Ólafur Andrés Guðmundsson
Ólafur Andrés Guðmundsson
„Þetta var virkilega sætt og sterkt hjá okkur að verða meistarar þriðja árið í röð,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem varð sænskur meistari með liði sínu Kristianstad á laugardaginn.

„Þetta var virkilega sætt og sterkt hjá okkur að verða meistarar þriðja árið í röð,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem varð sænskur meistari með liði sínu Kristianstad á laugardaginn. Með liðinu leika einnig Gunnar Steinn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson. Kristianstad lagði Alingås 31:25 í úrslitaleiknum þar sem Ólafur gerði 4 mörk og Gunnar Steinn tvö.

Ólafur er fyrirliði liðsins og það kom því í hans hlut að taka við bikarnum. „Það var mjög gaman að fá að fara fyrir þessu liði enda er mikill áhugi á handbolta í bænum og allir fylgjast vel með. Við lékum í höllinni í Malmö þar sem Eurovision var haldin á sínum tíma og það voru um 13.000 áhorfendur og langflestir á okkar bandi, fólk fylgdi okkur í leikinn,“ sagði Ólafur.

Liðið kom síðan til síns heima í gær og þá mætti múgur og margmenni í Tívolígarðinn þar sem tekið var á móti liðinu og hafði Ólafur í nógu að snúast og þurfti bæði að láta mynda sig og veita eiginhandaráritanir á meðan Morgunblaðið ræddi við hann. „Það var rosalega vel tekið á móti okkur í dag þegar við komum heim og það verður örugglega fagnað hér fram eftir kvöldi og jafnvel næstu daga,“ sagði Ólafur.

„Það var mikil spenna í mannskapnum fyrir leikinn enda dálítið furðulegt að hafa einn úrslitaleik þar sem allt er undir. Það þurfti að vinna þrjá leiki í átta liða úrslitunum og í undanúrslitunum líka, en síðan er allt undir í þessum eina úrslitaleik. En mér fannst við vera með þetta allan leikinn. Markmaðurinn okkar, sem lék sinn síðasta leik þar sem hann er á förum til Melsungen í Þýskalandi, lokaði alveg markinu fyrir aftan sterka vörn okkar. Við náðum fínni forystu strax og gátum stýrt leiknum eins og við vildum eftir það,“ sagði fyrirliðinn.

Hann á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og er ekkert að hugsa sér til hreyfings. „Ég klára þennan samning og sé síðan til. Það er frábært að vera hérna, mikill áhugi á handbolta og við erum með sterkt lið sem leikur í Meistaradeildinni á næsta ári þannig að það er engin ástæða til að fara neitt,“ sagði Ólafur. skuli@mbl.is