjörtur Ingvi er hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Hjaltalín. Sjálf hefur María komið víða við í tónlist, en hún semur, útsetur og framleiðir „electro-acoustic folk pop“ tónlist undir listamannsheitinu MIMRA og sendi nýverið frá sér myndband við lagið „Play With Fire“.
Stekkur milli stíla
„Ég var lengi að skilgreina mig sem söngkonu þangað til ég áttaði mig á því að ég þyrfti að skipta mér í tvennt. Annars vegar er ég María Magnúsdóttir djasssöngkona og hins vegar er ég MIMRA þegar ég flyt mína eigin electro pop-músík,“ segir María og tekur fram að söngtæknilega sé ekkert mál að stökkva á milli stíla. „Ég bý að miklu með djassnámið. Þegar maður er búinn að ná góðu valdi á röddinni og veit hvernig maður vill beita henni hverju sinni, þá er ekkert flókið að skipta milli söngstíla, enda er þetta hvort tveggja rytmísk tónlist. Þetta snýst allt um að finna taktinn í líkamanum því þá kemur það út sem þarf að koma út.“Þó aðeins sé hálft ár síðan María flutti heim hefur hún haft nóg að gera. „Ég tímasetti flutninginn þannig að ég næði heim fyrir Iceland Airwaves þar sem ég kom fram á slatta af „off venue“ tónleikum. Ég var ekki með neina tónleika í desember þegar allir tónlistarmenn eru að troða upp og óskaði þess þá heitt að fá tækifæri til að koma oftar fram. Það var fljótt að vinda upp á sig, því þessa dagana er ég með tvenna til þrenna tónleika á hinum ýmsu kaffihúsum bæjarins í hverri viku, sem er bara gaman. Ef maður er já-manneskja þá er alltaf nóg að gera og það gefur mér ótrúlega mikla orku að koma fram,“ segir María sem auk þess að kenna söng og syngja stýrir kór Wow air þar sem hún útsetur sjálf popplögin sem flutt eru.