Fögnuður Albert Brynjar Ingason fagnar marki sínu gegn HK í Kórnum í gær.
Fögnuður Albert Brynjar Ingason fagnar marki sínu gegn HK í Kórnum í gær. — Morgunblaðið/Ófeigur
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Fimmtíu ára afmæli Fylkis var fagnað á viðeigandi hátt í gær en karlalið félagsins í knattspyrnu skaust þá á topp 1. deildar með sannfærandi útisigri gegn HK í Kórnum, 3:0.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Fimmtíu ára afmæli Fylkis var fagnað á viðeigandi hátt í gær en karlalið félagsins í knattspyrnu skaust þá á topp 1. deildar með sannfærandi útisigri gegn HK í Kórnum, 3:0.

Mörkin komu öll á síðustu 15 mínútum fyrri hálfleiks, Emil Ásmundsson skoraði tvívegis með góðum skotum af 20 metra færi og inná milli gerði Albert Brynjar Ingason skemmtilegt mark eftir skyndisókn Árbæjarliðsins.

Leikurinn var opinn og jafn fram að fyrsta markinu en úrslitin voru ráðin í hálfleik. Fylkismenn léku skynsamlega en bæði lið hefðu getað bætt við mörkum.

Fyrirfram voru Árbæingarnir taldir líklegir til að endurheimta úrvalsdeildarsætið og miðað við leikinn í gær eru þeir líklegir til þess. Mikil reynsla af efstu deild er til staðar í liðinu og gæðin sem leikmenn Fylkis búa yfir eiga að vera meira en nóg til þess að fleyta þeim aftur í hóp þeirra bestu.

HK er með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina en hefur tapað tveimur heimaleikjum. Kópavogsliðið sýndi á köflum að það getur gert ágæta hluti en eflaust mun barátta HK í sumar snúast fyrst og fremst um að halda sér frá hættusvæði deildarinnar.

*Þór fékk sín fyrstu stig á laugardaginn og komst af botninum með því að sigra Hauka, 2:1, á Akureyri. Ármann Pétur Ævarsson og Gunnar Örvar Stefánsson skoruðu fyrir Þór en Elton Renato Livramento svaraði fyrir Hauka sem töpuðu sínum fyrsta leik.