Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Evrópa „verður að taka örlög sín í eigin hendur,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari í gær og talaði þar um breytingarnar á pólitísku landslagi heimsins, meðal annars vegna Brexit og kjörs Donalds Trump í embætti forseta Bandaríkjanna.

Merkel er nýkomin af fundi með þjóðarleiðtogum G7-ríkjanna svokölluðu, helstu iðnríkja heimsins, sem fór fram á Sikiley um helgina. Merkel var stödd í Þýskalandi í gær og talaði á sameiginlegum framboðsfundi Kristilegra demókrata og systurflokks þeirra í Bæjaralandi, CSU, en flokkarnir tveir eru að styrkja tengsl sín fyrir komandi þingkosningar í haust. „Tímarnir þar sem við gátum fullkomlega treyst hvert á annað eru liðnir. Ég hef upplifað það á síðustu dögum,“ sagði Merkel og bætti við að Þýskaland myndi leitast við að halda góðu sambandi við Bretland og Bandaríkin. Þá lagði Merkel sérstaka áherslu á góð samskipti við nýkjörinn forseta Frakklands, Emmanuel Macron.

Parísarsamkomulagið í hættu

Ekki náðist samkomulag á fundi G7- ríkjanna um Parísarsamkomulagið á laugardaginn en sex ríki af sjö samþykktu að framfylgja samkomulaginu meðan Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ákvað að fresta ákvörðun sinni um málið. Parísarsamkomulagið, sem er samþykkt sem gerð er innan rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda frá og með árinu 2020, var undirritað fyrir hönd Bandaríkjanna af forvera Trumps, Barack Obama.

Trump opnari fyrir málefninu

Donald Trump tísti á laugardaginn að hann ætlaði að taka ákvörðun um Parísarsamkomulagið í næstu viku. Að sögn James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, er Trump opnari fyrir samkomulaginu en áður. Trump hefur opinberlega efast um að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu að eiga sér stað í heiminum.

Merkel sagðist óánægð með ákvörðun Trumps og sagði að fundi loknum að „sex gegn einum“-umræðan væri „mjög erfið“ og „afar ófullnægjandi“.

Trump, sem lauk opinberri heimsókn sinni til Evrópu um helgina, var öllu jákvæðari og tísti í gær að Evrópuför sín hefði skilað frábærum árangri fyrir Bandaríkin.