Elísabet (Elsa) Jónsdóttir fæddist 8. september 1924. Hún lést 7. maí 2017.

Útför Elsu fór fram 23. maí 2017.

Elsku yndislega amma mín er fallin frá, 92 ára gömul.

Ég kveð hana með mikilli sorg og trega í hjarta en samt svo miklu þakklæti. Við amma erum búnar að bralla svo mikið saman. Alveg frá því að ég man eftir mér er hún svoleiðis búin að sauma á mig fötin, gardínur og svo þegar ég ákvað að hanna töskur, púða eða hvað sem það var, þá var hún komin á saumavélina og byrjuð að sauma. Ég óska þess í dag og hugsa hvað ég hefði nú átt að fylgjast með henni og læra af henni saumaskapinn. Hún var svo vandvirk og flottasta saumakonan, hún gat allt.

Hún amma var alltaf boðin og búin til að aðstoða og alls staðar var hún mætt með hjálparhönd. Amma var mikil dugnaðarkona og gaf aldrei neitt eftir, eins og uppi í sumarbústaðnum sínum. Hún vann þar hörðum höndum og slakaði voða lítið á, því þessi sumarbústaður gerði sig ekki sjálfur þannig að hún gekk í öll verk. Enda var alveg yndislegt hjá ömmu og afa og með þeim á ég margar góðar minningar. Börnin mín voru svo heppin að fá að kynnast henni og það sem hún var dugleg með þau, í strætó, fótbolta (hún í marki) og allt sem þeim datt í hug reyndi hún að uppfylla og með mikilli þolinmæði.

Elsku amma mín.

Takk, takk fyrir að gefa mér allar þessar minningar, gleði, ást og hlýju. Ég hugsa mér að þú sért komin til afa og allra þinna og líði mjög vel. Elska þig ofurheitt.

Þín

Selma.