Mörk Hólmfríður Magnúsdóttir með boltann en hún skoraði tvö af mörkum KR-inga.
Mörk Hólmfríður Magnúsdóttir með boltann en hún skoraði tvö af mörkum KR-inga. — Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson
Landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir var allt í öllu hjá KR, sem fékk sín fyrstu stig á tímabilinu í 7. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í gær. KR fór þá í heimsókn í Árbæinn og vann Fylki, 3:1, og skoraði Hólmfríður tvö marka liðsins.

Landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir var allt í öllu hjá KR, sem fékk sín fyrstu stig á tímabilinu í 7. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í gær. KR fór þá í heimsókn í Árbæinn og vann Fylki, 3:1, og skoraði Hólmfríður tvö marka liðsins.

Hólmfríður var að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði KR síðan 2008, en hún hefur undanfarin ár leikið erlendis. Hún hefur svo lítið verið með í upphafi móts, þar sem hún var að jafna sig á ökklabroti. Hólmfríður skoraði tvö síðustu mörk KR í leiknum og spilaði hún fyrstu 75 mínútur leiksins. Það eru bæði góðar fréttir fyrir KR og að sjálfsögðu íslenska landsliðið. Með svona áframhaldi verður Hólmfríður mætt til Hollands í byrjunarlið Íslands á Evrópumótinu í júlí.

Fylkir hélt upp á 50 ára afmælið sitt í gær, en KR-konur höfðu engan áhuga á að gefa liðinu stig í afmælisgjöf. Vesturbæjarliðið var mun tilbúnara í þennan mikilvæga leik og voru Fylkiskonur andlausar og skorti trú á verkefnið. Það er áhyggjuefni fyrir Fylki að liðið kom ekki betur inn í leik sem þennan, þar sem ansi mikið var undir. KR mun hins vegar fá fullt af stigum til viðbótar með svona frammistöðu. Fyrir leikinn hafði liðið aðeins skorað eitt mark í allt sumar og segja má að loks hafi stíflan brostið.

johanningi@mbl.is