Twitter Skjáskotunum er oft tíst.
Twitter Skjáskotunum er oft tíst. — AFP
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

„Það er hegningarlagabrot í eðli sínu að skýra frá einkamálefnum annars manns og það er alveg ljóst að fólk er í trúnaði að tala saman þarna,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, um einkasamtöl á samfélagsmiðlum. Skjáskot af slíkum samtölum er að finna víða á netinu en slíkt er að sögn Helgu brot á hegningarlögum. Hún segir einnig mögulegt að skilaboð þar sem einstaklingar stíga í vænginn við aðra einstaklinga gætu fallið undir viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi persónuverndarlaga en upplýsingar um kynhegðun falla þar undir. „Kynhegðun telst til viðkvæmra persónuupplýsinga og að dreifa því áfram. Það er túlkunaratriði hvað telst vera kynhegðun. Það að reyna við einhvern er náttúrlega ákveðin kynhegðun og það er venjulega eitthvað sem maður gerir prívat. Það að segja alþjóð að þessi reyndi við mig og setja það inn á Facebook eða annars staðar yrði þá skýrt brot á persónuverndarlögum líka,“ segir Helga. Einstaklingar sem vilja leita réttar síns vegna slíkra brota þurfa hins vegar að fara í einkarefsimál og segir Helga að það geti verið kostnaðarsamt. Hún segir að það yrði hins vegar erfitt fyrir Persónuvernd að sinna öllum þessum málum ef þessu yrði breytt í persónuverndarmál.

„Það er nokkuð ljóst að fjórir lögfræðingar á vaktinni hjá Persónuvernd myndu ekki ná að sinna þessu ef það kæmi til stefnubreytingar í þessum efnum og fara með málin sem persónuverndarmál. Við náum ekki að anna öllum þeim málum sem við fáum í dag. Það getur verið að í framtíðinni verði reynt að horfa á þetta sem persónuverndarmál og kæra þetta sem brot á persónuverndarlögum.“