Það eru nokkrir íþróttamenn sem eru sveipaðir dýrðarljóma og sjónarsviptirinn er mikill þegar slíkir íþróttamenn hverfa af sviðinu. Að mínu viti er Francesco Totti einn af þeim íþróttamönnum sem hafa slíkan dýrðarljóma í kringum sig.
Það eru nokkrir íþróttamenn sem eru sveipaðir dýrðarljóma og sjónarsviptirinn er mikill þegar slíkir íþróttamenn hverfa af sviðinu. Að mínu viti er Francesco Totti einn af þeim íþróttamönnum sem hafa slíkan dýrðarljóma í kringum sig.

Totti lék í gær sinn síðasta leik fyrir Roma, það félag sem hann hefur leikið fyrir allan sinn feril. Totti hefur leikið í 25 leiktíðir fyrir Roma og á þeim tíma bandað frá sér gylliboðum frá öðrum stórliðum sem borið hafa víurnar í hann.

Slík hollusta er ekki á hverju strái í knattspyrnuheiminum í dag þar sem leikmenn falla hver á eftir öðrum fyrir gylliboðum og kíkja á grænni skóga hjá öðrum liðum. Totti er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Roma fyrir frammistöðu sína innan vallar og þá tryggð sem hann hefur haldið við félagið.

Totti hefur átt erfitt uppdráttar á þessu tímabili hjá Roma, en kastast hefur í kekki á milli hans og Luciano Spalletti, þjálfara Roma, og síðasta tímabilið hjá Totti hefur að mörgu leyti einkennst af fregnum af erjum þeirra í milli.

Þegar fram líða stundir munu knattspyrnuáhugamenn þó klárlega minnast Totti fyrir afrek hans á knattspyrnuvellinum, falleg tilþrif hans þar og glæsileg mörk sem hann skoraði. Litríkum og glæstum ferli hans sem leikmaður Roma er nú lokið og spurning hvað tekur við.

Rökrétt framhald á ferli Totti innan knattspyrnunnar væri að hann fúlsaði við fjármunum sem honum munu bjóðast frá Bandaríkjunum, Kína og Austurlöndum og gerðist starfsmaður á skrifstofu Roma.