Fréttir af verslun Costco í Garðabæ hefði flestar mátt skrifa fyrirfram, svo líkur er landinn sjálfum sér. Miklar væntingar, glímuskjálfti meðal keppinauta, langar biðraðir viðskiptavina, örtröð á opnunardegi og reyfarakaup; jafnvel á kettinum í...

Fréttir af verslun Costco í Garðabæ hefði flestar mátt skrifa fyrirfram, svo líkur er landinn sjálfum sér. Miklar væntingar, glímuskjálfti meðal keppinauta, langar biðraðir viðskiptavina, örtröð á opnunardegi og reyfarakaup; jafnvel á kettinum í sekknum. Þetta er bara fyndið. Og það hefur verið gaman að sjá hér í Mogganum og á mbl.is frásagnir af fólki með drekkhlaðnar innkaupakerrur, rétt eins og nú og aldrei aftur verði hægt að fá jafnmikið fyrir jafnlítið. Minnir þetta á frásagnir af því þegar verslanir Elko voru opnaðar fyrir 15 árum eða svo, að ógleymdu æðinu þegar fyrsta sjoppa Dunkin Donuts var opnuð fyrir um tveimur árum. Þá stóð mannfjöldi fyrir utan kleinuhringjabúlluna, rétt eins og við úthlutun hjá Mæðrastyrksnefnd.

Ætla verður að viðskiptavinir Costco séu ekki að spreða í neinn óþarfa og kaupi almennt nytsamlega hluti. Líka fólkið sem rogast út með flatskjái, hrærivélar, ryksugur og útigrill í ofurstærð og svo framvegis. En þetta kaupæði kallar samt fram í hugann leiftur úr eftirminnilegu leikriti eftir Steinunni Sigurðardóttur sem sýnt var í Sjónvarpinu fyrir meira en þrjátíu árum. Líkamlegt samband í Norðurbænum hét leikritið, þar sem sagði af húsmóður sem elskaði heimilistæki, til að mynda hárþurrkur. Tilfinningalífið var háð tækjum, sem skelfdi bæði eiginmann og börn. Ástandið var sjúkt og konan þótti ekki ganga heil til skógar. Mælirinn var svo endanlega fullur þegar konan tæmdi sparibauk og ferðasjóðnum var eytt í kaup á nýjum bíl. Þó hafði konan ekki bílpróf. Allt var þetta mjög kómískt, þótt greina megi þunga undiröldu í söguþræðinum sem hér að framan er lýst.

Síðast af öllu ætlar Víkverji að setja sig í dómarasæti og hneykslast á kapphlaupinu í Costco, sem er bara hlægilegt. Það er samt aðdáunarvert hvernig snjöllum markaðsmönnum hefur tekist að fá alla með í fjörið, mæta í búðina og jafnvel elska heimilistæki.