Ég hafði ekki hitt karlinn á Laugaveginum lengi en nú rakst ég á hann fyrir utan fjármálaráðuneytið. Aldrei þessu vant var hann með hugann allan við pólitíkina en minntist ekki á kerlinguna.

Ég hafði ekki hitt karlinn á Laugaveginum lengi en nú rakst ég á hann fyrir utan fjármálaráðuneytið. Aldrei þessu vant var hann með hugann allan við pólitíkina en minntist ekki á kerlinguna. Þegar við kvöddumst hnykkti hann höfðinu á ská afturábak og sagði:

Þrjósks verða jafnan þynnt ráð

þegar þeir hafa kynnt ráð;

blasir við oss blint ráð –

Benedikt vill myntráð.

Og var horfinn.

Ólafur Stefánsson hefur gert það sér til gamans í vetur að spreyta sig á því að þýða ljóð þýska skáldhúmoristans Heinz Erhardt yfir á íslensku og tekist vel. Hér er Þjóðvísa:

Grafið er gull við strenginn,

en gleymt og finnst ei meir.

Af því veit hér enginn,

utan hrafnar tveir.

Lítur þá auðlegð enginn,

óljós er minning og deyr.

Um grafið gull við strenginn,

geipa hrafnar tveir.

Til enda er gatan gengin

hvar gnapa hrafnar tveir.

Hirða skal fúslega fenginn,

og finna kannski meir.

Ég gróf þar fjöðrum fenginn,

en fann samt aðeins leir.

Hlógu þá hátt við strenginn,

hrafnar báðir tveir.

Guðmundur á Sandi segir frá því, að hann „þekki níræða húsfreyju, sem hélt fótum sínum volgum í óhitaðri kirkju á messudögum með því móti að hún skrifaði S með tánum á gólfið, sitt á hvað. Pilsfaldurinn leyndi leiknum. Þessi hreyfing lokkaði blóðið niður í tærnar. Stúlkurnar sem næsta vísa greinir frá báru fyrir sig fæturna öðruvísi:

Mikið dansa meyjarnar ,

mest við Svein og Gyrði.

Undir þeim sjást eyjarnar

úti á Breiðafirði.

Guðmundur bætir því við að meyjarnar hafi verið í dansinum hátt uppi og stappað nærri að þær hafi sigrast á þyngdarlögmálinu, – „og er þetta tvímælalaust léttúð“.

Það er vorhugur í Gylfa Þorkelssyni á Boðnarmiði:

Ljúf er gangan lífs á veg,

leiðir fátt sé teppa

og hrossum mínum ætla eg

út á grös að sleppa.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is