Bruni Eldurinn kom upp í reykröri.
Bruni Eldurinn kom upp í reykröri. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
Eldur kom upp í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði í gærmorgun og voru slökkviliðsmenn og björgunarsveit frá Vopnafirði boðuð á svæðið.

Eldur kom upp í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði í gærmorgun og voru slökkviliðsmenn og björgunarsveit frá Vopnafirði boðuð á svæðið. Eldurinn kom upp við þrif á reykröri þegar neisti frá slípirokki hljóp í mjölleifar sem voru í rörinu og upp kom staðbundinn eldur. Fyrirtækið hafði orðið vart við tregðu í loftflæði um reykrörið og var rörið því opnað með fyrrgreindum afleiðingum. Um stórt útkall var að ræða en auk slökkviliðs og björgunarsveita Vopnafjarðar voru slökkvilið Langanesbyggðar og Brunavarnir á Héraði kvödd á staðinn. Fljótt tókst að ná tökum á eldinum og var hluta viðbragðsaðila snúið við. „Viðbrögð starfsmanna minna voru hárrétt að mínu mati. Okkar fyrstu viðbrögð voru að útiloka að súrefni kæmist að eldinum og síðan var hann slökktur með vatni,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. Fólk var að störfum þegar eldsins varð vart en engan sakaði.

aronthordur@mbl.is