Þríhorna Sérkennilegt horn óx út úr andliti kindar í Reykhólasveit.
Þríhorna Sérkennilegt horn óx út úr andliti kindar í Reykhólasveit. — Ljósmynd/Harpa Björk Eiríksdóttir
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Ég hef starfað sem dýralæknir á fjórða áratug en aldrei séð svona fyrirbrigði í andliti kindar,“ segir Gísli Halldórsson, dýralæknir í Búðardal.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ég hef starfað sem dýralæknir á fjórða áratug en aldrei séð svona fyrirbrigði í andliti kindar,“ segir Gísli Halldórsson, dýralæknir í Búðardal. Hann fjarlægði horn sem óx út úr höfði kindar, rétt fyrir neðan auga, á Stað í Reykhólasveit.

Kindin er í eigu Félagsbúsins á Stað. Rebekka Eiríksdóttir bóndi segir að hornið hafi verið að vaxa í tvö ár. Það hafi byrjað sem smá nibba en stækkað smám saman og verið orðið áberandi sl. haust.

Rebekka segir að hornið hafi ekki háð kindinni neitt. Hún hafi aldrei rekist utan í neitt en vissulega hafi hornið farið inn í sjónsvið hennar. Það var þess vegna sem dýralæknir sem kom á búið út af öðru var beðinn um að fjarlægja hornið.

Gísli segir það sérstakt að hornið hafi vaxið út úr húðinni og ekki verið fast við hauskúpuna eins og rætur venjulegra horna. Það hafi því verið laust, eins og afmyndaður vöxtur út úr húð en þó verið úr horni. Því hafi verið lítið mál að fjarlægja þetta.

Mynd af kindinni á Stað var sett inn á vef sauðfjárbænda á Facebook og hefur vakið þar athygli. Nokkrir nefndu dæmi um vöxt út úr húð hjá kindum, meðal annars horn. Gísli dýralæknir segir að útvöxtur geti komið í kindur, villivöxtur sem kallað er, og þá oft út frá sárum sem gróa illa. Það sé algerlega óskylt svona horni.

Um 700 fjár eru á félagsbúinu á Stað. Rebekka segist hafa verið á fullu í sauðburði og ekki haft neinn tíma til að fylgjast með umræðum á Facebook. Hún harmar það þó að í önnunum hafi hún tapað horninu. Vonar bara að hundarnir hafi ekki komist í það.