Fylkir Hulda Hrund Arnarsdóttir lék alla leiki Árbæjarliðsins í deildinni í fyrra þegar það endaði í áttunda sæti.
Fylkir Hulda Hrund Arnarsdóttir lék alla leiki Árbæjarliðsins í deildinni í fyrra þegar það endaði í áttunda sæti. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótboltinn 2017 Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Ef sagan kennir okkur eitthvað þá eru yfirgnæfandi líkur á því að að minnsta kosti annar nýliðanna í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, Haukar eða Grindavík, kveðji deildina í haust.

Fótboltinn 2017

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Ef sagan kennir okkur eitthvað þá eru yfirgnæfandi líkur á því að að minnsta kosti annar nýliðanna í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, Haukar eða Grindavík, kveðji deildina í haust. Ekki er þó fullvíst að fallbarátta verði hlutskipti beggja þessara liða. Fylkir og KR sluppu við fall með dramatískum hætti í lokaumferðinni í fyrra og hafa farið ólíkar leiðir til að forðast sömu vandræði í ár.

Keppni í Pepsi-deild kvenna hefst á fimmtudaginn en leiknar verða sjö umferðir áður en maí er allur. Leika þarf þétt vegna Evrópumótsins í Hollandi í júlí. Morgunblaðið spáir í spilin varðandi deildina næstu daga og skoðar í dag liðin tvö sem komu upp úr 1. deild í stað ÍA og Selfoss, og liðin sem enduðu í 7. og 8. sæti Pepsi-deildar í fyrra.

Sjö erlendar landsliðskonur í Grindavík

Stökkið úr næstefstu í efstu deild er stórt og Grindvíkingar virðast vel meðvitaðir um það. Þeir hafa bætt við sig öflugum, erlendum leikmönnum og í hópnum nú má finna sjö erlendar landsliðskonur. Nýr þjálfari liðsins, Róbert Jóhann Haraldsson, hefur lítinn tíma fengið með allan hópinn og þarf að slípa liðið hratt saman.

Mesta athygli vekur að Grindavík fékk til sín tvær brasilískar landsliðskonur; miðjumanninn Thaisu sem var byrjunarliðsmaður á HM í Kanada 2015, og kantmanninn/bakvörðinn Rilany. Þær hafa áður leikið í Svíþjóð og fóru með Tyresö í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2014. Þar að auki hefur Grindavík fengið portúgalska landsliðsframherjann Carolinu Mendes sem á að baki 54 landsleiki og lék í sænsku úrvalsdeildinni með Djurgården í fyrra.

Grindavík er svo með tvo afar öfluga, erlenda markmenn. Norður-írski landsliðsmarkvörðurinn Emma Higgins fékk aðeins 4 mörk á sig í 18 leikjum í fyrra með Grindavík, en fær nú samkeppni frá Malin Reuterwall sem á að baki 1 landsleik fyrir Svíþjóð. Reuterwall lék í sænsku úrvalsdeildinni í fyrra.

Ganversk hetja í hjarta varnarinnar

Þá er norður-írska landsliðskonan Lauren Brennan áfram í Grindavík, en hún er sóknarmaður, sem og miðvörðurinn Linda Eshun sem er landsliðskona Gana. Eshun var valin besti leikmaður Grindavíkur í fyrra og tryggði Gana bronsverðlaun á Afríkumótinu í desember. Guðrún Bentína Frímannsdóttir er með á ný eftir barneignarleyfi og verður með Eshun í miðri vörninni, og Sara Hrund Helgadóttir verður í mikilvægu hlutverki á miðjunni eftir að hún lýkur sínu námi í Bandaríkjunum nú í vor. Grindavík er einnig með fjölda efnilegra leikmanna og teflir fram liði í 2. flokki í samvinnu við Selfoss. Leikmenn eins og Dröfn Einarsdóttir og Ísabel Jasmín Almarsdóttir gætu vakið athygli í sumar.

