Kjarabætur Laun hækka um 4,5% á almenna vinnumarkaðinum 1. maí og margir opinberir starfsmenn fá sambærilegar hækkanir mánuði síðar.
Kjarabætur Laun hækka um 4,5% á almenna vinnumarkaðinum 1. maí og margir opinberir starfsmenn fá sambærilegar hækkanir mánuði síðar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Þorri launþega á von á talsverðum launahækkunum á næstu vikum, samkvæmt kjarasamningum. Umsamin laun og launatengdir liðir á öllum almenna vinnumarkaðinum hækka um 4,5% 1.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þorri launþega á von á talsverðum launahækkunum á næstu vikum, samkvæmt kjarasamningum. Umsamin laun og launatengdir liðir á öllum almenna vinnumarkaðinum hækka um 4,5% 1. maí næstkomandi, sem er hátíðar- og baráttudagur verkafólks. Þá breytast launatöflur og verða lágmarkslaun á landinu 280 þúsund kr. á mánuði fyrir fullt starf.

Launahækkunin kemur ofan á mánaðarlaun í maí þannig að þeir sem eru á eftirágreiddum launum fá hækkunina greidda 1. júní. Þá fá launþegar á almenna vinnumarkaðinum hækkun orlofsuppbótar sem verður 46.500 kr. 1. júní miðað við fullt starf.

Fleiri hópar launamanna fá hækkanir skv. kjarasamningum á næstunni. Félagsmenn í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja fá öllu meiri launahækkun eða 5% um næstu mánaðamót auk þess sem orlofsuppbót þeirra hækkar.

Starfsmenn hjá ríki og sveitarfélögum fá einnig greiddar umsamdar launahækkanir en mánuði síðar en almenni markaðurinn eða 1. júní. Samkvæmt yfirliti sem Starfsgreinasambandið hefur birt á vefsíðu sinni yfir launahækkanir félagsmanna þess hjá ríki og sveitarfélögum á þessu ári þá hækka laun starfsfólks sveitarfélaga 1. júní um 2,5% auk þess sem launatafla þeirra breytist og hækkar um 1,7% að auki. Þá fá starfsmenn sem eru hjá sveitarfélögum 46.500 kr. orlofsuppbót 1. maí. Laun starfsfólks ríkisins hækka um 4,5% þann 1. júní og orlofsuppbótin hækkar þar einnig í 46.500 kr. á sama tíma.

Félagsmenn í opinberum félögum eiga einnig von á hækkunum. Í samningum BSRB-félaga er kveðið á um 4,5% hækkun frá og með 1. júní. Í úrskurði gerðardóms í máli 18 aðildarfélaga BHM frá í ágúst 2015 segir að félagsmenn þeirra í fullu starfi eigi að fá 63 þúsund kr. eingreiðslu 1. júní næstkomandi en úrskurðurinn rennur út í lok ágúst næstkomandi. Hjúkrunarfræðingar fá 4,5% hækkun 1. júní skv. sama úrskurði kjararáðs en kjarasamningur þeirra losnar hins vegar ekki fyrr 31. mars 2019.

Í samningum Félags framhaldsskólakennara og ríkisins er kveðið á um að kennarar fái 63 þúsund kr. eingreiðslu 1. júní. Laun félagsmanna í Félagi grunnskólakennara hækkuðu um 3,5% 1. mars síðastliðinn, sem er seinasta almenna hækkunin á gildistíma samningsins en í kjarasamningum grunnskólakennara er einnig kveðið á um að kennarar fái persónuuppbót, eða svokallaða annaruppbót, í lok hverrar annar, sem kemur næst til greiðslu 1. júní og hljóðar upp á 82.500 kr.

Atvinnurekendur taka á sig aukinn kostnað

Til viðbótar við þær launakostnaðarhækkanir sem fyrirtæki landsins og hið opinbera þurfa að standa undir á næstunni taka atvinnurekendur á almennum markaði á sig aukinn kostnað vegna lífeyrisiðgjalda í sumar þegar annar áfangi samkomulags Samtaka atvinnulífsins og ASÍ um hækkun iðgjalda launagreiðenda í lífeyrissjóði kemur til framkvæmda. 1. júlí hækkar mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði og fer í 10%. Skylduiðgjald launagreiðenda og launþega í lífeyrissjóði verður þá komið í 14% (4% iðgjald launþega og 10% iðgjald atvinnurekenda). Lokahækkunin á sér svo stað 1. júlí á næsta ári en þá hækkar mótframlag launagreiðenda aftur um 1,5% stig og fer í 11,5%.