John F. Kennedy Eitt af hans helstu stefnumálum var lækkun skatta.
John F. Kennedy Eitt af hans helstu stefnumálum var lækkun skatta.
Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu John F. Kennedy sem gegndi embætti forseta Bandaríkjanna á árunum 1961-1963. Kennedy var kjörinn 35.

Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu John F. Kennedy sem gegndi embætti forseta Bandaríkjanna á árunum 1961-1963. Kennedy var kjörinn 35. forseti Bandaríkjanna og varð um leið næstyngsti forseti í sögu Bandaríkjanna þegar hann hafði betur gegn repúblikananum Richard M. Nixon. Áður hafði Kennedy setið í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir hönd Massachusetts-ríkis. Þrátt fyrir að skilgreina sig sem demókrata var eitt helsta stefnumál hans lækkun skatta. Hann taldi að með skattalækkunum mætti örva hagvöxt. Árið 1963 lagði hann fram tillögu um að efri mörk tekjuskatts yrðu lækkuð úr 91% í 65% og fyrirtækjaskattur yrði lækkaður úr 52% í 47%. Síðar sama ár jókst hagvöxtur í Bandaríkjunum, repúblikanar og demókratar töldu þó að án þess að minnka útgjöld á móti væri óásættanlegt að lækka skatta. Kennedy var ósammála og taldi að áframhaldandi auknum hagvexti yrði ekki náð án þess að lækka skatta. Í ágúst 1963 var tillaga Kennedys samþykkt og var forsetinn sannfærður um að þetta væri rétt leið í átt að minna atvinnuleysi og skuldsetningu. Þrátt fyrir lækkun skatta á bæði einstaklinga og fyrirtæki jukust skatttekjur ríkisins um tæpa 60 milljarða bandaríkjadollara frá árinu 1961 til ársins 1968. Forsetatíð Kennedys tók skyndilegan enda 22. nóvember 1963 þegar hann var skotinn til bana á ferð sinni um Dallas í Texas-ríki. Hans verður minnst víðsvegar um Bandaríkin í dag. aronthordur@mbl.is