„Þegar ég tók við í haust funduðum við og ákváðum að ná í mjög sterka leikmenn til að huga að framtíðinni. Við erum með 25 manna hóp og viljum að heimastelpurnar fái að æfa með toppleikmönnum um leið og félagið festir sig í sessi í efstu deild, svo að þær geti tekið við í framtíðinni,“ sagði Róbert Jóhann, þjálfari Grindavíkur.

Hugsanlega ári á undan áætlun

Haukar komust óvænt upp í Pepsi-deildina síðasta haust og gerðu gott betur og unnu 1. deildina. „Þetta tókst allt töluvert betur en plön gerðu ráð fyrir. Hugmyndin var bara að búa til gott fótboltalið til framtíðar, og þar erum við að horfa til næstu fimm ára. Hugsanlega erum við einu ári á undan áætlun. Við erum bara í uppbyggingarferli en að sjálfsögðu er markmiðið að halda sér uppi og við förum í hvern leik með það í huga,“ sagði Kjartan Stefánsson sem tók við sem þjálfari Hauka fyrir síðustu leiktíð, og stýrði liðinu til sigurs í 1. deild.

Alexandra 17 ára stjarna liðsins

Haukar hafa í sínum röðum einn efnilegasta leikmann deildarinnar, miðjumanninn Alexöndru Jóhannsdóttur sem er fyrirliði U17-landsliðsins og var til reynslu hjá Kristianstad í Svíþjóð síðasta haust. Kjartan segir félög hafa sýnt Alexöndru mikinn áhuga í vetur og aðeins virðist tímaspursmál hvenær hún fer í atvinnumennsku. Þrátt fyrir ungan aldur býr Alexandra yfir miklum leikskilningi og er sterk í návígjum, og mikið kemur til með að mæða á þessu ungstirni Haukaliðsins. Hugsanlega mun Sæunn Björnsdóttir, sem er aðeins 15 ára en einnig bráðefnileg, leika við hlið Alexöndru. Hin bandaríska Vienna Behnke er svo komin til að efla sóknarleikinn.

Haukar hafa auk þess fengið til sín markahæsta leikmann Grindavíkur í fyrra, Marjani Hing-Glover, en hún skoraði ekkert mark í sjö leikjum með Fylki í Pepsi-deildinni 2015: „Styrkleikar hennar nýtast okkur vel. Hún er sterk í því að taka við boltanum og halda honum, en ekki þessi dæmigerði hlaupari sem íslensk lið eru oft að leita að,“ sagði Kjartan.

Í miðri vörninni kemur mikið til með að mæða á Söru Rakel Hinriksdóttur og Hönnu Maríu Jóhannsdóttur, sem lauk námi í Bandaríkjunum um áramótin. Fyrir aftan þær verður hin bandaríska Tori Ornela í markinu: „Hún er góður markvörður og mjög flott fyrir liðið okkar; talar vel og spilar vel frá markinu,“ sagði Kjartan.

Fylkir sótti sér unga leikmenn

Fylkir hélt sér uppi í Pepsideildinni síðasta sumar með naumindum en liðið gerði markalaust jafntefli við Selfoss í lokaumferðinni, og endaði stigi fyrir ofan Selfyssinga sem féllu. Þetta er fjórða tímabil Fylkis í efstu deild eftir að liðið lék eitt ár í 1. deildinni árið 2013.

Þjálfarinn ungi Eiður Benedikt Eiríksson stýrði Fylki á síðustu leiktíð en var látinn fara undir lok tímabilsins. Jón Aðalsteinn Kristjánsson tók við liðinu eftir tímabilið og er með Kristbjörgu Helgu Ingadóttur sér til aðstoðar.

Fylkir hefur bætt við sig fjölda ungra leikmanna en misst nokkra burðarása eins og framherjann Kristínu Ernu Sigurlásdóttur, Söndru Sif Magnúsdóttur og Rut Kristjánsdóttur. Þá er Ruth Þórðardóttir hætt og markvörðurinn Audrey Rose Baldwin farin, en í hennar stað komu þær Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir og Þórdís Edda Hjartardóttir. Ásta er líklega framar í goggunarröðinni og mun eflaust hafa í nógu að snúast.

