Verkamannaflokkurinn sækir á með óvinsælan leiðtoga

Kosningabaráttan í Bretlandi hófst á ný á föstudag eftir níðingsverkið í Manchester. Nýjar kannanir sýndu að bilið á milli Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins hefði minnkað niður í fimm prósentustig, sem aftur myndi þýða á landsvísu, að meirihluti Íhaldsmanna myndi minnka en ekki stækka.

Almennt eru kannanirnar túlkaðar sem viðbrögð almennings við stórfenglegu sjálfsmarki sem May setti í eigin net, þegar hún gaf út kosningastefnu Íhaldsflokksins. Verkamannaflokkurinn hafði áður fælt kjósendur frá sér með því að boða harðari vinstri stefnu en hann hefur haft um langa hríð.

Íhaldsmenn virtust telja að nú væri röðin komin að sér og gáfu því út stefnuskrá, þar sem á síðustu stundu hafði verið bætt inn klausu, sem almennt var túlkuð svo, að flokkurinn hygðist láta eldri borgara greiða fyrir alla heilbrigðisþjónustu án nokkurs greiðsluþaks. Stefnan hafði ekkert verið rædd innan flokksins áður en hún endaði í plagginu, og því litu talsmenn flokksins klaufalega út þegar fréttamenn gengu á þá og spurðu út í stefnuna.

Fjölmiðlar af báðum endum hins pólitíska litrófs voru fljótir að uppnefna stefnuna „elliglapaskattinn“, sem leiddi til þess að May skipti um stefnu á svipstundu. Varð samanburðurinn við Margréti Thatcher, sem var fræg fyrir að vilja sem minnst skipta um kúrs, þar með heldur áberandi og óhagstæður. May hefur nokkrum sinnum neyðst til þess að lúffa með hugmyndir sínar, sem aftur hefur vegið að trúverðugleika hennar. Í ljósi þess að May lagði kosningabaráttu flokks síns þannig upp, að hún snerist sérstaklega um það hverjum væri betur treystandi fyrir stjórn landsins, þykir málið allt hið vandræðalegasta.

En þó að kannanir séu stundum túlkaðar þannig að Íhaldsflokkurinn sé að tapa fylgi er það fylgistap í mesta lagi óverulegt. Á hinn bóginn hefur Verkamannaflokkurinn bætt mikið við sig, þrátt fyrir að sömu kannanir sýni að kjósendur treysti May mun betur fyrir forsætisráðuneytinu en Jeremy Corbyn, formanni Verkamannaflokksins.

Þetta hefur orðið til þess að May hefur hert róðurinn gegn Corbyn, meðal annars eftir ummæli hans í kjölfar árásarinnar í Manchester þar sem hann færði hluta af ábyrgðinni yfir á stefnu breskra stjórnvalda.

Enn sem komið er virðast líkur á að Íhaldsflokkurinn fari með sigur af hólmi í kosningunum sem haldnar verða eftir tíu daga. En fari svo að Theresa May missi þingstyrk eða tapi jafnvel, verður þeirra minnst sem eftirminnilegs sjálfsmarks af hennar hálfu.