Munu bandarískar efnisveitur opna heiminn fyrir íslenskri kvikmyndagerð?

Í viðtali við Þóri Snæ Sigurjónsson kvikmyndaframleiðanda í sunnudagsblaði Morgunblaðsins komu fram áhugaverð sjónarmið um þau tækifæri sem breytingar á sjónvarpsmarkaðnum skapa minni málsvæðum eins og því íslenska. Þórir Snær þekkir vel til í kvikmyndaheiminum. Hann hefur frá aldamótum starfað frá Danmörku við kvikmyndaframleiðslu og hefur á þeim tíma framleitt hátt í fimmtíu kvikmyndir. Þá má segja að hann hafi kynnst kvikmyndaframleiðslu ungur að árum og eigi ekki langt að sækja áhugann, en hann er sonur Sigurjóns Sighvatssonar, kvikmyndaframleiðanda í Bandaríkjunum.

Sýn Þóris Snæs á þær breytingar sem hafa orðið með tilkomu efnisveitna á borð við Netflix og Hulu er athyglisverð og gefur vonir um að við þessar breyttu aðstæður séu sóknarfæri fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn enda dreifist þættir og myndir víðar en áður. Þá sé fólk miklu opnara en það hafi verið fyrir því að horfa á efni á öðrum tungumálum en ensku. Þessi þróun hafi ekki síst byrjað með velgengni danskra og sænskra glæpaþátta og nýverið hafi norski unglingaþátturinn Skam slegið í gegn utan Noregs. Á fundi með fulltrúa Netflix hafi komið fram að Netflix teldi Ísland í sókn og að áhugi væri á þáttum frá Íslandi.

Þórir Snær segist ánægður með að starfa í Evrópu og lýsir breytingunum í kvikmyndaheiminum á þennan hátt: „Ameríska stjörnukerfið er hrunið en það sem mér finnst vera að koma í staðinn er eftirspurn eftir sértækara efni frá áhugaverðum menningarsvæðum og þar eigum við Íslendingar stór tækifæri og veitur eins og Netflix hjálpa okkur að komast í samband við umheiminn.“

Margir Íslendingar hafa náð prýðilegum árangri í kvikmyndagerð og upp á síðkastið hafa nokkrir náð góðum árangri í Hollywood, en þar er vitaskuld allt á ensku. Ef framtíðin á þessu sviði er eins og Þórir Snær Sigurjónsson lýsir henni ættu Íslendingar að geta upplifað enn meiri grósku í íslenskum kvikmyndum á næstu árum en hingað til. Það væri í senn óvænt niðurstaða af starfsemi hinna bandarísku efnisveitna og mikið fagnaðarefni.