Landsliðskona Filippseyja þarf að skora mörk í Árbænum

Afar erfitt sumar gæti verið framundan hjá Fylki með þetta unga lið en Jón Aðalsteinn segir engan hjá Fylki sætta sig við fall í haust:

„Meistaraflokkur karla féll og það þýðir ákveðið tekjutap fyrir félagið. Við vorum því ekkert að versla í dýrustu hillunni í vetur. Við tókum líka þá ákvörðun að endurnýja hópinn með ungum leikmönnum sem hafa áhuga á að sanna sig. Við erum að móta framtíðarlið og hópurinn er að stóru leyti 2. flokks leikmenn. Við munum gera allt sem við getum til að halda liðinu uppi.“

Hin efnilega Jasmín Erla Ingadóttir er byrjuð að spila með Fylki á nýjan leik eftir að hafa misst af síðustu leiktíð vegna krossbandsslita og hún gæti reynst mikilvæg. Þá verður framherjinn Jesse Shugg, landsliðskona Filippseyja, að skila mörkum líkt og hún gerði óspart fyrir Tindastól í 1. deildinni í fyrra, en Shugg hefur verið að glíma við meiðsli. Hún skoraði 11 mörk í 7 leikjum fyrir Tindastól.

KR án Hólmfríðar í upphafi móts

KR var annað bestu liða landsins fyrir tíu árum síðan en hefur átt afar erfitt uppdráttar síðustu ár og lék tvö ár í 1. deild 2013-2014. Liðið hefur nú hafnað í 8. sæti Pepsi-deildarinnar tvö síðustu ár, eftir ótrúlega björgun frá falli í fyrra.

Allt annars konar tímabil ætti að bíða KR-inga nú. Til félagsins eru komnar aftur fjórar núverandi eða fyrrverandi landsliðskonur með sterkar KR-taugar, sem allar hafa verið samherjar þjálfarans Eddu Garðarsdóttur í KR eða landsliðinu. Þetta eru markahrókurinn Hólmfríður Magnúsdóttir, miðjumaðurinn Katrín Ómarsdóttir og varnarmennirnir Þórunn Helga Jónsdóttir og Ólína G. Viðarsdóttir, kona Eddu. Hólmfríður er reyndar að jafna sig af ristarbroti en er á góðum batavegi. Hún missir þó af fyrstu tveimur leikjunum hið minnsta. Katrín hlýtur að horfa til möguleikans á því að komast á EM í sumar líkt og Hólmfríður, en hefur ekki verið í landsliðshópnum að undanförnu.

Auk þess hefur KR fengið til sín Guðrúnu Karítas Sigurðardóttur, sem valin var efnilegust í deildinni 2015, frá Stjörnunni og aðra Skagamær, Grétu Stefánsdóttur, frá ÍA, auk fleiri leikmanna. Guðrún var í Bandaríkjunum við nám í vetur en kemur til landsins í vikunni.

Tók stóra ákvörðun með því að fá ekki útlendinga í vetur

Sóknarmaðurinn Margrét María Hólmarsdóttir er að komast af stað eftir að hafa slitið krossband í hné í fyrra, en hefur ekki spilað í vor. Á meðal efnilegra leikmanna KR sem gætu vakið athygli má nefna Ásdísi Karen Halldórsdóttur, sóknarsinnaðan miðjumann, og varnarmanninn Mist Þormóðsdóttur Egilssonar. KR er hins vegar ekki með neinn erlendan leikmann í sínum röðum, eftir að hafa verið með tvo Brasilíumenn allt síðasta tímabil og bandarískan miðjumann seinni hluta sumars.

„Þetta er áskorun fyrir yngri leikmennina sem voru að stíga sín fyrstu skref í Pepsideildinni í fyrra. Ég tók stóra ákvörðun með því að fá ekki útlendinga í vetur, aðallega til þess að gefa ungum leikmönnum tækifæri og búa til fleiri góða Íslendinga. Við vonumst til að vera ofar en í fyrra og að geta veitt öllum liðum góða samkeppni,“ sagði Edda þjálfari.